Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Hægt og bítandi hafa stjórnvöld víða um heim takmarkað ýmis borgaraleg réttindi á undanförnum árum. Covid-19 heimsfaraldurinn gaf mörgum skjól eða afsökun til að takmarka frelsi borgaranna enn frekar. Staða mannréttinda í heiminum versnaði nær stöðugt frá árinu 2008 til 2020 á mælikvarða Frelsisvísitölunnar [Human Freedom Index] sem Cato-stofnunin í Bandaríkjunum og Fraser-stofnunin í Kanada standa sameiginlega að. Yfir 94% jarðarbúa urðu að sætta sig minna frelsi árið 2020 en 2019.
Frelsisvísitalan er samsett úr 83 mælanlegum þáttum einstaklingsfrelsis, borgaralegra réttinda og efnahagslegs frelsis og nær til 165 landa. Kvarðinn er í sjálfu sér einfaldur, frá 0 til 10, þar sem 10 táknar mest frelsi. Á milli áranna 2019 til 2020 lækkaði vísitalan fyrir heiminn úr 7,03 í 6,81. Vísitalan lækkaði í 148 löndum en hækkaði í aðeins 16.
Lækkun frelsisvísitölunnar skýrist fyrst og fremst af harkalegum aðgerðum stjórnvalda um allan heim vegna Covid-19. Ferðatakmarkanir, harkalegar lögþvingaðar lokanir, samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnaraðgerðir gengu freklega á borgaraleg réttindi í flestum ef ekki öllum ríkjum heims, ekki síst lýðræðisríkjum. En þróunin í átt að minna frelsi – takmörkun á réttindum borgaranna – byrjaði löngu fyrir heimsfaraldurinn.
Hallar undan fæti
Frelsisvísitala fyrir heiminn var fór hæst í 7,33 stig árið 2007 en hefur lækkað nær stöðugt síðan. Löngu fyrir 2020 höfðu Bandaríkin fallið úr einu af tíu efstu sætunum og hröpuðu um sjö sæti milli 2019 og 2020. Bandaríkin sitja nú í 23. sæti yfir þau ríki þar sem frelsi er talið mest. Kanada er í 13. sæti og féll um sex. Staðan í Mexíkó versnaði enn. Landið er í 98. sæti vísitölunnar ásamt Bólivíu. Norður-Ameríka lítur því ekki sérlega vel út.
Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu er Sviss í efsta sæti frelsisvísitölunnar en þar á eftir eru Nýja-Sjáland, Eistland, Danmörk, Írland, Svíþjóð, Ísland, Finnland, Holland og Lúxemborg. Þrátt fyrir góða stöðu í þessum löndum minnkaði frelsi í þeim öllum, líkt og raunar í öllum löndum í 85 efstu sætunum. Þrátt fyrir að Ísland hafi hækkað um þrjú sæti (út tíunda í það sjöunda) lækkaði frelsisvísitalan milli ára um 0,20 stig.
Þegar frelsi borgaranna er metið er litið til þess að mannhelgi einstaklinga sé virt og að borgarar sæti ekki þvingunum stjórnvalda. „Frelsi felur því í sér að einstaklingar eigi rétt á að lifa lífi sínu eins og þeir kjósa, svo framarlega sem þeir virða sama rétt annarra,“ segir í sameiginlegri skýrslu Cato og Fraser um Frelsisvísitöluna, sem kom út fyrir skömmu.
Hægt er að kynna sér skýrsluna í heild hér
Forræðishyggja vaxandi fer
Vísbendingar um að frelsi eigi í vök að verjast í heiminum eru ekki bundnar við Frelsisvísitöluna. Þegar Lýðræðisvísitala The Economist 2021 var gerð opinber var bent á að heimsfaraldurinn hefði leitt til fordæmalausra takmarkana á borgaralegum réttindum. Tilhneiging til að ganga á rétt einstaklinga hafi vaxið, jafnt meðal lýðræðis- og valdstjórnarríkja. Árið 2021 varaði Freedom House við því hvernig lýðræðisríki hefðu gripið ítrekað til óhóflegra takmarkana, undir merkjum sóttvarna, sem ógni lýðræðinu og sé í raun afleiðing 16 ára samfleyttrar hnignunar í alþjóðlegu frelsi.
Í heimsfaraldrinum sannaðist enn einu sinni að frelsið verður yfirleitt fyrsta fórnarlamb óttans og um leið hverfur umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum. Gagnrýnin umræða um aðgerðir stjórnvalda átti erfitt uppdráttar. Leikir sem lærðir veigruðu sér við að spyrna við fótum og spyrja alvarlegra en nauðsynlegra spurninga þar sem óskað var eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna frelsi einstaklinga var takmarkað og hvort of langt væri gengið. Þeim var mætt af fullkominni hörku, jafnt hér á landi sem annars staðar. Á þetta hef ég bent ítrekað. Þegar frjálsir einstaklingar hlýða, athugasemdalaust og án gagnrýni, fyrirmælum stjórnvalda sem takmarka borgaleg réttindi, er leiðin mörkuð til aukinnar forræðishyggju. Jarðvegur valdstjórnar verður til þar sem flestu er viðkemur mannlegri hegðun er stjórnað með reglugerðum og tilskipunum.
Ian Vásquez, einn höfunda Frelsisvísitölunnar, segir að tíminn einn leiði í ljós hvernig við endurheimtum glatað frelsi eftir heimsfaraldurinn. Þegar íbúar lýðræðisríkja endurheimta frelsi eftir harðar sóttvarnaraðgerðir, sé óvíst hvernig íbúum valdstjórnarríkja vegni. Alþjóðlegur ójöfnuður frelsis gæti því aukist á komandi árum. Vásquez bendir á að í þeim tíu löndum þar sem frelsi hefur minnkað mest frá árinu 2008 séu alræðis- og einræðisstjórnir að völdum; í Sýrlandi, Níkaragva, Ungverjalandi, Egyptalandi, Venesúela, Tyrklandi, El Salvador, Búrúndí, Barein og Hong Kong.
Misskipting frelsis í heiminum er staðreynd. Aðeins 13 prósent jarðarbúa búa í þeim löndum sem skipa efsta fjórðung í Frelsisvísitölunni, en 40 prósent tilheyra fjórðungi þeirra landa þar sem sótt er harðast að frelsinu. Meira en 75 prósent búa í löndum sem eru í neðri hluta vísitölunnar. Forræðishyggja fer því miður vaxandi í heiminum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2023.