Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Á hverju ári hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins farið í hringferð um landið. Þegar þessi skrif birtast erum við á Hvolsvelli á leið til fundar á Hellu. Við lögðum í hann síðastliðinn föstudag, fórum um Vesturland og Snæfellsnes og gistum á góðu hóteli á Laugarbakka í Miðfirði. Þaðan lá leiðin á Blönduós, til Skagastrandar og Sauðárkróks. Svo var það Siglufjörður og Ólafsfjörður, þar sem við gistum. Eftir góðan morgunmat var farið til Dalvíkur, Akureyrar og í Mývatnssveit, en hluti hópsins heimsótti Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn. Við sameinuðumst seint að kvöldi á Egilsstöðum og morguninn eftir var farið niður á firði; Neskaupsstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður. Og svo var það Djúpivogur og Höfn. Í gær vorum við á Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli. Fram undan eru Hella, Flúðir, Selfoss, Hveragerði, Ölfus, Grindavík, Reykjanesbær og loks Vogar sem verður okkar síðasti viðkomustaður að þessu sinni. Eftir páska er stefnt að annarri ferð og þá verða Vestfirðir málaðir bláir!
Fátt er mikilvægara fyrir þingmenn en að vera í góðum tengslum við kjósendur. Þekkja aðstæður þeirra – skilja hvað má betur fara og kynnast því sem vel er gert. Við sem sækjumst eftir stuðningi kjósenda til að sitja á Alþingi þurfum að kunna að hlusta og taka gagnrýni. Við verðum að vera tilbúnir til að koma til móts við fólkið í landinu og eiga við það samtal á jafnræðisgrunni.
Við höfum átt fundi, heimsótt vinnustaði og átt samtöl við hundruð manna í návígi. Okkur hefur verið boðið inn á heimili fólks, þegið þar kaffi og kræsingar og átt skemmtileg og gefandi samtöl við gestgjafana, nágranna þeirra og vini.
Meiri skilningur
Oft finnst mér eins og það sé meiri skilningur út á landi en á höfuðborgarsvæðinu á því að atvinnulífið – fyrirtækin í landinu – skapa þau verðmæti sem okkur eru nauðsynleg til að standa undir velferðarsamfélaginu. Út á landi gerir fólk meiri kröfur til sjálfs sín en annarra en það ætlast um leið til þess að hagrænir innviðir séu sterkir; góðar samgöngur, öflug ljósleiðaratenging, trygg og nægjanleg raforka. Traustir innviðir eru forsenda lífvænlegs atvinnulífs. Ekkert byggðarlag kemst af án atvinnulífsins. Á landsbyggðinni þekkir fólk af eigin raun að þegar fyrirtækjunum gengur vel, þá gengur samfélaginu vel.
Kraftar einkaframtaksins eru sýnilegri í fámenni en fjölmenni. Framtakssemi og hugvit eins breytir samfélagi, styrkir það og gerir það fjölbreytilegra. Í sambýli við sjóinn er það lífsspursmál að sjávarútvegur fái að dafna. Með sama hætti er landbúnaður undirstaða blómlegra byggða. Ferðaþjónustan er ný stoð með fjölbreytileika sem hefur gefið áður óþekkt tækifæri til nýsköpunar.
Þau eru mörg málin – lítil og stór – sem fólk hefur rætt við okkur. Það er bjartsýnt á framtíðina og reiðubúið til að takast á við áskoranir. Á landsbyggðinni sjá menn tækifærin til atvinnu- og verðmætasköpunar. Skilja hve mikilvægt það er að sköpunarkraftur og hugvit einstaklinganna sé virkjað. Vita af eigin raun hverju mikilvægt það er að opinbert regluverk og kerfið sé ekki að „flækjast“ fyrir og gera einstaklingum erfiðara fyrir.
Líklega er það þess vegna sem hugmyndafræði tortryggninnar festir illa rætur út á landi. Hugmyndafræði átaka, sem þrífst á að reka fleyg milli launafólks og atvinnurekenda, milli kynslóða og milli dreifbýlis og þéttbýlis, á erfitt uppdráttar meðal þeirra sem vita hvernig verðmætin verða til. Þeir sem skilja samhengið milli arðbærra fyrirtækja, blómlegs byggðarlags og öflugs velferðarkerfis, treysta en tortryggja ekki.
Verkefnalisti
Hringferð okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur treyst enn frekar tengslin við fólkið í landinu og aukið skilning á þeim tækifærum sem eru til staðar um allt land. Við höfum fengið að kynnast betur þeim áskorunum sem einstök byggðalög standa frammi fyrir. Við höfum enn og aftur fengið staðfestingu á því hve hugvit og nýsköpun er ríkur þáttur í atvinnulífinu – hve framtakssemi einstaklinganna skiptir miklu.
Ég játa að fjörlegir fundir og hreinskiptnar samræður við fólk, fyrirtækjaheimsóknir og innlit inn á heimili fólks eru meira gefandi en að sitja undir málþófi á þingi. Raunheimar gagnvart sýndarveruleika án innihalds.
Úr hringferðinni komum við vel nestuð inn í pólitíska baráttu komandi missera og mánaða. Verkefnin eru fjölmörg, sum einföld en önnur flókin. Það er ætlast til þess að við ryðjum úr vegi hindrunum, einföldum leikreglurnar, tryggjum hagræna innviði og sýnum í verki að við treystum fólki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2023.