Endurskoðun samgöngusáttmálans
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Í upp­hafi síðasta árs lagði ég sem þingmaður Reyk­vík­inga fram fyr­ir­spurn á Alþingi til innviðaráðherra um stöðu til­tek­inna fram­kvæmda í Reykja­vík sam­kvæmt ákvæðum sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ráðherr­ann svaraði fyr­ir­spurn minni munn­lega á þing­inu, en mér virt­ist ljóst af svör­um hans að Reykja­vík­ur­borg hefði ekki staðið við ákvæði sátt­mál­ans, m.a. um þær fram­kvæmd­ir sem átti að flýta sér­stak­lega sam­kvæmt efni hans. Ég hvatti ráðherr­ann til dáða og minnti á að það væri ríkið sem fjár­magnaði sátt­mál­ann að lang­stærst­um hluta. Það þyrfti að hafa virkt og öfl­ugt eft­ir­lit með því að Reykja­vík­ur­borg stæði við sam­komu­lagið. Reynsl­an af samn­ing­um rík­is­ins við borg­ina sýn­ir þörf­ina á því. Þá þegar virt­ist ljóst að fram­kvæmd­ir sem væru í for­gangi sam­kvæmt efni sátt­mál­ans hefðu dreg­ist óhóf­lega og ríkið ætti því að íhuga al­var­lega að krefjast efnda án taf­ar.

Nú að ári liðnu virðist sú staða enn vera uppi að til­tekn­ar fram­kvæmdi eru ým­ist ekki hafn­ar eða komn­ar mjög skammt á veg þrátt fyr­ir að þeim hafi átt að vera lokið fyr­ir þó nokkru. Ég hef því lagt fram fyr­ir­spurn á ný til innviðaráðherra um stöðu fram­kvæmda í Reykja­vík vegna sam­göngusátt­mál­ans og von­ast til að fá svör við henni fyrr en seinna.

Á dög­un­um lagði Marta Guðjóns­dótt­ir borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins það til að sam­göngusátt­mál­inn yrði end­ur­skoðaður frá grunni. Borg­ar­yf­ir­völd hefðu vanefnt sátt­mál­ann með því að hefja ekki til­tekn­ar fram­kvæmd­ir, ein­mitt þær sem fyr­ir­spurn­ir mín­ar til ráðherr­ans lúta að. Þá hefði kostnaðarmat verk­efn­anna verið upp­fært um 50% til hækk­un­ar.

Sam­göngusátt­mál­inn inni­held­ur fög­ur fyr­ir­heit um „um­fangs­mestu sam­göngu­fram­kvæmd­ir sög­unn­ar til að flýta úr­bót­um á höfuðborg­ar­svæðinu“. Fram­gang­ur verk­efn­anna sem sátt­mál­inn hverf­ist um gef­ur þó vís­bend­ingu um annað. Það er ljóst að borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn get­ur ekki valið hvað skal efna af ákvæðum sátt­mál­ans and­spæn­is skýr­um ákvæðum hans um for­gangs­röðun. Og verði svör innviðaráðherra við fyr­ir­spurn minni end­ur­tekið efni líkt og bú­ast má við tel ég ljóst að rík­is­valdið verði að virkja end­ur­skoðun­ar­á­kvæði sátt­mál­ans þar sem for­send­ur hans hafi breyst í veiga­mikl­um atriðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2023.