Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Hrikaleg uppsöfnuð viðhaldsskuld skólahúsnæðis sýnir kolranga forgangsröðun Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar undanfarinn áratug.
Ein helsta frumskylda hvers sveitarfélags er að hýsa grunnþjónustu og halda húsnæði hennar við með sómasamlegum hætti.
Góðir húseigendur vita að það borgar sig ekki að vanrækja viðhald, ekki síst fyrirbyggjandi viðhald. Ef látið er undan þeirri freistingu að sinna því ekki, sparast e.t.v. fjármunir til skamms tíma. Slíkur ,,sparnaður“ hefnir sín hins vegar því viðhald verður aldrei umflúið til langs tíma. Bætist þá að sjálfsögðu við kostnaður, sem frestun fyrirbyggjandi viðhalds, hefur í för með sér. Frestun viðhalds er yfirleitt dýrasta lán sem stjórnmálamenn freistast til að taka.
Viðhaldsskuldina vantar í bókhaldið
Skammsýnir stjórnmálamenn láta þó of oft undan slíkri freistingu því vanræksla á viðhaldi er ekki skráð sem bein skuld í bókhaldi sveitarfélagsins. Með því að sinna ekki viðhaldi jafnóðum, heldur ýta því á undan sér, eru ársreikningar í raun fegraðir. Þar er nefnilega ekki gerð grein fyrir viðhaldsskuldinni, jafnvel þótt hún kunni að vera mjög há.
Viðhald húseigna er veigamikill þáttur í rekstri Reykjavíkurborgar. Húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í eigu borgarinnar nemur 265 þúsund fermetrum í 136 eignum. Afar miklvægt er að vel sé staðið að viðhaldi þessa húsnæðis, ekki einungis af rekstrarlegum ástæðum heldur einnig vegna þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Vanræksla á viðhaldi getur haft slæm áhrif á líðan nemenda og starfsmanna. Til dæmis leitt til myglu eins og mörg dæmi eru því miður um hjá Reykjavíkurborg að undanförnu.
30 milljarðar
Sláandi upplýsingar um ástand skóla- og frístundahúsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar koma fram í greinargerð, sem lögð var fyrir borgarráð 2. marz sl.
Samkvæmt greinargerðinni er þörf á meiriháttar viðhaldi í 83% af skóla og frístundabyggingum borgarinnar eða 113 af 136!
Ljóst er að uppsöfnuð viðhaldsskuld skóla- og frístundahúsnæðis Reykjavíkurborgar nemur um þrjátíu milljörðum króna. En það er áætluð heildarfjárþörf vegna viðhalds þessara bygginga árin 2022-2028.
Kolröng forgangsröðun
Þessar tölur eru ekki einungis vitnisburður um kolranga forgangsröðun í viðhalds- og byggingarmálum Reykjavíkurborgar sl. áratug. Þær leiða einnig í ljós vítaverða vanrækslu og arfaslaka verkstjórn pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar á þessum tíma undir forystu Samfylkingarinnar.
Undanfarinn áratug hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins margoft gagnrýnt ranga forgangsröðun meirihluta borgarstjórnar, sem hefur ekki síst komið fram í stórfelldri vanrækslu viðhaldis skóla- og frístundahúsnæðis. Á sama tíma hefur hins vegar verið stofnað til stórfelldra fjárútláta vegna margvíslegra ólögbundinna gæluverkefna. Nefna má braggann í Nauthólsvík, viðbótarframlög til Hörpu, framkvæmdir við Grófarhús og í Ráðhúsinu sem og kostnaðarsamar gatnaþrengingar til að takmarka umferð víða í borginni. Ljóst er að ástand skólahúsnæðis í borginni væri allt annað og betra ef fjármunum hefði ekki verið forgangsraðað til slíkra gæluverkefna heldur til viðhalds í skóla- og frístundahúsnæði.
Nú er hins vegar komið að skuldadögum því ekki verður lengur vikist undan því viðhaldi, sem vanrækt hefur verið mörg undanfarin ár. Að sjálfsögðu þurfa útsvarsgreiðendur í Reykjavík að bera umræddan viðhaldskostnað. Og ljóst er að sá kostnaður er orðinn mun meiri en hann væri ef staðið hefði verið eðlilega að viðhaldi skólahúsnæðis í borginni undanfarin ár.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 16. mars 2023.