Hátíð, heilsa og hamingja
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Ég sótti, fyr­ir rúm­um ára­tug, stutt nám er­lend­is. Það er ekki í frá­sög­ur fær­andi nema ég man hvað mér fannst gott að geta átt í reglu­leg­um sam­skipt­um við mína nán­ustu, svo sem for­eldra og vini, þar sem tækn­in bauð upp á það. Þau sem eldri eru og hafa dvalið er­lend­is leyfðu sér ekki oft þann munað að hringja heim og ekki fóru sam­skipt­in fram í gegn­um sam­skiptamiðla eins og í dag.

Það er eng­in til­vilj­un að sam­skipti okk­ar hefjast oft á orðunum „gott að sjá þig“ og enda á því að von­andi sjá­umst við fljótt aft­ur. Fé­lags­leg sam­skipti eru okk­ur mik­il­væg og hafa áhrif á líðan okk­ar og vel­ferð. Góð fé­lags­leg sam­skipti skipta máli á öll­um ald­urs­skeiðum, auka hæfi­leika fólks til að miðla upp­lýs­ing­um, læra af öðrum, leita tæki­færa og næra sál­ina.

Rann­sókn Har­vard-há­skóla sem spann­ar átta­tíu ár sýn­ir fram á að ham­ingja fólks er meiri þar sem sam­fé­lagið styður og ýtir und­ir fé­lags­leg sam­skipti. Það er ekki síður mik­il­vægt að við rækt­um fé­lags­leg tengsl okk­ar og eig­um sam­skipti við fólk rétt eins og við sinn­um lík­am­legri heilsu. Að heim­sækja ömmu eða fá sér kaffi­bolla með vin­konu er ekki síður mik­il­vægt en að hreyfa sig. Góð fé­lags­leg tengsl bæta heilsu okk­ar og auka vellíðan.

Ein­mana­leiki fólks er þó ein stærsta áskor­un stór­borga víða um heim. Það verður æ al­geng­ara að fólk búi eitt og nú er svo komið að ein­mana­leiki og fé­lags­leg ein­angr­un er orðið ein al­var­leg­asta heil­brigðisvá sam­tím­ans, þvert á kyn­slóðir. Heim­ur­inn hef­ur breyst hratt og við þurf­um sí­fellt að finna nýj­ar leiðir og lausn­ir við verk­efn­um sam­tím­ans. Víða um heim­inn nýta þjóðir sér ný­sköp­un og sta­f­ræn­ar lausn­ir til að efla fé­lags­leg tengsl fólks. Bret­ar eru í þeim hópi en þeir hafa tekið þessa þróun al­var­lega og stjórn­völd hafa sett mál­efnið á odd­inn með stefnu gegn ein­mana­leika.

Það er mik­il­vægt að við hug­um að vellíðan ís­lensku þjóðar­inn­ar. Á Íslandi hef­ur þeim sem finna fyr­ir ein­mana­leika fjölgað veru­lega á síðustu árum. Það er var­huga­verð þróun og þrátt fyr­ir að við séum tengd all­an sól­ar­hring­inn upp­fylla sam­fé­lags­miðlar ekki þörf okk­ar mann­fólks­ins fyr­ir fé­lags­leg sam­skipti og tengsl.

Fé­lags­leg sam­skipti okk­ar eru gjarn­an meiri um hátíðarn­ar. Við hlú­um að þeim sem standa okk­ur næst og reyn­um að snerta á sem flest­um með góðum kveðjum og öðrum sam­skipt­um. Við sem sam­fé­lag þurf­um að hlúa að þeim sem njóta minni stuðnings frá fjöl­skyldu og vin­um, hafa ein­angr­ast eða þurfa al­mennt meiri stuðning. Við þurf­um að halda bet­ur hvert utan um annað, ekki aðeins yfir hátíðarn­ar eða þegar veður er vont held­ur alla daga árs­ins. Þannig sköp­um við öfl­ugra og betra sam­fé­lag fyr­ir okk­ur öll.

Gleðilega hátíð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2022.