Á ríkissjóður enga vini?
'}}

Ívar Karl Hafliðason, sveitarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi:

Í umræðum á Alþingi þann 10. maí síðastliðinn sagði fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson undrast hvað ríkissjóður Íslands ætti fáa vini. Umræðuefniefnið var vandi ÍL-sjóðs og þeir möguleikar sem eru í stöðunni. Farið var yfir stöðuna í skýrslu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem kom út í október á síðasta ári.

Ég er til að vera vinur ríkissjóðs í þessu máli. Í ljósi þess hve lítinn áhuga lífeyrissjóðir hafa sýnt uppbyggingu innviða á landsbyggðinni þá held ég að það væri vel á því að þeir fjármunir sem myndu sparast, við að gera höfuðstól þessara lána upp, færu að hluta í vel skilgreind innviðaverkefni sem myndu nýtast íbúum þessa lands. Með því má leggja grunninn af því að landsbyggðin blómstri okkur öllum til hagsældar.

Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytis er talað um að kostnaður ríkisins vegna sjóðsins aukist um 1500 milljónir króna á hverjum mánuði eða um 18 milljarða króna á ári að óbreyttu. Við slit á sjóðnum væri hægt að nýta þennan pening metnaðarfulla innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Við gætum horft til frænda okkar í Færeyjum sem hafa fjárfest svo um munar í bættum samgöngum. Þeir eru nefnilega búnir að sjá út að góðar samgöngur eru undirstaða þess að þjóðin geti lifað og starfað sem ein heild.

Verkefni sem hægt væri að ráðast í á næstu árum, og áratugum eru m.a.:

  • Fjármögnun jarðgangnaáætlunar
  • Bætt bráðaþjónustu í heilbrigðismálum
  • Styrkja nauðsynlega innviði til orkuskipta
  • Tvöfalda allar brýr á hringveginum
  • Ráðast í uppbyggingu félagslegs húsnæðis
  • Uppbygging flugvalla

Ég er viss um að ég yrði ekki einn um að verða vinur ríkissjóðs í þessu máli sé það á hreinu að þessir fjármunir fari í verkefni sem nýtast muni landsmönnum með áþreifanlegum hætti.