Lausnir í vösum skattgreiðenda?
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­mála­manna er að sýna það í verki að okk­ur sé al­vara með það að ná verðbólgu niður. All­ir þeir sem koma að hag­stjórn lands­ins: Seðlabank­inn, aðilar vinnu­markaðar­ins og hið op­in­bera, þurfa að leggja sitt á vog­ar­skál­arn­ar.

Hvað ríkið varðar er ljóst að draga þarf úr rík­is­út­gjöld­um og hagræða enn frek­ar í op­in­ber­um rekstri. Það ætti þó ekki að vera skamm­tíma­mark­mið, held­ur viðvar­andi verk­efni í rekstri hins op­in­bera. Meg­inþorri auk­inna rík­is­út­gjalda hef­ur á liðnum árum runnið til heil­brigðis- og vel­ferðar­mála og það rík­ir nokk­ur sátt í sam­fé­lag­inu um þá til­hög­un. Rík­is­út­gjöld geta þó ekki vaxið enda­laust og alls ekki á þeim hraða sem þau hafa gert á liðnum árum.

Áfram þurf­um við að leita leiða til að efla þessa þjón­ustu án þess að út­gjöld til mála­flokk­anna vaxi út í hið óend­an­lega. Við mun­um ekki standa und­ir þeirri grunnþjón­ustu og þeim gæðum sem við ger­um kröfu um, nema með því að inn­leiða nýj­ar lausn­ir og nýj­an hugs­un­ar­gang sam­hliða. Við þurf­um að virkja einkafram­takið og gefa ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um svig­rúm til að byggja upp starf­semi og þjón­ustu.

Það er eng­inn skort­ur á því hvernig stjórn­mála­menn sjá fyr­ir sér að auka tekj­ur hins op­in­bera. Það verður alltaf ein­hver at­vinnu­grein sem verður í sigt­inu og sjálfsagt var það rétt lýs­ing þegar einn flokk­ur­inn talaði um fjöl­breytt­ar hug­mynd­ir um aukna skatt­heimtu, sem hlaðborð sem hægt væri að velja af. Þó svo að stjórn­mála­menn, jafn­vel þeir sem gefa sig út fyr­ir að vita meira um hag­stjórn en aðrir, tali eins og upp­sprett­ur skatt­heimtu séu óend­an­leg­ar – þá er það ekki svo.

Það felst eng­in lang­tíma­lausn í því að lofa gulli og græn­um skóg­um og ætl­ast síðan til þess að ein­hverj­ir aðrir borgi. Til viðbót­ar því að gefa einkaaðilum svig­rúm til að vaxa og dafna get­ur rík­is­valdið gert annað og meira en að bara styðja ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki fjár­hags­lega eða búa þeim til skil­virk­an lag­aramma. Ríkið get­ur keypt af þeim vör­ur og þjón­ustu og látið af gam­aldags rekstr­ar­formi sem fel­ur ekki bara í sér sóun held­ur tek­ur súr­efnið af frum­kvöðlum.

Við sjá­um því oft haldið fram að lægri skatt­ar feli í sér að það sé minna til skipt­anna eða að skerðing verði óhjá­kvæmi­lega á þjón­ustu hins op­in­bera. Að sama skapi halda sum­ir því fram að hagræðing og bætt meðferð á fjár­mun­um hins op­in­bera feli alltaf í sér skerðingu á þjón­ustu.

Í því felst mik­il þröng­sýni og líka upp­gjöf – enda er staðreynd­in sú að oft er hægt að veita betri þjón­ustu fyr­ir minna fé með nýj­um lausn­um. Um það geta frum­kvöðlar og þeir sem nýta tækn­ina á sín­um vinnu­stöðum, vitnað. Með lægri skött­um búum við þvert á móti til hvata fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki, til að gera meira og gera bet­ur á sín­um sviðum. Í því felst ávinn­ing­ur fyr­ir allt sam­fé­lagið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. maí 2023.