Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Þegar þetta er skrifað hefur önnur umræða um útlendingafrumvarpið, svokallaða, staðið yfir í 10 daga. Fluttar hafa verið nokkur hundruð ræður. Píratar ganga vaktir í ræðustól Alþingis og hafa gefið fyrirheit um að ekki sjái fyrir endann á umræðunni. Þegar þingfundi lauk aðfaranótt þriðjudags hafði önnur umræða staðið yfir í um 75 klukkutíma. Í fyrstu umræðu töluðu þingmenn í um ellefu klukkutíma. Áður en frumvarpið kom til annarrar umræðu var það á dagskrá allsherjar- og menntamálanefndar á 13 fundum. Nefndin sendi út 116 umsagnarbeiðnir til margvíslegra aðila og 27 sendu skriflegar umsagnir.
Fá lagafrumvörp hafa fengið jafn viðamikla umfjöllun, jafnt í þingsal og nefnd og útlendingafrumvarpið. Og ekki er þetta fyrsta tilraunin sem gerð er til að ná fram breytingum á lögum um útlendinga. Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 149. löggjafarþingi og endurflutt ári síðar með nokkrum viðbótum. Í hvorugt skipti náði málið fram að ganga, ekki frekar en í þriðju tilraun á 151. löggjafarþingi. Á 152. löggjafarþingi var frumvarpið endurflutt. Fjórða tilraun gekk ekki. Útlendingafrumvarpið er því til meðferðar á þingi í fimmta sinn en hefur auk þess verið kynnt í samráðsgátt nokkrum sinnum og tekið hefur verið mið af umsögnum og ýmsum athugasemdum sem gerðar hafa verið.
Talað til þrautar
En þrátt fyrir allt sem á undan er gengið telja þingmenn Pírata að rík ástæða sé til að ræða málið til þrautar í þingsal. Ætlun þeirra er að koma í veg fyrir samþykkt þess þrátt fyrir að skýr meirihluti sé fyrir málinu. Í þessu eru Píratar heiðarlegir og hafa aldrei reynt að fela ásetning sinn.
Þeir sem standa utan þings og hafa haft tækifæri (og búið yfir þolinmæði) til að fylgjast með umræðum um útlendingafrumvarpið eru best dómbærir á það hvort málþófi sé beitt eða ekki.
Kannski er það aukaatriði hvort framganga Pírata, sem sumir hverjir hafa þegar haldið á annað hundrað ræður, er skilgreind sem málþóf eða pólitískur skæruhernaður til að koma í veg fyrir að vilji meirihlutans nái fram að ganga. Sex þingmenn Pírata telja eðlilegt að 38 þingmenn ríkisstjórnarinnar, auk þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem styðja frumvarpið, láti undan. Við getum kallað þetta minnihlutaræði yfir meirihluta. Lýðræðislegt? Varla.
Hitt er annað að það er óskoraður réttur minnihluta að beita málþófi. Allir flokkar hafa með einum eða öðrum hætti beitt þessu vopni. En vopnið er vandmeðfarið, það hefur verið misnotað og oft hefur það snúist í höndum þeirra sem því beita. Málþóf, þegar tekist er á um grundvallaratriði, getur verið nauðsynlegt. Þegar tekist er á um stjórnarskrá þarf að verjast, alveg með sama hætti og koma verður í veg fyrir með öllum ráðum ef ríkisstjórn ætlar sér að þjóðnýta skuldir einkafyrirtækja og leggja þungar byrgðar á almenning um ókomin ár.
Málþóf er hins vegar tvíeggjað sverð líkt og Píratar eru hægt og bítandi að komast að. Málfundaæfingar þeirra, dag eftir dag og oft langt fram á nótt, vekja litla athygli. Netheimar loga ekki og hefðbundnir fréttamiðlar telja það helst fréttnæmt að málþóf sé í gangi. Á meðan umræðan um útlendingafrumvarpið heldur áfram í boði Pírata, komast önnur mál ekki að – hvorki stjórnarmál né þingmannamál sem mörgum eru hjartfólgin. Þeim fjölgar málunum sem nefndir þingsins hafa afgreitt en komast ekki til umfjöllunar í þingsal. Frumvörp og þingsályktunartillögur komast ekki til nefnda og því ekki send út til umsagnar.
Pólitísk sjálfhelda
Píratar eru komnir í sjálfheldu málþófs og ekki augljóst hvernig þeir ætla að brjótast út úr vítahringnum. Stjórnarmeirihlutinn ætlar að tryggja að útlendingafrumvarpið verði loksins afgreitt og nokkur hundruð ræður Pírata breyta þar engu um. Það liggur einnig fyrir að frumvarpið verður tekið til efnislegrar meðferðar í nefnd eftir að annarri umræður lýkur. En eftir því sem umræðan teygist á langinn því þrengra verður um efnislega umfjöllun í nefndinni.
Málþóf eða ekki málþóf? Dæmi hver fyrir sig. En öllum má vera ljóst að þingið er í herkví Pírata sem aftur eru í pólitískri sjálfheldu. Ef til vill er þeirra eina von að meirihluti þingsins beiti í fyrsta skipti í áratugi ákvæðum 71. greinar þingskapalaga. Samkvæmt henni getur forseti „stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma“. Þá geta níu þingmenn krafist þess að umræðu skuli ljúka. Tillögur af þessu tagi skal bera umræðulaust undir atkvæði og ræður afl atkvæða.
Þessu ákvæði þingskapalaga hefur aðeins verið beitt tvisvar á lýðveldistímanum, síðast fyrir um 65 árum. Enginn stjórnarmeirihluti hefur talið rétt eða skynsamlegt að beita 71. greininni – sem hægt og bítandi hefur orðið merkingarlaus í hugum flestra þingmanna.
Á meðan Píratar halda málþófinu áfram og ná ekki að brjótast út úr pólitískri sjálfheldu, heldur umræðan um útlendingafrumvarpið áfram, þingfundir verða langir og langt inn í nóttina, dag eftir dag. Önnur þingmál bíða og komið er í veg fyrir efnislega umræðu um efnahagsmál, heilbrigðismál, eldri borgara og öryrkja, mennta- og skólamál, kjaramál, samgöngumál og fjölmörg önnur hagsmunamál.
Það eina sem er í boði er að fá svar við því hvað sé ósagt eftir 105 ræður eða svo um útlendingafrumvarpið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúa 2023.