Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um skattkerfisbreytingar sl. áratug sem hafa miðað að því að létta byrðar launafólks og bæta afkomu fyrirtækja og hvetja þau til fjárfestinga. Skattar hafa verið lækkaðir og frítekjumarkið hækkað. Þessar aðgerðir hafa borið árangur og efnahagsstjórn undanfarinna ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur aukið það sem er til skipta fyrir okkur landsmenn – stækkað kökuna.
Það er hins vegar eins með þetta og önnur atriði varðandi stjórn landsins, að það er gott að skoða skattheimtu ríkisins í samanburði við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. Í því skipta nokkrar breytur höfuðmáli.
Í fyrsta lagi má nefna hagstæða aldurssamsetningu þjóðarinnar. Hún ætti með réttu að hafa áhrif á opinber útgjöld, eins og við bendum gjarnan á þegar við berum saman útgjöld þjóða til heilbrigðismála.
Í öðru lagi skerum við okkur úr í samanburði við flest önnur lönd þegar kemur að varnarmálum, en við höfum þar algjörlega sérstöðu sem herlaus þjóð. Útgjöld okkar til málaflokksins eru því lægri en ella eins og við þekkjum úr umræðunni um framlagsskyldur okkar í varnarsamstarfi.
Í þriðja lagi skerum við okkur sömuleiðis úr þegar kemur að fjármögnun eftirlauna- og örorkulífeyriskerfisins. Hér höfum við hæsta hlutfall sjóðsöfnunar sem þekkist að ég best veit. Það hefur auðvitað gríðarlega jákvæð áhrif á opinber útgjöld til málaflokksins.
Einn mikilvægasti liðurinn í starfi okkar alþingismanna er eftirlit með ríkisstjórn og stjórnsýslu ríkisins, ekki síst með því að vel sé farið með fjármuni almennings. Ég hef því sent fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurnir um framangreint, þ.e. um áhrif aldurssamsetningar þjóðarinnar á opinber útgjöld og um heildarútgjöld hins opinbera í alþjóðlegum samanburði að teknu tilliti til útgjalda til varnarmála og til ólíkrar fjármögnunar lífeyriskerfa milli landa. Margt má læra af slíkum samanburði milli landa. Við stjórnun fyrirtækja er slíkur samanburður hefðbundið vinnulag.
Það verður fróðlegt að sjá svör ráðherrans. Tilfinning mín er sú að eyjan okkar sé alls ekki sú skattaparadís sem einhverjir vilja vera láta og að þau gætu orðið stjórnvöldum hvatning til þess að fara betur með almannafé. Nú hvetja háværar raddir til enn aukinnar skattheimtu. Eigum við ekki að staldra við og spyrja okkur fyrst grundvallarspurninga? Reynslan sýnir nefnilega að hækkun skatta kann að leiða til tekjulækkunar ríkisins sé farið yfir ákveðin mörk. Ísland nálgast þau mörk hratt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2023.