Samstaða í breyttum heimi
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

At­b­urðir síðustu ára hafa eðli­lega vakið okk­ur til um­hugs­un­ar um stöðu alþjóðamála. Tveggja ára tíma­bili sem ein­kennd­ist af inni­lok­un og ein­angr­un vegna far­sótt­ar lauk á sama tíma og inn­rás Rúss­lands í Úkraínu vakti nýj­ar áhyggj­ur af ör­yggi og friðsæld í okk­ar heims­hluta. Fyr­ir fólk af minni kyn­slóð má segja að sá veru­leiki sem nú blas­ir við sé ekki í sam­ræmi við þær von­ir og vænt­ing­ar sem við vor­um alin upp við. Engu að síður stönd­um við frammi fyr­ir hon­um og við tök­um hann al­var­lega.

Frá því ég tók við embætti ut­an­rík­is­ráðherra hef ég lagt mikla áherslu á að tala máli alþjóðlegr­ar sam­vinnu og alþjóðalaga. Því miður hef­ur mér stund­um þótt skorta skiln­ing á mik­il­vægi þess­ara þátta fyr­ir Ísland. Allt fram að inn­rás Rússa í Úkraínu 24. fe­brú­ar 2022 mátti heyra nokkuð há­vær­ar radd­ir í op­in­berri umræðu á Íslandi sem töluðu á þann veg að Ísland gæti setið hjá þegar kæmi að af­stöðu til land­vinn­inga­til­b­urða Rússa í Úkraínu. Lít­ill en há­vær hóp­ur í sam­fé­lag­inu gagn­rýndi þátt­töku Íslands í refsiaðgerðum og kvartaði und­an því að með því að sýna sam­stöðu með okk­ar banda­lagsþjóðum væri tæki­fær­um til viðskipta við Rúss­land fórnað. Enn í dag heyr­ast öðru hverju radd­ir sem vilja meina að samstaða okk­ar með banda­lags­ríkj­um sé of dýru verði keypt; að það sé raun­hæf­ur val­kost­ur að Ísland standi á hliðarlín­unni og maki krók­inn á því að vera í sér­stöku vin­fengi við þau ríki sem frek­leg­ast brjóta gegn alþjóðalög­um og mann­rétt­ind­um.

Í störf­um mín­um hef ég lagt of­urá­herslu á mik­il­vægi þess fyr­ir sjálf­stætt og full­valda Ísland að við tök­um virk­an þátt í varðstöðu líkt þenkj­andi ríkja um þá meg­in­reglu að sam­skipti ríkja grund­vall­ist á lög­um og venj­um, en lúti ekki hót­un­um og afls­mun. Í því sam­hengi hef ég margsinn­is bent á að fá­menn ríki á borð við Ísland eigi allt und­ir þeirri meg­in­reglu að landa­mæri og lög­saga ríkja séu friðhelg. Þetta er mik­il­væg­asta hags­muna­mál ís­lensku þjóðar­inn­ar á alþjóðavett­vangi og er grund­völl­ur bæði ör­ygg­is okk­ar og efna­hags­legr­ar far­sæld­ar. Í þeim efn­um get­ur Ísland lagt lóð á vog­ar­skál­ar rétts málstaðar með því að tala af skyn­semi og yf­ir­veg­un.

