Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Reykjavíkur skrifar:
Fjárlagafrumvarp ársins 2023 var rætt á Alþingi í síðustu viku og átti ég orðastað við heilbrigðisráðherra í þinginu vegna frumvarpsins.
Þrátt fyrir að útgjöld til heilbrigðismála hafi aldrei verið hærri og aukist verulega undanfarin fimm ár, er staðan í heilbrigðiskerfinu okkar ekki eins og best verður á kosið. Það er nefnilega ekki lögmál að hærri framlög leiði til betri þjónustu. Ég lagði því áherslu á að við ættum að leita allra leiða til þess að fara vel með fjármuni í heilbrigðiskerfinu og nýta þá sem best. Hér eru að vísu í gildi lög um sjúkratryggingar frá 2008. Þau eiga að stuðla að þessu m.a. með því að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna, en frumvarp til þeirra laga var lagt fram af Guðlaugi Þór, þáverandi heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Í fjárlagafrumvarpinu kemur m.a. fram að hér verði loks innleitt þjónustutengt fjármögnunarkerfi. Ég spurði heilbrigðisráðherra því hvenær þetta fyrirkomulag yrði að fullu innleitt og hvenær árangurs væri að vænta. Sömuleiðis hversu mikið væri í raun kostnaðargreint í heilbrigðiskerfinu, 14 árum eftir gildistöku laga um sjúkratryggingar.
Heilbrigðisráðherra gaf að vísu ekki nákvæmar dagsetningar í þessu tilliti, en sagði aukinn þunga hafa verið settan í innleiðinguna og að unnið væri að henni í nánu samstarfi við stofnanir heilbrigðiskerfisins. Í ár yrði unnið í eins konar prufukeyrslu á verkefninu en farið yrði í formlega innleiðingu á næsta ári. Þetta væri m.a. á könnu nýrrar stjórnar Landspítalans.
Þetta hefur verið löng fæðing og fullt tilefni er til að Alþingi fylgist náið með þessari framkvæmd. En ekki síst að af henni verði. Bætt nýting fjármuna í heilbrigðiskerfinu er eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna og það er mikilvægt að gamaldags hugsun komi ekki í veg fyrir skynsama uppbyggingu og breytingar í heilbrigðiskerfinu. Sjúklingarnir okkar eiga betra skilið og heilbrigðisstarfsfólkið sömuleiðis.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. september 2022