Hildur Sverridóttir alþingismaður:
Einkarekstur er mikilvægur hluti af góðu heilbrigðiskerfi. Við skipulagningu fer vel á að horft sé til þess hver gerir hvað best og til notenda þjónustunnar frekar en hver veitir hana. Einkaaðilar eru oft betur fallnir til að sinna ákveðnum verkefnum meðan hið opinbera einbeitir sér að öðrum. Aðalatriðið á að vera að þjónustan á einfaldlega að virka; gagnast öllum óháð efnahag, vera skilvirk og hagkvæm eins og kostur er.
Við erum svo lánsöm að almenn sátt er um að ríkið, við öll, skulum bera saman kostnað af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, en umræðan hefur oft liðið fyrir rugling milli einkareksturs og einkavæðingar. Einkaaðilar geta tekið að sér verkefni með miklum sóma í heilbrigðisþjónustu líkt og öðru. Við eigum að varast að festast í kreddum þar um. Þjónustan og hvernig er staðið að henni er það sem skiptir máli.
Á Íslandi er sjúkratryggingakerfi þar sem notendum er tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta án tillits til efnahags. Markmið kerfisins er að setja notendur í fyrsta sæti þar sem fjármagnið fylgir fólki en ekki veitanda þjónustunnar.
Hins vegar hafa óskýr réttindi sjúkratryggðra þar sem ekki er samið um alla framkvæmd þjónustu leitt af sér langa biðlista og tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem þeir sem hafa efni á borga sig fram fyrir röð. Það á m.a. við um liðskiptaaðgerðir en fjöldi þeirra sem hafa borgað fyrir þær eða leitað erlendis hefur stóraukist á síðustu árum.
Eftir sitja þeir sem ekki hafa tök á að borga sjálfir eða fara til útlanda í meðferð.
Það er til mikils að vinna að tryggja að allir sem þurfa á að halda geti fengið viðeigandi þjónustu innan ásættanlegs tíma og niðurgreidda af Sjúkratryggingum.
Viðbótarframlag í fjárlögum ársins 2023 upp á 750 millj. kr. til að fjármagna fleiri liðskiptaaðgerðir til að vinna niður biðlista utan sjúkrahúsa var mikilvægt. Fólk hefur liðið of lengi fyrir það hve langan tíma tók að semja um þessar aðgerðir en fyrir nokkrum dögum tókust samningar við einkaaðila sem hafa getuna til að sinna aðgerðunum.
Með því nýtist þekking, búnaður og húsakostur sem til er í landinu til að grynnka á biðlistum. Þetta skiptir miklu máli en þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru sammála um það sanngirnismál að skoða þurfi að viðbótarframlagið gagnist líka þeim sem borguðu úr eigin vasa á árinu meðan beðið var þessara samninga.
Sagt er að góðir hlutir gerist hægt. Þannig á ekki að vera um heilbrigðisþjónustu. Að baki biðlistunum er fólk sem býr við óþarfar þjáningar og biðstöðu með sitt líf. Viðbótarframlög vegna liðskiptaaðgerða og samningar við einkaaðila eru góðar fréttir og mikilvæg skref og við eigum að stíga fleiri slík af öryggi. Þar verðum við að láta kreddurnar eiga sig og láta ekkert annað en þarfir fólks vísa veginn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2023.