Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Í nýlegri samantekt um fjárfestingu í nýsköpun á Íslandi á vegum Northstack kemur fram að aldrei fyrr hafi jafnmiklir fjármunir verið settir í hugvitsdrifna nýsköpun á Íslandi og árið 2022. Það sætir ekki síður tíðindum að samkvæmt annarri samantekt sem greint var frá í október sl. þá var fjárfesting í nýsköpun meiri á Íslandi á fyrri hluta árs 2022 miðað við höfðatölu en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, að Eistlandi undanskildu. Samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér hjá Northstack fyrir þessa grein þá var nýsköpunarfjárfesting enn meiri hér á landi á síðari hluta árs 2022 en á fyrri hlutanum (líklega tvöfalt meiri). Árið 2022 var því algjört metár þegar kemur að umfangi fjárfestingar í hugvitsdrifinni nýsköpun á Íslandi.
Margt bendir því til þess að um þessar mundir sé fjármögnunarumhverfi fyrstu stiga nýsköpunar á Íslandi með því besta sem gerist í heiminum; sem sagt — sá eða sú sem fær góða hugmynd á Íslandi hefur prýðilegan möguleika til þess að fá það fjármagn sem þarf til að komast af stað. Þar með er þó ekki sagt að stórir sigrar séu endilega í höfn. Í áhættusömu umhverfi nýsköpunar skila flest verkefni litlum eða engum efnahagslegum ábata fyrir fjárfesta; en sá minnihluti verkefna sem skilar árangri vegur þessa áhættu hins vegar upp. Það er því lykilatriði að hafa mörg egg í ólíkum körfum og að til staðar sé þekking til þess að skapa verðmæti og viðskiptatækifæri úr þeim tækifærum sem skapast.
Það er því góðs viti að í nýsköpunarumhverfinu íslenska um þessar mundir fer ekki aðeins upphæð heildarfjárfestingar hækkandi heldur hafa aldrei fleiri verkefni og sprotafyrirtæki fengið fjárfestingu á svokölluðu „klakstigi.“ Slík fjármögnun gefur stjórnendum tækifæri til þess að þróa vöru eða viðskiptahugmynd um nokkurt skeið með nokkrum starfsmönnum áður en sóst er eftir frekari fjármögnun eða arðbær sala á afurðinni hefst.
Eflaust eru margar skýringar á þessari góðu stöðu. Ein er sú að nýir íslenskir vísissjóðir hafa tekið til starfa og var árið 2021 metár í þeim efnum eftir mörg mögur ár þar á undan. Þessi tegund sjóða er ólík hefðbundnum fjárfestingarsjóðum að því leyti að með fjárfestingu í fyrirtæki fylgir sérþekking um stjórnun, viðskiptaþróun og alþjóðleg reynsla og tengsl sem styður við frekari vöxt. Tilvist góðra vísissjóða snýst því alls ekki einungis um fjármagn heldur þarf hún að fela í sér verðmæta sérþekkingu ef hún á að nýtast fyrir nýsköpunarumhverfið í heild sinni.
Við blasir að smæð íslensks markaðar reisir skorður við því hversu mikið innlent fjármagn fæst í áhættusöm nýsköpunarverkefni. Það er því mikið heilbrigðismerki á íslensku nýsköpunarumhverfi um þessar mundir að langstærstur hluti fjárfestingar í íslenskri nýsköpun er alþjóðleg. Af þeim 390 milljónum bandaríkjadala (tæplega 55 milljörðum króna) sem fjárfest var fyrir árið 2022 komu 78% frá alþjóðlegum fjárfestum utan Íslands. Verulegur munur er hins vegar á því hvers konar fjármögnun íslenskir og erlendir fjárfestar taka þátt í; og er það annað heilbrigðismerki á íslenska nýsköpunarumhverfinu að á fyrstu fjármögnunarstigum fyrirtækja eru það einkum innlendir sjóðir sem standa straum af fjármögnuninni. Eftir því sem fyrirtækin stækka þurfa þau að standast alþjóðlega samkeppni um bæði viðskipti og áhættufjármagn. Þessi þróun; að alþjóðlegir fjárfestar séu leiðandi þegar upphæðirnar hækka er algjört lykilatriði fyrir hið smáa íslenska hagkerfi. Öll fyrirtæki sem ástunda nýsköpun þurfa að standast alþjóðlega samkeppni. Ef þeim á að takast að ná þeirri stærð sem slík samkeppnishæfni krefst er óhjákvæmilegt að þau vaxi út fyrir íslenskar rætur sínar; hleypi heimdraganum og verði alþjóðleg.
Hugvitsdrifin nýsköpun á borð við þá sem laðar að sér alþjóðlegt áhættufjármagn er ákaflega ábatasöm og eftirsóknarverð. Slík starfsemi skapar áhugaverð, umhverfisvæn og skapandi störf auk þess að vera forsenda efnahagslegra framfara. Víða um heim hafa stjórnvöld því gert metnaðarfullar tilraunir til þess að umbreyta trénuðu atvinnulífi í blómstrandi uppsprettur nýsköpunar og framfara. Í þeim efnum skiptir þó máli að fara með gát, því raunverulega frjótt nýsköpunarumhverfi þarf langan tíma til þess að mótast og þarf sú mótun að stærstum hluta að vera sjálfsprottin og án stórkarlalegra inngripa frá stjórnvöldum. Hinar nýju tölur frá Northstack benda til þess að Íslandi sé að takast að treysta grundvöll fyrir íslenska framtíð sem byggist á alþjóðlega samkeppnishæfri og hugvitsdrifinni nýsköpun. Þetta er stærsta efnahagslega og samfélagslega tækifæri Íslands.
Í nýsköpunarstefnu íslenskra stjórnvalda sem við settum fram á síðasta kjörtímabili og ég er mjög stolt af, var unnið eftir þeirri tilgátu að fimm meginstoðir þyrftu að vera til staðar svo hugvitsdrifin nýsköpun gæti þrifist. Þær eru mannauður, hugarfar, umgjörð, fjármagn og markaðsaðgengi. Ég var sannfærð um það þá og það blasir við nú, að sú vinna hafði jákvæð áhrif á þróun nýsköpunarumhverfisins á Íslandi en þar var meðal annars lögð mikil áhersla á að efla umhverfi vísissjóða. Ef Ísland ætlar að halda áfram á þeirri vegferð að vera samfélag sköpunar og hugvits þarf ekki einungis að huga að þessum þáttum innanlands, heldur þurfa áherslur okkar í samskiptum við umheiminn að endurspegla þennan metnað. Ég hef til að mynda lagt áherslu á það í störfum mínum sem utanríkisráðherra að tala sérstaklega fyrir mikilvægi tjáningarfrelsis; því það að hugsa frjálst er forsenda nýrra hugmynda, hvort sem á sviði lista, vísinda eða viðskipta. Þá skiptir máli að utanríkispólitísk afstaða Íslands haldi áfram að grundvallast á virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu; því ekki einungis er það hin siðferðislega rétta afstaða heldur ein af forsendum þess að Ísland njóti áfram virðingar og velvildar.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. febrúar 2023.