Und­an­farna daga hef­ur farið fram mik­il­væg og áhuga­verð umræða um fram­lag Íslands til eig­in varna. Í því sam­hengi skipt­ir miklu að halda því til haga að þrátt fyr­ir breytta heims­mynd njót­um við Íslend­ing­ar þeirr­ar gæfu að búa í friðsæl­asta landi heims. Sem bet­ur fer eru eng­in teikn á lofti um að um­tals­verð ógn steðji að Íslandi, þótt vita­skuld sé mik­il­vægt að vera ætíð á varðbergi og hugsa til langs tíma. Við þurf­um að halda því til haga að hinar raun­veru­legu trygg­ing­ar á ör­yggi Íslands, sem fel­ast í aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu og tví­hliða samn­ingi við Banda­rík­in, eru lík­lega eitt besta og trygg­asta fyr­ir­komu­lag varna sem hugs­ast get­ur. En það er held­ur ekki eins og Ísland sé sér á báti að því leyti að treysta á alþjóðlegt sam­starf og sam­vinnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Flest lönd í okk­ar heims­hluta treysta fyrst og fremst á alþjóðlegt sam­starf til þess að tryggja ör­yggi sitt, enda myndu marg­falt fjöl­menn­ari þjóðir en hin ís­lenska mega sín lít­ils gagn­vart of­ur­veldi stór­veld­is ef til inn­rás­ar kæmi. Ný­leg­ar aðild­ar­um­sókn­ir Finn­lands og Svíþjóðar að Atlants­hafs­banda­lag­inu und­ir­strika þenn­an veru­leika.

Ég legg áherslu á að Ísland standi vel og mynd­ar­lega að þeim verk­efn­um þar sem við get­um orðið að liði í sam­eig­in­leg­um vörn­um Atlants­hafs­banda­lags­ins. Með því að vera verðugir banda­menn í öfl­ug­asta varn­ar­banda­lagi ver­ald­ar­sög­unn­ar tryggj­um við best hags­muni ís­lensku þjóðar­inn­ar til lengri og skemmri tíma. Í þeim efn­um tel ég til­efni til þess að Ísland auki fram­lag sitt og nýti kosti smæðar­inn­ar þegar því verður við komið. Á vett­vangi Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur verið tekið eft­ir fram­lagi Íslands þótt það sé smátt í sniðum. Ísland brást til að mynda mjög hratt, og hraðar en flest­ir, við ákalli um nauðsyn­leg­ar send­ing­ar á her­gögn­um til Úkraínu við upp­haf inn­rás­ar­inn­ar. Það var fram­lag sem skipt­ir raun­veru­legu máli. Lega Íslands á miðju Atlants­hafi er þar að auki mik­il­væg og við verðum að sinna skyld­um okk­ar sem gisti­ríki svo að banda­lags­ríki okk­ar geti at­hafnað sig. Hvað áhrær­ir okk­ar eig­in varn­ir þá er rétt að und­ir­strika að Ísland á nú í nán­ara og þétt­ara sam­starfi við banda­lags­ríki okk­ar en verið hef­ur um langt ára­bil. Það birt­ist í þéttu póli­tísku og hern­arðarlegu sam­starfi en einnig í auknu eft­ir­liti og viðbúnaði á Norður-Atlants­hafi sem við leggj­um til með upp­lýs­inga­miðlun, varn­ar­innviðum og þjón­ustu.

Umræða um stöðu ör­ygg­is­mála á Íslandi, sem bygg­ist á raun­sæju og yf­ir­veguðu mati á raun­veru­legri hættu, gef­ur að mín­um dómi ekki til­efni til hræðslu eða upp­hróp­ana. Hins veg­ar er hún góð áminn­ing um að Ísland tek­ur ábyrgð á eig­in ör­yggi og eig­in stöðu í heim­in­um með því að taka virk­an þátt í að verja þau grund­vall­ar­gildi alþjóðakerf­is­ins sem ör­yggi okk­ar – og heims­ins alls – bygg­ist á. Ég tel hins veg­ar mik­il­vægt að sú kyn­slóð leiðtoga á Íslandi sem ég heyri til hafni sjón­ar­miðum um að Ísland sitji hjá í stór­um alþjóðamál­um. Ísland á að koma fram af hóg­væru sjálfs­trausti og víkja sér ekki und­an þeim skyld­um sem fel­ast í því að vera sjálf­stæð og full­valda þjóð meðal þjóða. Í því mun einnig fel­ast auk­in þátt­taka í varn­artengd­um verk­efn­um í sam­vinnu og sátt við þær þjóðir sem við eig­um mesta sam­leið með.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. mars 2023.