Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Í vikunni mælti ég fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Markmið frumvarpsins er að auka sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi og einfalda reglur um starfslok ríkisstarfsmanna. Breytingarnar miða aðallega að því að fella niður þá skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots hins síðarnefnda á starfsskyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Þetta ferli er enda bæði þunglamalegt og tímafrekt. Með breytingunum sem lagðar eru til er sömuleiðis stigið lítið skref í þá átt að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum markaði.
Lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna voru upphaflega sett árið 1954, en gildandi lög eru frá árinu 1996. Umræddar reglur um áminningu og uppsagnir, sem frumvarpið tekur til, hafa í meginatriðum haldist óbreyttar frá upphafi. Á sama tíma hafa aðstæður í samfélaginu og hjá hinu opinbera gjörbreyst.
Verkefni ríkisins hafa breyst, þau eru orðin umfangsmeiri og oft og tíðum hliðstæð verkefnum á almennum markaði, auk þess sem stofnun umboðsmanns Alþingis og setning stjórnsýslulaga hafa stóraukið starfsöryggi ríkisstarfsmanna.
Starfsmannahald hins opinbera hefur vaxið jafnt og þétt og fjölgun opinberra starfa hefur verið mikil, en samkvæmt tölum Hagstofunnar voru launþegar hjá hinu opinbera um þriðjungur af heildarfjölda launafólks í landinu á síðasta ári. Laun opinberra starfsmanna hafa líka hækkað mun hraðar á undanförnum árum en laun á almenna markaðnum. Þar eru að verða umskipti frá því sem áður var.
Laun og tengdur kostnaður eru um fjórðungur af útgjöldum ríkisins. Það er mikilvægt að þessir fjármunir nýtist sem best og starfsemin sé eins hagkvæm og skilvirk og mögulegt er.
Það skal áréttað að breytingarfrumvarpið snýr ekki að því að afnema réttaröryggi opinberra starfsmanna í samskiptum við vinnuveitanda sinn. Það verður áfram mun meira en það sem launþegar á almennum vinnumarkaði búa við.
Umræða um breytingu á lögum um ríkisstarfsmenn hefur verið tekin margsinnis á Alþingi, en Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna og lagt til að breyta þurfi lögunum á þennan hátt. Það er von mín að nú verði loksins gerðar löngu tímabærar breytingar á þessum lögum.
Morgunblaðið, 15. október 2022.