Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Í upphafi síðasta árs lagði ég sem þingmaður Reykvíkinga fram fyrirspurn á Alþingi til innviðaráðherra um stöðu tiltekinna framkvæmda í Reykjavík samkvæmt ákvæðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ráðherrann svaraði fyrirspurn minni munnlega á þinginu, en mér virtist ljóst af svörum hans að Reykjavíkurborg hefði ekki staðið við ákvæði sáttmálans, m.a. um þær framkvæmdir sem átti að flýta sérstaklega samkvæmt efni hans. Ég hvatti ráðherrann til dáða og minnti á að það væri ríkið sem fjármagnaði sáttmálann að langstærstum hluta. Það þyrfti að hafa virkt og öflugt eftirlit með því að Reykjavíkurborg stæði við samkomulagið. Reynslan af samningum ríkisins við borgina sýnir þörfina á því. Þá þegar virtist ljóst að framkvæmdir sem væru í forgangi samkvæmt efni sáttmálans hefðu dregist óhóflega og ríkið ætti því að íhuga alvarlega að krefjast efnda án tafar.
Nú að ári liðnu virðist sú staða enn vera uppi að tilteknar framkvæmdi eru ýmist ekki hafnar eða komnar mjög skammt á veg þrátt fyrir að þeim hafi átt að vera lokið fyrir þó nokkru. Ég hef því lagt fram fyrirspurn á ný til innviðaráðherra um stöðu framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmálans og vonast til að fá svör við henni fyrr en seinna.
Á dögunum lagði Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins það til að samgöngusáttmálinn yrði endurskoðaður frá grunni. Borgaryfirvöld hefðu vanefnt sáttmálann með því að hefja ekki tilteknar framkvæmdir, einmitt þær sem fyrirspurnir mínar til ráðherrans lúta að. Þá hefði kostnaðarmat verkefnanna verið uppfært um 50% til hækkunar.
Samgöngusáttmálinn inniheldur fögur fyrirheit um „umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu“. Framgangur verkefnanna sem sáttmálinn hverfist um gefur þó vísbendingu um annað. Það er ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn getur ekki valið hvað skal efna af ákvæðum sáttmálans andspænis skýrum ákvæðum hans um forgangsröðun. Og verði svör innviðaráðherra við fyrirspurn minni endurtekið efni líkt og búast má við tel ég ljóst að ríkisvaldið verði að virkja endurskoðunarákvæði sáttmálans þar sem forsendur hans hafi breyst í veigamiklum atriðum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2023.