Reykjavíkurborg rædd á Alþingi
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Þessa vikuna höfum við þingmenn rætt fjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi. Eins og áætlunin ber með sér eru markmiðin í ríkisfjármálunum skýr: að ná niður verðbólgu, og verja lífskjörin okkar og kaupmáttinn. Nú þegar hefur náðst mikill árangur við að draga úr halla ríkissjóðs og stjórnvöld hafa sett sér skýr markmið um að stöðva hækkun skulda. Áætlanir stjórnvalda um að koma okkur út úr krísunni hafa ekki aðeins staðist, heldur er útlit fyrir að markmiðum þeirra verði náð á undan áætlun.

Hinum megin Vonarstrætis er fjármálastjórnin hins vegar af allt öðrum meiði. Þar hefur hallarekstur farið hratt vaxandi og frávik frá rekstraráætlunum Reykjavíkurborgar eru stórfelld. Og hallinn margfaldur á við það sem hefur verið áætlað. Skuldasöfnun borgaryfirvalda hefur verið geigvænleg og skuldahlutfallið hefur stórhækkað. Eins og M.a. hefur verið fjallað um hér í blaðinu, er borgin rekin á yfirdrætti og reystir sér hreinlega ekki í skuldabréfaútboð við núverandi aðstæður. Það er af sem áður var því áratugum saman státaði Reykjavíkurborg af afburða fjárhagsstöðu.

Ráðherra sveitarstjórnarmála

Af þessu tilefni ræddi ég við innviðaráðherra við umræðuna um fjármálaáætlun. Ráðherrann er jú ráðherra sveitarstjórnarmála og hefur m.a. eftirlit með fjármálum sveitarstjórna. Mér lék hugur á að vita hvaða áhrif alvarleg fjárhagsstaða og -horfur í langstærsta sveitarfélagi landsins, hefðu á ríkisfjármálin. Sömuleiðis óskaði ég eftir upplýsingum um það hvort innviðaráðherra hygðist hefja viðræður við Reykjavíkurborg um þessa alvarlegu stöðu áður en bráðabirgðaundanþága sveitarstjórnarlaga rennur út árið 2025 til að koma í veg fyrir alvarlegt vantraust til sveitarfélaga á fjármálamarkaði.

Innviðaráðherra sagðist ekki vilja svara fyrir stöðu einstaka sveitarfélaga, en ítrekaði að hann hefði óskað eftir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi sveitarfélögunum bréf hvað þetta varðar. Og í bréfi til borgarinnar er að finna alvarlegar aðvaranir. Ráðherrann taldi fjármálaáætlun þó sýna að staða sveitarfélaga myndi jafnast og jafnvægi kæmist á fjármál þeirra á næstu fimm árum. Hann vildi þó ekki gera lítið úr erfiðleikum og stöðunni hjá Reykjavíkurborg.

Ráðherrann er töluvert bjartsýnni en undirrituð sem horfir á þróunina í fjármálum borgarinnar undanfarinn áratug og finnst hún ekki góð; þvert á móti. Ég spurði ráðherrann því áfram út í lögbundna eftirlitsskyldu hans með Reykjavíkurborg og hvort ráðuneyti hans hefði stigið nægilega fast til jarðar. Af hverju borginni hefði m.a. verið heimilað að leggja fram samantekin reikningsskil án lagastoðar í stað samstæðuársreiknings, eins og henni ber skylda til lögum samkvæmt. Það með öðru hefur leitt til þess að ársreikningur hennar gefur ekki rétta mynd af fjárhagnum eins og fjölmargir hafa bent á. Borgarstjóri hefur síðan nýtt sér þessi misvísandi gögn til að fullyrða að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar sé sterk og standi vel.

Vítahringur hallareksturs

Varðandi reikningsskilin rakti innviðaráðherra aðkomu eftirlitsstofnunar EFTA og taldi samskipti ráðuneytisins við hana jafngilda blessun yfir framgöngunni. Svo er ekki enda annað mál þar til skoðunar en samantekin reikningsskil og er því enn ólokið. Hann velti því hins vegar upp hvort það væri e.t.v. tilefni til þess að skoða heimildir eftirlitsnefndarinnar til frekari inngripa varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Það gæti verið tilefni til þess að skoða slíka lagasetningu á Alþingi.

Undirrituð telur að vísu að fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar sé ekki kominn til af skorti á reglusetningu. Hann sé kominn til af áratuga vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar – óráðsíu eins og það heitir á einfaldri íslensku. Meirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur eytt umfram efni og það þrátt fyrir stórauknar tekjur, m.a.s. á covid-árunum.

Ég vil ekki hrósa stjórnvöldum um of, þau mættu sannarlega gera betur – sérstaklega þegar kemur að aðhaldi og hagræðingu í ríkisrekstri. En þau koma sannarlega vel út í samanburði við skussana í Reykjavíkurborg sem njóta með hverjum degi sífellt rýrnandi lánstrausts.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 18. apríl 2023