Dómnefnd hinna dýru lóða
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi:

Fyrirhuguð íbúabyggð við Keldur og Keldnaholt er mikilvægasta skipulagsverkefni í Reykjavík í áratugi. Keldnaland er fallegt svæði og þar gefst því einstakt tækifæri til að hanna fallegt og eftirsóknarvert íbúahverfi. Æskilegt er að það verði skipulagt með svipuðum hætti og gert var með góðum árangri í hverfunum í kring, þ.e. í Foldahverfi og Húsahverfi.
Stefna borgarstjórnarmeirihlutans vekur hins vegar ugg um að við skipulag Keldnahverfis verði höfuðáhersla lögð á mikla uppbyggingu, ofurþéttingu og hámarksafrakstur af lóðasölu frekar en að skapa þar fallegt og mannvænlegt hverfi.

Byggja á þétt og dýrt

20. desember sl. var undirritaður kaupsamningur um Keldnaland. Samkvæmt honum mun opinbera hlutafélagið Betri samgöngur, taka við og þróa landið ,,með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli, sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu."
Hagsmunir landeigandans í þessari skipulagsvinnu eru því mjög skýrir: að hafa þar sem mesta og þéttasta byggð í því skyni að tryggja hámarksafrakstur af sölu lóða.

Lóðaskortur er leiðarljós meirihlutans

Í umræðum um skipulagsmál í borgarstjórn í október, kom skýrt fram að núverandi borgarstjórnarmeirihluti vill viðhalda ríkjandi lóðaskorti í borginni til að tryggja að sem hæst verð fáist fyrir byggingarlóðir í Keldnalandi. Fram kom í máli formanns skipulagsráðs að halda þurfi lóðaverði uppi til að tryggja hámarksafrakstur hins opinbera við skipulagningu Keldnalandsins og sölu lóða úr því til almennings.
Skipulagssamkeppni um þróun Keldna og Keldnaholts er nú í undirbúningi hjá Reykjavíkurborg og hefur dómnefnd verið skipuð. Átta manns sitja í dómnefndinni, þrír frá Reykjavíkurborg, þrír frá landeiganda Betri samgöngum ohf. og tveir erlendir sérfræðingar.

Landeigendur vilja yfirleitt hámarka virði lands síns þegar þeir ráðstafa því undir íbúabyggð og verður skipulag Keldnalandsins engin undantekning frá því. Athyglisvert er að Reykjavíkurborg skuli láta landeiganda, sem augljóst er að hafi áðurnefnda hagsmuni, hafa þrjá fulltrúa átta í nefndinni. Er ekki vitað til þess að áður hafi verið staðið þannig að verki að seljanda lands sé látið í té slíkt vald við skipulagningu íbúabyggðar í borginni.

Aðkomu Grafarvogsbúa hafnað

Keldnaland er hluti af Grafarvogshverfi. Í desember sl. lagði íbúaráð Grafarvogs til við borgarráð að íbúaráðið fengi að tilnefna fulltrúa í áðurnefnda dómnefnd. Einn fulltrúi kæmi frá íbúaráðinu og annar frá íbúasamtökunum. Miðað við stærð dómnefndarinnar hefði verið auðvelt að hleypa fulltrúum íbúaráðs Grafarvogs og Íbúasamtaka Grafarvogs í hana.

Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar virtu þessar óskir Grafarvogsbúa að vettugi og vísuðu tillögunni frá í borgarráði. Sú afgreiðsla sýnir að yfirlýsingar borgarfulltrúa meirihlutans um aukið gagnsæi og samráð við íbúa um mikilvægar ákvarðanir, eru innantómar og merkingarlausar.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að lóðaskortur stuðlar að háu lóðaverði, sem hefur bein áhrif til hækkunar húsnæðisverðs.
Augljóst er að umræddri dómnefnd er ætlað að styðja við þá stefnu vinstri manna að viðhalda lóðaskorti í borginni og tryggja hinu opinbera hámarksafrakstur af sölu lóða í Keldnalandi. Hún verður dómnefnd hinna dýru lóða.
Þessi stefna vinstri meirihlutans í borgarstjórn gengur auðvitað gegn hagsmunum tugþúsunda Reykvíkinga. Ekki síst ungs fólks og lágtekjufólks, sem vill komast í eigið húsnæði en hefur ekki efni á því við ríkjandi aðstæður á húsnæðismarkaði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. janúar 2023.