Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Einn merkasti fjármálaráðherra Bretlands eftir stríð er fallinn frá. Nigel Lawson var áhrifamesti arkitekt róttækra efnahagsumbóta Margrétar Thatcher á níunda áratug liðinnar aldar. Hann varð undirráðherra í fjármálaráðuneytinu þegar Thatcher tók við sem forsætisráðherra árið 1979, svo orkumálaráðherra 1981 en tók við sem fjármálaráðherra árið 1983. Sem fjármálaráðherra leiddi Lawson róttækar breytingar í efnahags- og ríkisfjármálum – breytingar sem Bretland þurfti nauðsynlega á að halda eftir að hafa dregist aftur úr öðrum þjóðum.
„Vinsæll fjármálaráðherra er ekki að sinna starfi sínu,“ sagði Lawson eitt sinn. Hann var sannfærður um að stjórnmálamaður sem væri tilbúinn til að mæta andúð andstæðinganna væri stjórnmálamaður sem gæti látið hlutina gerast – komið einhverju til leiðar. En sá er vill breytingar verður að búa sig undir átök. Lawson vildi breyta bresku efnahagslífi en brýndi fyrir skoðanabræðrum sínum að róttækni sé tilgangslaus án stefnu og hugsjóna. Markmiðin verði að vera skýr. Það verði að undirbúa jarðveginn áður en ráðist er í að hrinda stefnu í framkvæmd.
Hver á að benda á gallana?
Þverpólitísk samstaða var eitur í beinum Lawsons. Samstöðunni fylgi bölvun. Í ræðu sem hann hélt í lávarðadeild breska þingsins árið 2012 sagðist Lawson hafa af langri reynslu í stjórnmálum lært að þegar allir þrír flokkarnir á þingi (Íhaldsflokkurinn, Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn) væru samstiga þá væri stefnan nær alltaf röng. Samstaða allra flokka komi í veg fyrir að stefnan sé rædd almennilega og hún rýnd. Og hver á þá benda á gallana – villurnar sem stjórnmálaflokkarnir hafa komið sé saman um? Í hvert skipti sem stjórnmálastéttin krýpur niður við altari sameiginlegra hugmynda og skoðana, er því nauðsynlegt að fyllast djúpstæðri tortryggni.
Lawson var sannfærður um að mörkin milli stjórnmálaflokka hefðu þurrkast hægt og bítandi út frá síðari heimsstyrjöldinni til loka áttunda áratugarins. „Almenn sannindi“ hefðu tekið við. Praktísk rök fyrir kapítalisma hefðu þagnað í nafni pólitískrar samstöðu. Og þar með hefðu menn gleymt siðferðilegum rökum fyrir kapítalisma – markaðsbúskap frjálsra viðskipta. Fáir vefengdu opinberlega háskattastefnu sem Verkamannaflokkurinn innleiddi í Bretlandi með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahag landsins. Árið 1976 hafði Bretland neyðst til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um neyðarlán. Þetta breyttist þegar Thatcher var kjörin leiðtogi Íhaldsflokksins 1975.
Sem fjármálaráðherra hafði Lawson meiri trú á almenningi og frumkvöðlum en ríkisvaldinu. Sem forsætisráðherra leiddi Thatcher umfangsmikla einkavæðingu, afnam höft og einfaldaði regluverkið. Lawson tryggði framgang róttækra breytinga á skattkerfinu. Undir stjórn Verkamannaflokksins var hæsta þrep tekjuskattsins allt að 83%. Denis Healy fjármálaráðherra (1974-1979) lýsti því fjálglega yfir að hann ætlaði sér að skattleggja auðmenn svo angistaróp þeirra myndu heyrast.
Heimavinnan fyrst
Lawson var sannfærður um að snúa yrði af braut skattpíningar sem hefði leitt Bretland í efnahagslegar ógöngur. En fyrst yrði Íhaldsflokkurinn að vinna heimavinnuna. Ekki væri hægt að lækka skatthlutföll án þess að koma böndum á útgjöld ríkisins. Aðhaldsleysi í ríkisfjármálum myndi óhjákvæmilega leiða aftur til þyngri skattheimtu. Sá sem ætli sér að koma á umbótum í skattkerfinu verði fyrst að sannfæra almenning um að útblásið ríkisvald leiði til veikara hagkerfis og verri lífskjara. Efnahagslegar umbætur byggist á því að búið sé að undirbúa pólitískan jarðveg. Áratugum síðar lærði Liz Truss þessa einföldu en hörðu lexíu þegar hún var gerð afturreka með áform um skattalækkun. Truss var forsætisráðherra í 50 daga.
Með aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum hrinti Lawson umbótum á skattkerfinu í framkvæmd. Hæsta skattþrep tekjuskatts var lækkað í 40%. Háskattastefnunni var hent út í hafsauga. Tekjuhæstu einstaklingarnir á Bretlandi höfðu flúið land – gerst skattalegir útlagar. Frumkvöðlar forðuðust landið og tekjuhæsta 1% greiddi aðeins 11% af öllum tekjuskatti á tímum Verkamannaflokksins. Eftir skattkerfisbreytingar sem Lawson hafði forystu um tvöfaldaðist hlutdeildin. Efsta tekjutíundin hafði á tímum háskatta staðið undir um 35% af heildartekjuskatti. Eftir lækkun skatthlutfalls fór hlutdeild efstu tekjutíundarinnar upp í 48%.
Lawson renndi þannig styrkum stoðum undir það sem John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, lýsti sem „þversagnakenndum sannleika“ ríkisfjármála: lægri skatthlutföll geta leitt til hærri skattatekna. Skattaglaðir vinstri menn, hvort heldur er hér á Íslandi, í Bretlandi eða í öðrum löndum, hafa fæstir skilið varnaðarorð sem John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, setti fram árið 1962:
„Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“
Fáir gerðu sér betri grein fyrir því en Lawson að pólitík snýst um að leggja fram stefnu – hugsjónir – og vinna rökræðuna. Allt annað er teknókratismi. Okkur hægri mönnum er hollt að hafa þessi einföldu sannindi í huga.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. apríl 2023.