Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ljósleiðarinn ehf., dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hefur undirritað samning um kaup á stofnneti fjarskiptafyrirtækisins Sýnar sem og tíu ára þjónustusamning milli fyrirtækjanna. Umsamið kaupverð nemur um þremur milljörðum króna og er væntur söluhagnaður Sýnar vegna viðskiptanna rúmir tveir milljarðar króna. Ekki hefur verið upplýst um verðmæti þjónustusamningsins.
Samningurinn felur í sér nokkurra milljarða króna viðbótarskuldsetningu Ljósleiðarans og þar með OR-samstæðunnar og Reykjavíkurborgar.
Um er að ræða afar stóran viðskiptasamning, sennilega einn hinn stærsta sem gerður hefur verið á vegum Reykjavíkurborgar. Viðskiptasamningur þessi átti sér langan aðdraganda en tilkynnt var opinberlega um einkaviðræður milli félaganna 5. september sl.
Áhættufjárfesting utan starfssvæðis OR
Ljóst er að umræddur viðskiptasamningur er mikils háttar og um margt óvenjulegur. Um er að ræða margra milljarða króna áhættufjárfestingu utan skilgreinds starfssvæðis Orkuveitunnar. Eðlilegt hefði verið að fram færi umræða á vettvangi borgarstjórnar um slíkan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu sem hann hefur í för með sér fyrir OR og Reykjavíkurborg.
Stjórnendur Ljósleiðarans segja að markmið viðskiptanna sé að byggja upp nýjan landshring fjarskipta. Ljósleiðarinn (áður gagnaveitan, þar áður Lína.net) er stundum nefndur „fimmta veita“ Orkuveitunnar. Dettur einhverjum í hug að hægt væri að ákveða að einhver önnur veita OR (fráveitan, hitaveitan, rafmagnsveitan eða vatnsveitan) færi í slíka uppbyggingu hringinn um landið án undangenginnar kynningar og samþykktar í borgarstjórn?
Umræðubann markar tímamót í borgarstjórn
Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fórum fram á umræðu í borgarstjórn um málefni Ljósleiðarans 20. desember sl. Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar bönnuðu hins vegar að málið yrði sett á dagskrá. Við óskuðum aftur eftir því að málið yrði sett á dagskrá borgarstjórnarfundar 3. janúar en fulltrúar áðurnefndra flokka kusu að halda umræðubanninu til streitu.
Með slíku umræðubanni hafa orðið ákveðin tímamót í borgarstjórn Reykjavíkur. Aldrei áður hefur verið brotið gegn þeim rétti borgarfulltrúa að setja löglega fram borið mál á dagskrá borgarstjórnarfundar. Með slíku banni gerist meirihlutinn sekur um valdníðslu og einokunartilburði.
Slíkt bann er gróft brot á ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. En þar er skýrt kveðið á um að borgarfulltrúi eigi rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.
Fulltrúar meirihlutaflokkanna hafa borið því við að ekki sé hægt að ræða þennan stóra viðskiptasamning í sölum borgarstjórnar þar sem málefni Ljósleiðarans séu mjög viðkvæm og bundin trúnaði. Rétt er að benda á að sveitarstjórnarlög heimila að einstök trúnaðarmál skuli rædd fyrir luktum dyrum í borgarstjórn. Meirhlutinn hefði getað farið fram á slíkt en kaus þess í stað að banna umræðuna með öllu.
Samningaviðræður milli Ljósleiðarans og Sýnar áttu sér stað á rúmlega þriggja mánaða tímabili og á þeim tíma komu fram margvíslegar upplýsingar í fjölmiðlum um væntanlegt samstarf þeirra, ekki síst með opinberum tilkynningum. Auðvelt hefði verið að taka pólitíska umræðu um málið í borgarstjórn á grundvelli þeirra opinberu upplýsinga án þess að nokkrum trúnaðarupplýsingum væri ljóstrað upp.
Laumuspil og leyndarhyggja
Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kýs laumuspil og leyndarhyggju vegna umræddra viðskipta. Og skirrist ekki við að brjóta lög til að koma í veg fyrir umræðu um málið í borgarstjórn.
Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir óþægilega umræðu um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir OR og Reykjavíkurborgar. Þá er ljóst að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar meirihlutans vilja firra sig ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn OR eftir því sem kostur er.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2023.