Hildur Sverrisdóttir, alþingismaður:
Á sunnudagskvöld sat ég á hótelherbergi í Portúgal og fylgdist á snjóugum skjá með Englandi vinna sigur á Evrópumeistaramóti kvenna í fótbolta.
Þótt ég hafi reyndar haldið með Englandi var það ekki sá sigur sem hafði mest áhrif á mig heldur þessi stórkostlega sigurstund kvennaboltans í heild – og þar með kvenna.
Það er nefnilega ástæðulaust að gera lítið úr því hvað þessi stund á troðfullum Wembley olli miklum sviptivindum í fyrirframákveðnum skoðunum margra, skoðunum sem (stundum af einbeittum brotavilja en yfirleitt ómeðvitað) litast af hugmyndum um að framlag kvenna í fyrirframgefnum karlaheimum sé á einhvern hátt minna virði.
Það var ekki síst táknrænt að það voru ensku ljónynjurnar sem hrepptu hnossið, að bikarinn „kom heim“ í fyrsta sinn síðan 1966, í fangi einhverra kellinga eins og mörg fótboltabullan klárlega hugsaði það en komst á sama tíma ekki hjá því að fyllast stolti. Á því augnabliki varð framlag kvenna ósjálfrátt gjaldgengara í huga þeirra.
Augnablikið þar sem Chloe Kelly fagnaði marki sínu með því að rífa sig úr bolnum eins og við höfum séð svo oft í karlaboltanum var líka merkingarþrungnara en leit kannski út í fyrstu. Það er ekki efi í mínum hug að það að kona svipti sig klæðum frammi fyrir milljónum áhorfenda án þess að því fylgdi vottur af kven- eða kynferðislegum tilgangi voru dýrmæt skilaboð.
Það sem þessi stund sýndi okkur er að það er þá eftir allt saman ekki meitlað í stein að kvennaboltinn fái færri áhorfendur og minni athygli því þannig sé það bara og þannig verði það alltaf.
Og þetta er hvorki fyrsta né síðasta slíka uppgötvun þess að það er varla til neitt sem kalla má óhnikanlega staðreynd í samfélagi manna, heldur síkvikar þróanir hugmynda, viðmiða og hefða. Það á við um öll mengi samfélagsins.
Á morgun fögnum við Gleðigöngunni. Og rétt eins og kvennaboltinn sýndi okkur hvernig viðmið okkar geta breyst smám saman eða á svipstundu þá á það líka við um málefni hinsegin fólks.
Við eigum þvert á úrtöluraddir að fagna fjölbreytileika einstaklingsins og rétti hans til að lifa eftir eigin sannfæringu. Við eigum ekki að letja heldur hvetja fólk til að blómstra á eigin forsendum og gæta þess að valda ekki skaða þeim manneskjum sem upplifa sig á annan hátt en okkar fyrirframgefnu hugmyndir segja til um.
Í réttindabaráttu hinsegin fólks hefur Sjálfstæðisflokkurinn góða sögu að segja þó að andstæðingar hans reyni oft að viðhafa aðra söguskoðun þar á. En við slíkar góðar sögur má aldrei setja punkt, heldur sífellt vera opin fyrir að bæta við nýjum kafla, nýjum vendingum, nýjum söguhetjum.
Eftir frækilegan sigur kvennaboltans er við hæfi að við höldum hinsegin daga hátíðlega – þar sem við höldum áfram að fagna framþróun, frelsi og fjölbreytileika.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. ágúst 2022.