Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
Kórónuveirufaraldurinn gerði flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins, eðli málsins samkvæmt, erfitt fyrir. Fólk mátti ekki koma saman og ekki var unnt að halda hefðbundna fundi sem dró verulega úr þeim mikilvæga mannlega þætti sem fylgir starfi stjórnmálaflokka. Auðvitað nýttum við tæknina okkur til halds og trausts, en ekkert kemur þó í staðinn fyrir hið félagslega sem fylgir því að hitta fólk og ræði málin augliti til auglitis.
Það er ánægjulegt að sjá þann mikla kraft sem einkennir starfsemi sjálfstæðisfélaganna víða um land, nú þegar fullt fundafrelsi ríkir á ný.
Sem dæmi um öflugt framtak má nefna að fjögur sjálfstæðisfélög í Reykjavík stóðu í sameiningu að opnum málefnafundi um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans í fyrradag. Þrír þingmenn, þrír borgarfulltrúar og þrír sérfræðingar tóku þátt í umræðum ásamt vel á annað hundrað flokksmönnum sem lögðu leið sína á fundinn.
Það er góður upptaktur í starfinu fyrir landsfund sem haldinn verður í byrjun nóvember. Þrátt fyrir tveggja ára heimsfaraldur þá er alltaf kraftur í fólkinu í flokknum.
Grasrótin hefur ávallt verið kjarninn í flokknum og hefur tryggt að grundvallarstefna flokksins um frelsi og framtak einstaklingsins sé ávallt í hávegum haft. Flokkurinn er ekkert án fólksins í honum. Við erum eini fjöldaflokkur landsins og það er mikil gæfa. Við getum ekki staðið við grunngildi flokksins, stétt með stétt, án fólksins sem leggur tíma sinn og orku í að stuðla að bættu samfélagi.
Við Sjálfstæðismenn getum fagnað því að komið sé að landsfundi eftir tæplega fimm ára bið. Á landsfundi mótar fólkið í flokknum stefnuna og leggur línurnar fyrir komandi ár. Þar eigum við samtalið um það hvar við stöndum og hvert við viljum fara. Við getum alltaf gert betur. Það á við nú líkt og áður.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.