Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Ekki var það til að auka bjartsýni mína á framtíðina sem menntskælings að þurfa að lesa bókina „Endimörk vaxtarins“ eftir nokkra vísindamenn sem kölluðu sig Rómarsamtökin. Boðskapurinn var ekki uppörvandi. Það væri komið að endimörkum hjá mannkyninu, mikilvæg hráefni væru á þrotum og vöxtur efnahagslífsins gæti ekki haldið áfram. Hér eftir yrði mannkynið að læra nægjusemi og láta af neysluhyggju. Með öðrum orðum: Lífskjör mín og minnar kynslóðar yrðu lakari, jafnvel miklu lakari, en foreldra minna.
Dómsdagsspár Rómarhópsins gengu ekki eftir. Á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að bókin kom út (1972 á ensku og 1974 á íslensku) hefur verðmætasköpun heimsins margfaldast og lífskjör stórbatnað, sérstaklega þeirra sem eru svo gæfusamir að búa í samfélögum þar sem markaðsbúskapur hefur fengið að blómstra. Rómarhópurinn hafði engan skilning á eðli markaða og horfði fram hjá samspili verðs og framboðs og áttaði ekki á því hvernig hugvit, þekking og tækniframfarir stuðla að auknum vexti og bættum lífskjörum.
Hægt og bítandi gerði ég mér grein fyrir að vísindamennirnir væru ekki aðeins á villigötum, heldur beinlínis í pólitískri baráttu gegn markaðsbúskap – kapítalisma. Þeir vildu kollvarpa þjóðskipulagi Vesturlanda með því að ala á hræðslu og ótta meðal almennings.
Sveiflast fram og til baka
Kannski er það í eðli okkar að hræðast framtíðina. Hafa áhyggjur af hinu ókomna, stundum vegna þess að við erum þjökuð af samviskubiti vegna þess að við umgöngumst jörðina okkar ekki alltaf af mikilli skynsemi eða virðingu. Spámenn hafa fylgt okkur frá örófi alda. Sumir hafa klætt spádóma sína með trúarbrögðum en aðrir byggja á vísindum eða að minnsta kosti með tilvísun til þeirra. Félagar í Rómarhópnum voru hvorki þeir fyrstu né þeir síðustu sem sjá fyrir sér endalokin ef mannkynið breytir ekki hegðun sinni.
Vísindamenn hafa lengi reynt að átta sig á því hvaða áhrif maðurinn og hegðun hans hefur á umhverfið og þá ekki síst loftslagið. Þar hafa þeir sveiflast fram og til baka og komist að mismunandi niðurstöðum á ólíkum tímum.
Dagblaðið Boston Globe sló því upp í fyrirsögn árið 1970 að vísindamaður spáði nýrri ísöld fyrir 21. öldina. Ári síðar var svipuð fyrirsögn í Washington Post. Breska dagblaðið Guardian greindi frá því árið 1974 að gervitunglamyndir sýndu nýja ísöld skammt undan. Sama ár flutti Reuters-fréttastofan svipaða frétt. Tímaritið Time varaði einnig við ísöld.
Það voru engin hlýindi í kortunum, heldur þvert á móti kólnun – ísöld var sögð fram undan. En svo breyttist allt.
Hækkandi sjávarstaða vegna hlýnunar mun útrýma þjóðum fyrir árið 2000, sagði í frétt AP árið 1989. Fréttastofan greindi frá því að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) spáðu hörmungum ef hlýnun jarðar yrði ekki stöðvuð. Vitnað var til „háttsetts umhverfisfulltrúa SÞ“ sem hélt því fram að heilu þjóðirnar gætu þurrkast út vegna hækkandi sjávarstöðu ef hnattrænni hlýnun yrði ekki snúið við fyrir árið 2000. Fréttin tónaði ágætlega við frásögn í New York Time 42 árum áður, þar sem haft var eftir vísindamanni að hlýnandi norðurskautsloftslag leiddi til bráðnunar jökla og hækkandi sjávarstöðu.
Árið 2007 spáði milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) því að Himalajajöklar myndu hverfa árið 2035. Þetta var síðar dregið til baka með þeirri útskýringu að spáin hefði ekki verið byggð á ritrýndum gögnum heldur fjölmiðlaviðtali við vísindamann árið 1999!
Síbreytilegur dómsdagur
Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hélt því fram árið 2008 að allur ís á norðurpólnum hyrfi á komandi fimm árum. Tveimur árum áður brýndi varaforsetinn fyrrverandi leiðtoga heims til að grípa til „róttækra ráðstafana“ til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Annars stefndi í neyðarástand og innan tíu ára yrði ekki til baka snúið. Árið 2016 kom og fór. Árið 2019 skrifaði Al Gore blaðagrein undir fyrirsögninni „Það er ekki of seint“.
Árið 2009 var Karl Bretaprins (nú konungur) sannfærður um að aðeins 96 mánuðir væru til stefnu til að bjarga heiminum. Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, var skýr í ræðu í október 2009 í aðdraganda loftslagsráðstefnu SÞ í Kaupmannahöfn (COP15). Ráðamenn heimsins hefðu 50 daga til að sannmælast um stefnu í loftlagsmálum fyrir næstu 50 ár. Annars yrði skaðinn af óheftri losun gróðurhúsalofttegunda óafturkræfur.
Fyrir skömmu gaf IPCC út nýja og dökka skýrslu um stöðuna í loftslagsmálum og hlýnun jarðar. Heimurinn á aðeins eitt og jafnframt síðasta tækifærið til að breyta um stefnu. Iðnríkin verða að sameinast án tafar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir árið 2030 og hætta að bæta koltvísýringi í andrúmsloftið með öllu 2050. Með því séu 50% líkur á að hægt verði að halda hlýnun jarðar við 1,5 gráður á celsíus. Kallað er eftir milljarða dollara framlögum frá iðnríkjum til þróunarríkja til að tryggja „réttláta umskiptingu yfir í endurnýjanlega orku“.
António Guterres aðalritari SÞ segir skýrsluna leiðarvísi til að bjarga mannkyninu, sem sé á bjargbrún. Árið 2030 verði allt orðið of seint.
Þegar síbreytilegar yfirlýsingar um síðustu forvöð til að bjarga heiminum eru hafðar í huga er ekki að undra að margir fyllist efasemdum. Ekki ósvipað og þorpsbúarnir sem hættu að trúa smaladrengnum sem sífellt kallaði: Úlfur, úlfur. Hætti að hlusta á vísindamenn sem færa rök fyrir því að hlýnun jarðar sé af mannavöldum og grípa verði til róttækra ráðstafana til að koma í veg fyrir hörmungar. Og svo eru þeir sem hafa meiri trú á hugviti, nýsköpun, tækniframförum og markaðsöflunum en svo að þeir óttist ragnarök.
Hvort sem við erum sannfærð um hættuna vegna hlýnunar eða gefum ekkert fyrir aðvaranir um hugsanlegar afleiðingar ættum við öll að geta tekið höndum saman um að vinna fljótt og vel að orkuskiptum. Þar að baki liggur heilbrigð skynsemi og fyrir okkur Íslendinga efnahagsleg rökhyggja. En til þess verðum við að nýta möguleika okkar til að framleiða græna orku með nýtingu orkuauðlinda í sátt við náttúruna. Kannski er aukin nýting orkuauðlinda stærsta ágreiningsmál mitt við þá sem mestar áhyggjur hafa af loftslagsmálum en leggjast gegn auðlindanýtingu. Og sjálfsagt greinir okkur einnig á um hvort við séum öll á leið til glötunar; séum dauðadæmd eða ekki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2023.