Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Kára gekk ekkert sérstaklega vel í skóla en staulaðist einhvern veginn í gegnum þetta. Sitjandi undir pressu frá foreldrum fór hann þó í gegnum framhaldsskóla. Það var bærilegt af því að nokkrir vinir hans voru þar líka. Þetta hafðist loksins en það tók hann fimm ár að fá hvítu húfuna á kollinn. Hann var stoltur af áfanganum en hikandi, því hann var ekki alveg viss hvað tæki við og ekki hvort eða hvernig stúdentsprófið myndi nýtast. Þó flestir segðu háskólanám vera mikilvægt var hann ekki tilbúinn strax.
Svona sögur þekkjum við flest. Íslenskir strákar virðast margir sjá lítinn tilgang með auknu námi. Þar af leiðandi leiðist þeim mörgum á meðan náminu stendur. Það er stórt verkefni að þeir upplifi skýran tilgang með námi og sjái fyrir að það greiði þeim farveg inn í spennandi framtíð, fleiri tækifæri og efli getu þeirra samhliða líðan og virkni.
Staðreyndin er sú að á Íslandi útskrifast talsvert færri úr háskólum en í löndum sem við berum okkur saman við. Þar munar einungis um strákana. Þeir eru ekki í meira mæli í iðn- og verknámi hér á landi, heldur eigum við Evrópumet í að þessir ungu strákar séu ekki í neinu námi. Jafn mikilvægt er að fólki fjölgi líka í iðn- og verknámi.
Í dag fer af stað hvatning til að brýna fólk, þá sérstaklega stráka, til að skrá sig í háskóla og sjá tækifærin sem felst í því að mennta sig. Yfirskriftin er: „Heimurinn stækkar í háskóla“. Átakið byggist á könnun sem gerð var meðal þeirra sem eru nú að útskrifast úr framhaldsskólum og viðtölum við stráka á svipuðum aldri. Niðurstöðurnar eru sláandi en koma því miður ekki á óvart. Kynjamunurinn er töluverður þegar t.d. kemur að ástæðum þess að ungt fólk frestar þess að fara í háskólanám. Strákarnir ætla í ótímabundið leyfi frá námi og mun fleiri strákar en stelpur telja sig ekki hafa efni á því að fara í nám og fresta því um sinn. Frestun sem því miður verður of oft til þess að þessi einstaklingar skila sér aldrei í aukið nám.
Kári, sem fjallað var um hér í upphafi, áttaði sig á því að það opnast ný tækifæri við háskólanám. Þess vegna viljum við hvetja stráka til að grípa tækifærin núna, fresta því ekki um of og njóta frelsisins og alls þess jákvæða sem fylgir háskólanámi. Það er hægt að hefja háskólanám án þess að vera búinn að ákveða nákvæmlega hvað þú ætlar að verða þegar þú verður stór. Samfélagið vantar fleiri menntaða sérfræðinga í fjölda spennandi starfa í fjölbreyttum atvinnugreinum. Tækifærin hafa líklega aldrei verið fleiri og fjölbreyttari.
Ég hvet okkur öll til þess að taka þátt og hvetja strákana okkar í nám. Það er hagsmunamál okkar allra og samfélagsins að þeir finni áhuga sínum farveg og grípi tækifærin sem felast í menntun.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. maí 2023.