Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður, skrifar:
Við rekstur ríkisins eiga stjórnvöld að ganga á undan með góðu fordæmi. Þau eiga að sýna aðhald í útgjöldum og stefna að því að létta skuldum af ríkinu, sem sagt af okkur. Það að tekjur ríkissjóðs aukist á ekki að kveikja dollaramerki í augum ráðamanna. Það á ekki að vera sjálfstætt markmið að auka tekjur og þar með álögur á landsmenn, heldur þvert á móti að reka hér gott velferðarkerfi á sem hagkvæmastan máta og með sem lægstum álögum á borgarana.
Einn kimi í húsakynnum ríkisbáknsins sem mætti skoða betur eru stofnanir ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands. Í desember 2021 skilaði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt til Alþingis á stærðarhagkvæmni stofnana ráðuneytanna. Í úttektinni er að finna fjölmargar athyglisverðar upplýsingar, m.a. að yfir helmingur ríkisstofnana hafi 50 eða færri starfsmenn og fjórðungur ríkisstofnana hafi færri en 20 starfsmenn.
Niðurstaða úttektarinnar er sú að nokkur árangur hafi náðst í að fækka ríkisstofnunum á undanförnum árum, en jafnframt er bent á að það sé að miklu leyti vegna flutnings verkefna til sveitarfélaga og vegna hlutafélagavæðingar. Það séu því enn fjölmörg tækifæri til sameiningar og samvinnu innan Stjórnarráðsins. Ekki hafi verið unnið að umbótum í opinberum rekstri með nógu markvissum hætti.
Á þessu ári setti fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp á laggirnar með áherslu á að einfalda stofnanakerfi ríkisins. Markmiðið er að bæta þjónustu, auka skilvirkni, stuðla að sveigjanleika í skipulagi og framþróun og auðvelda stafræna þróun ríkisins. Mikill árangur hefur náðst í stafrænni þróun hins opinbera á liðnum árum. En eins og Ríkisendurskoðun kemst að orði er enn til mikils að vinna að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi ríkisstofnana.
Það er mikilvægt að við þingmenn fylgjumst grannt með þessari vinnu stjórnvalda. Á síðastliðnum árum hafa nokkrir starfshópar sett fram tillögur sem ganga m.a. út á að einfalda stofnanakerfi ríkisins. Þrátt fyrir það eru ríkisstofnanir áfram talsvert margar hérlendis og einkennandi hversu margar þeirra eru litlar. Ég hef því sent ráðherrunum fyrirspurnir um skipulag og stofnanir ráðuneytisins. Þar óskaði ég m.a. eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða vinna standi yfir við stofnanaskipulag með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi. Ég óskaði jafnframt eftir upplýsingum um hvort til skoðunar sé að sameina stofnanir ráðuneyta sem undir þau heyra.
Þegar þetta er skrifað hafa svör borist frá utanríkisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Utanríkisráðuneytið hefur engar undirstofnanir, en heilbrigðisráðuneytið 15 og þar af þrjár sem hafa færri en 50 starfsmenn. Engin formleg skoðun stendur þar yfir varðandi sameiningu stofnana.
Það verður fróðlegt að fylgjast áfram með svörum ráðherranna, ekki síður fyrir fjölmiðla sem ættu að veita stjórnvöldum ríkt aðhald varðandi ráðdeild og hagkvæmni í rekstri.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. janúar 2023.