Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:
Dýrasti draumur vinstri manna er borgarlínan svokallaða. Hún er jafnframt helsta áherslumál meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar á þessu kjörtímabili. Kynntar hafa verið undarlegar forsendur, sem byggjast á óskhyggju varðandi fjárfestingarkostnað og notkun kerfisins.
Slík óskhyggja er þekkt þegar lauma á opinberum framkvæmdum með óvissan kostnað yfir á herðar skattgreiðenda. Þá eru lágar tölur nefndar í upphafi á meðan verið er að „selja“ verkefnið og afla stuðnings hjá auðtrúa stjórnmálamönnum og almenningi. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin og framkvæmdir komnar af stað, snarhækka kostnaðartölur og verða jafnframt raunhæfari. En þá er líka oftast orðið of seint að hætta við.
173 milljarðar
Borgarlínuverkefnið er hluti af svokölluðum samgöngusáttmála, sem gerður var 2019 milli skattasinna flestra flokka. Innan vébanda sáttmálans má vissulega finna arðbæra vegagerð og þarfar stígaframkvæmdir sem lengi hefur verið beðið eftir. Framkvæmdir sem raunar hefði átt að ráðast í fyrir löngu með því mikla fé sem fellur til árlega á höfuðborgarsvæðinu með bensíngjaldi og öðrum bifreiðasköttum.
Áætlaður kostnaður við samgöngusáttmálann er nú kominn í 173 milljarða króna samkvæmt samantekt Morgunblaðsins. Athygli vekur að áætlaður kostnaður við þrjú stokkaverkefni nemur samtals 54 milljörðum. Þar af sexfaldast kostnaðarmat Sæbrautarstokks og nemur nú tæpum 18 milljörðum.
Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínu nemur 28 milljörðum króna. Kostnaður við sex áfanga borgarlínu er áætlaður 69 milljarðar króna, sem telja má mikla bjartsýni miðað við áætlað umfang. Enginn veit hver rekstarkostnaður borgarlínu verður en hann kemur til viðbótar. Ekki skiptir máli hvort sá kostnaður lendir hjá ríki eða borg því niðurstaðan er sú sama: hann lendir á þér, skattgreiðandi góður.
Endurskoða þarf samgöngusáttmálann
Ótækt er að skattgreiðendur séu látnir fjármagna verkefni eins og borgarlínuna þegar allar forsendur varðandi fjárfestingu, rekstur og ávinning eru svo veikar.
Mun betri kostur er að styðja betur við núverandi strætisvagnakerfi sem má svo sannarlega efla og bæta. Strætó bs. sárvantar fé til bæði rekstrar og vagnakaupa. Á sama tíma og Reykjavíkurborg, meirihlutaeigandi Strætó, ræður ekki við að reka það fyrirtæki sómasamlega, vill vinstri meirihlutinn stofna annað strætisvagnakerfi, sem ljóst er að verður miklu dýrara í fjárfestingu og rekstri en það sem fyrir er.
Svokölluð „léttlausn“ borgarlínu gæti orðið málamiðlun en færustu sérfræðingar hafa reiknað út að með henni væri unnt að ná flestum markmiðum „þungrar borgarlínu“ fyrir aðeins hluta áðurnefnds kostnaðar.
Aðhalds er þörf í opinberum rekstri enda á mikil skuldasöfnun sér stað hjá bæði ríki og borg. Endurskoða þarf öll verkefni samgöngusáttmálans út frá arðsemi og raunhæfni.
Forkólfar borgarlínu hyggjast fjármagna framkvæmdir við hana með nýrri skattlagningu, sérstökum veggjöldum á höfuðborgarbúa, sem nú þegar greiða einhverja hæstu bensín- og bílaskatta í heimi. Rafskynjarar, sem komið verður fyrir á völdum stöðum í borginni, eiga að skrá allar ferðir okkar og rukka samkvæmt því.
Borgarlínuskatt? – Nei takk!
Verði nýr skattur lagður á Reykvíkinga, hvort sem hann heitir borgarlínuskattur, veggjald, tafagjald eða flýtigjald, er grundvallarkrafa að aðrir skattar lækki jafnmikið á móti. Fáir trúa því að það verði gert. Nær ómögulegt virðist vera að lækka skatta eða afnema eftir að þeir hafa einu sinni verið lagðir á.
Ef ráðist verður í umrædda skattheimtu eins og aðstandendur hennar sjá fyrir sér, verður um að ræða einhverja mestu gjaldahækkun á borgarbúa sem um getur.
Slíka ósvinnu verður að koma í veg fyrir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2023.