Hvað svo? Um leikskólamál í Reykjavík
'}}

Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Leikskólamál í Reykjavík eru núna í brennidepli. Fyrir því eru frekar einfaldar ástæður. Að loknu 12 mánaða fæðingarorlofi hafa margir foreldrar í höfuðborginni ekki aðgang að dagvistunarúrræði fyrir börnin sín. Afleiðingar þess fyrir fjárhag heimilisins geta orðið umtalsverðar. Þessi staða er sjálfsagt sárari í ljósi þess að Samfylkingin, með borgarstjóra í broddi fylkingar, lofaði því í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna vorið 2022 að öll börn 12 mánaða og eldri fengju pláss í leikskóla frá og með 1. september 2022.

Í því samhengi verður einnig til þess að líta að Samfylkingin hefur lengi verið ráðandi flokkur í borgarstjórn en þrátt fyrir það hafa kosningaloforð flokksins í þessum efnum ítrekað verið svikin. Sem dæmi liggur fyrir að síðan haustið 2019 hefur meðalaldur barna sem í fyrsta skipti hefja inngöngu í borgarreknum leikskólum verið yfir 20 mánaða en fyrir kosningarnar 2014 lofaði Samfylkingin að öll börn sem náð hefðu 18 mánaða aldri myndu fá leikskólavistun og fyrir kosningarnar 2018 lofaði sami flokkur að aldur barnanna sem fengju pláss á leikskóla í fyrsta skipti yrði frá 12 til 18 mánaða.

Það eru þessi endurteknu svik við kjósendur sem gerir alla faglega umræðu um leikskólamál í Reykjavík erfiða.

Hlúa þarf að mannauðnum í leikskólum Reykjavíkurborgar

Af heildarfjölda starfsmanna borgarrekinna leikskóla hinn 1. október sl. voru 42,3% starfsmenn uppeldismenntaðir, þar af voru um 2/3 þeirra leikskólamenntaðir. Ófaglærðir starfsmenn eru því í meirihluta þeirra starfsmanna sem sinna börnum í borgarreknum leikskólum og það sama á við um sjálfstætt starfandi leikskóla. Eigi að síður er mikilvægi fagmenntunar starfsmanna á fyrsta skólastigi skólakerfisins óumdeilt og víða í leikskólum höfuðborgarinnar er unnið þróttmikið faglegt starf.

Samt er viðvarandi mannekla á leikskólum höfuðborgarinnar. Það stafar aðallega af hlutfallslega lágum launum starfsmanna og miklu álagi. Einnig virðist það nokkuð algengt að starfsfólk í leikskóla sé frá vegna veikinda, sbr. t.d. svar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 25. janúar sl., við fyrirspurn ráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Af svarinu má draga þá ályktun að á einhverjum tímapunkti á tímabilinu janúar til nóvember 2022 hafi ríflega 13% fagmenntaðra starfsmanna borgarrekinna leikskóla Reykjavíkur verið frá vinnu vegna langtímaveikinda (103 starfsmenn af 771 sem voru í einhverju starfshlutfalli á tímabilinu). Það hlutfall verður að teljast hátt miðað við það sem gengur og gerist á vinnumarkaðnum.

Þótt nokkuð hefur verið um að nýir leikskólar hafi hafið starfsemi í Reykjavík undanfarin ár þá hafa margir aðrir þurft að loka vegna slæms ástands mannvirkja, venjulega vegna myglu. Skortur á viðhaldi á skólabyggingum hefur því átt sinn þátt í að skapa erfiðar aðstæður fyrir starfsfólk í leikskólum borgarinnar.

Heildarmyndin er því nokkuð skýr. Hlúa þarf vel að hagsmunum starfsfólks í leikskólum í Reykjavík. Slík stefnumótun á hins vegar ekki að útiloka að komið sé til móts við hagsmuni foreldra sem vilja dagvistunarúrræði fyrir börn sína að loknu fæðingarorlofi.

Tillöguflutningur um bráðaaðgerðir í málefnum barna á leikskólaaldri

Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag var tekin til umfjöllunar tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bráðaaðgerðir í málefnum barna á leikskólaaldri. Grundvöllur þeirrar tillögu var m.a. byggður á því að umfang vandamála sem tengjast rekstri hins borgarrekna leikskólakerfis væru þess eðlis að bráðalausnir á fyrirliggjandi vanda barna og foreldra yrði ekki fundin þar. Tillagan var því reist á atriðum sem stóðu utan hins opinbera kerfis og gekk út á að efla dagforeldrakerfið, fjölga plássum í sjálfstætt starfandi leikskólum, tryggja heimgreiðslur til foreldra og hefja undirbúning að nýstárlegu tilraunaverkefni svo að fimm ára börn í þeim hverfum þar sem staðan er verst geti hafið nám í grunnskóla.

Svo sem við mátti búast fyrir fram var tillagan ekki samþykkt. Umræða um hana var hins vegar gagnleg. Kjarni málsins er einfaldur. Þegar kemur að dagvistunarúrræðum í Reykjavík vill Sjálfstæðisflokkurinn að gripið sé til fjölbreyttra úrræða. Þessi sýn á verkefnið byggir á því að fólk sé ólíkt og að aðstaða barna, foreldra og fjölskyldna sé margbreytileg.

Heiðarleiki gagnvart kjósendum við að leysa þetta verkefni er einnig nauðsynlegur.

Greinin birtist á Vísi 24. mars 2023