Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Öllum hefur verið það lengi ljóst eða mátt vera ljóst að umsvif ríkisins á innlendum fjölmiðlamarkaði gera sjálfstæðum fjölmiðlum erfitt fyrir – kippa rekstrargrunni undan sumum miðlum og veikja möguleika annarra. Strandhögg erlenda samfélagsmiðla inn á íslenskan auglýsingamarkað gerir stöðuna enn erfiðari.
Umsvif ríkisvaldsins á samkeppnismarkaði þrengja eðli máls samkvæmt að einkareknum fyrirtækjum. Lögmálið gildir jafnt um fjölmiðla (og já, fjölmiðlar eru á samkeppnismarkaði), snyrtivörur, fjármálaþjónustu, fjarskipti og öll önnur viðskipti. Þegar ákvörðun er tekin um að ríkið skuli stunda ákveðna atvinnustarfsemi er um leið verið að taka ákvörðun um að draga úr umsvifum einkarekinna fyrirtækja. Þetta eru svo augljós sannindi að ekki þarf að deila um þau.
Heilög kýr, fíll og engisprettur
Það er athyglisvert að í hvert skipti sem kastljósið beinist að erfiðri stöðu sjálfstæðra fjölmiðla er tekið til varna fyrir Ríkisútvarpið, sem er líkt og heilög kýr í huga margra – ekki síst, að því er virðist, forystu Blaðamannafélags Íslands. Allt fjölmiðlaumhverfi á að mótast af Ríkisútvarpinu og hagsmunum þess. Sjálfstæðum miðlum skal haldið á lífi en í súrefnisvélum ríkisstyrkja.
Síðastliðinn föstudagur var dapur dagur. Þá var tilkynnt að útgáfu Fréttablaðsins væri hætt og sjónvarpstöðin Hringbraut heyrði sögunni til. Ekki eru margar vikur síðan sjónvarpsstöðin N4 lagði upp laupana. Með þroti þessara miðla verður fjölmiðlaflóran á Íslandi fátækari og sjónarhorn frétta og þjóðmálaumræðunnar fábreyttari. Sigmundur Ernir Rúnarsson, síðasti ritstjóri Fréttablaðsins, hefur réttilega sagt að það sé kolvitlaust gefið á fjölmiðlamarkaði. „Það þekkja allir sem reka einkarekna fjölmiðla í dag að það er mjög hart sótt að þeim af hinu opinbera,“ sagði ritstjórinn meðal annars í samtali við Vísi.
Við Sigmundur Ernir höfum ekki alltaf verið sammála enda er það ekki sérlega skemmtilegt að eiga bara góða vini sem eru sama sinnis í öllu. En gagnrýni hans er hárrétt. Lögvarin forréttindi Ríkisútvarpsins hafa orðið til þess að heilbrigð samkeppni á jafnræðisgrunni verður ekki tryggð með neinum skynsamlegum hætti. Sé það einlægur vilji löggjafans að jafna stöðuna, gera tilraun til að tryggja sæmilega heilbrigðan grunn undir rekstur sjálfstæðra fjölmiðla, verður það ekki gert án þess að skilgreina hlutverk, skyldur og umsvif Ríkisútvarpsins að nýju. Ef það er einbeittur ásetningur löggjafans að ríkið stundi fjölmiðlarekstur (sem ég hef aldrei skilið) verður a.m.k. að tryggja að umsvifin hafi sem minnst neikvæð áhrif á einkarekna miðla.
Ég hef leyft mér að kalla Ríkisútvarpið fílinn í stofunni og það hefur farið fyrir brjóstið á velunnurum ríkisrekstrarins. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, hefur líkt samkeppnisrekstri ríkisins á auglýsingamarkaði við engisprettufaraldur. Varnir einkarekinna fjölmiðla eru litlar sem engar.
Jafnræði ríkir ekki
Svo það sé sagt enn og aftur: Jafnræði og sanngirni eru ekki til á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Lögvernduð forréttindi ríkisins hafa leitt til þess að sjálfstæðir fjölmiðlar eru flestir veikburða, margir berjast í bökkum og því miður hafa margir siglt í strand. Það er þrekvirki að halda úti einkareknum fjölmiðlum á Íslandi.
Litlar eða engar líkur eru á því, í náinni framtíðinni, að spilin verði stokkuð upp og ríkið dregið út úr fjölmiðla- og afþreyingarrekstri. Mikill meirihluti þingmanna kemur í veg fyrir slíkt. Vonin er að hægt sé að jafna leikinn með öðrum hætti. En þingmenn geta ekki keypt sér aflátsbréf með því að innleiða beina ríkisstyrki líkt og margir láta sig dreyma um - ekki síst ríkisrekstrarsinnar. Fyrir utan samkeppnisrekstur ríkisins er fátt hættulegra fyrir sjálfstæða fjölmiðla en verða háðir opinberum styrkjum og nefndum hins opinbera. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði - aldrei á borði.
Ég hef lengi barist fyrir því að rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla verði styrkt með lækkun skatta, auk þess sem böndum verði komið á samkeppnisrekstur ríkisins. Nauðsynlegt er að skattaívilnanir séu samræmdar, gegnsæjar og að jafnræðis sé gætt.
Tvisvar hef ég lagt fram frumvarp um að fella niður tryggingagjald af einkareknum fjölmiðlum, a.m.k. upp að efsta þrepi tekjuskatts. Í hvorugt skiptið náði frumvarpið fram að ganga. Með slíkri ívilnun sitja allir fjölmiðlar við sama borð og fá hlutfallslega sömu ívilnun. Afnám virðisaukaskatts af áskriftum yrði einnig til að rétta stöðuna töluvert.
Skattalegar aðgerðir af þessu tagi eru skynsamlegar og skilvirkar aðgerðir til að styðja við frjálsa fjölmiðlun. Það er fagnaðarefni að menningar- og viðskiptaráðherra skuli hafa tekið undir að styrkja eigi rekstur frjálsra fjölmiðla með skattalegum aðgerðum.
Í desember 2021 lagði ég fram frumvarp um að Ríkisútvarpið yrði dregið út af auglýsingamarkaði í skrefum. Það kom ekki á óvart að frumvarpið náði ekki fram að ganga.
Sem sagt. Það liggja fyrir þrjár tillögur um hvernig hægt er að styrkja stoðir sjálfstæðra fjölmiðla sé til þess pólitískur vilji:
- að fella niður tryggingagjald af launum fjölmiðla
- að afnema virðisaukaskatt af áskriftum
- að draga Ríkisútvarpið út af samkeppnismarkaði fjölmiðla.
Verði þessum tillögum hrint í framkvæmd getur umhverfi fjölmiðla orðið heilbrigðara og sanngjarnara. Hugmyndir um beina ríkisstyrki er hægt setja ofan í skúffu og læsa henni. Að þessu loknu er hægt að snúa sér að því að verjast strandhöggi erlendra samfélagsmiðla.
Eitt er hins vegar víst. Á meðan ekkert er gert, leikreglunum ekki breytt og ójafnræðið fær að ríkja, mun fjölmiðlaflóran verða fátækari og fátækari með hverju árinu sem líður.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. apríl 2023.