Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Á dögunum mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi viðurkenni hungursneyðina í Úkraínu, eða Holodomor, sem hópmorð. Hungursneyðin í Úkraínu stóð yfir frá 1932 til 1933 og var af völdum alræðisstjórnar Stalíns og dró milljónir Úkraínumanna til dauða.
Rússar hafa alla tíð neitað fyrir þessi voðaverk og hafa Úkraínumenn biðlað til ríkja heimsins svo hungursneyðin fari á lista yfir þá ómannúðlegu alþjóðaglæpi alræðiskerfa sem útrýmdu milljónum mannslífa á fyrri hluta 20. aldar.
Flutningsmenn tillögunnar, sem eru fjölmargir og úr öllum flokkum, telja mikilvægt að senda skýr skilaboð um þessa hörmulegu atburði og vekja á þeim athygli til að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig. Innrás Rússlands í Úkraínu er enda sérstakt tilefni til að Alþingi samþykki málið núna
Í gær fóru síðan fram umræður á Alþingi um endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands. Samstaða er í utanríkismálanefnd um nefndarálit í málinu og það er jákvætt hversu samstíga þingmenn eru um grunngildi okkar í utanríkismálum og um algjöra samstöðu lýðræðisríkja í þeim áskorunum sem við höfum glímt við í öryggis- og varnarmálum.
Það er sérstaklega mikilvægt á tímum þar sem valdablokkir beita upplýsingaóreiðu markvisst til að rugla okkur í ríminu. Rússar halda þannig áfram að reyna að endurskrifa söguna. Það heyrum við í fjölmörgum ræðum Pútíns, en öllu nær okkur er þó skammarlegur áróður rússneska sendiherrans á Íslandi. Við sem lesum og heyrum þessar gegndarlausu lygar getum huggað okkur við það að þessir menn, og allir þeirra meðreiðarsveinar og aðdáendur, verða aðeins dæmir af verkum sínum.
Við ættum hins vegar líka að draga lærdóm af þessum aðförum. Það eru nefnilega fleiri sem vilja gjarnan taka til hendinni við hvers kyns endurritun. Við þurfum að vera vakandi fyrir því og spyrna fast við fótum þegar kemur að hvers kyns tilraunum til að endurskrifa söguna og sömuleiðis til að endurskrifa hvers kyns listræna tjáningu.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. febrúar 2023.