Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Háskóli Íslands var lengi vel eini háskóli landsins og hafði það meginhlutverk að sjá ríkinu fyrir læknum, verkfræðingum, prestum og dómurum. Eftir því sem tímar liðu varð háskólinn einnig að rannsóknarstofnun ekki síður en kennslustofnun. Þótt háskólum á Íslandi hafi nú fjölgað í sjö talsins virðast rannsóknir stundum gleymast, bæði í huga almennings en einnig hjá fjárveitingavaldinu.
En hvernig eflum við rannsóknir og tryggjum að þær fái nauðsynlega næringu til að þróast yfir í arðbær og skapandi fyrirtæki?
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að endurskoða bæði reiknilíkan og lög um háskóla. Við þurfum að treysta fjárhag þeirra, fjölga möguleikum til tekjuöflunar og skerpa á fjármögnun rannsókna. Alþjóðlegir listar yfir háskóla eru notaðir sem mælistikur á gæði en veigamikið atriði í þeim úttektum er fjöldi nemenda á hvern akademískan starfsmann þar sem margir nemendur á kennara gefa lága einkunn. Reiknilíkan íslensku háskólanna gengur í gagnstæða átt. Reiknilíkanið var á sínum tíma hannað til að fjölga nemendum. Þetta var fyrir síðustu aldamót. Síðan þá hafa allar nágrannaþjóðir okkar endurskoðað sín reiknilíkön og hér á landi hef ég ýtt úr vör vinnu við slíka endurskoðun.
Í öðru lagi verður að huga að stöðu framhaldsnáms á háskólastigi. Ýmislegt mætti betur fara, til dæmis með því að skólar sameinist um að halda úti framhaldsnámi í ákveðnum greinum. Fjölgun framhaldsnema á Íslandi hefði margs konar jákvæð áhrif inn í rannsóknastarf enda er rannsóknarframlag þeirra í mörgum tilvikum verulegt. Samt þarf að fara varlega í þeim efnum því það er styrkleiki að öflugir nemendur fari utan til náms eftir framhaldsskóla eða grunnnám. Þeir standa sig oft á tíðum vel í erlendum háskólum og færa þekkinguna með sér heim. Fámenn háskóladeild í íslenskum háskóla getur naumast boðið upp á þá breidd og þann sveigjanleika sem stærri og öflugri háskólar geta boðið sínum nemendum.
Það þarf þó fleira til að koma.
Með því að gera búsetuskilyrði á Íslandi enn eftirsóknarverðari sköpum við grundvöll fyrir því að íslenskir nemendur erlendis og alþjóðlegir sérfræðingar sækist eftir því að flytjast hingað ásamt fjölskyldum sínum í vel launuð störf eða til að sinna áhugaverðum rannsóknum. Við höfum nú þegar náð árangri og þurfum að halda áfram með því að auka fjölbreytni bæði atvinnu- og menningarlífs og tryggja gæði heilbrigðis- og skólakerfis svo og frístundastarfs barna og ungmenna. Allt eru þetta hlekkir í þeirri keðju farsældar sem við viljum skapa í landinu. Öflugt nýsköpunarsamfélag þarf fjölbreytt og iðandi mannlíf til að geta þrifist og blómstrað. Þannig samfélag viljum við byggja upp.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2023.