Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Auðvitað kemur það ekki á óvart að eins máls flokkar reyndi að nýta sér innrás Rússa í Úkraínu til að boða hina endanlegu og einu lausn allra vandamála; aðild að Evrópusambandinu. Í þeirri von að loksins rætist draumurinn er hoppað á vagn hræðsluáróðurs. Einu sinni var það evran sem öllu átti að bjarga hér á landi og nú á Evrópusambandið að tryggja öryggi landsins gagnvart utanaðkomandi ógn.
Í Svíþjóð og Finnlandi gera æ fleiri sér grein fyrir því að skjólið í öryggis- og varnarmálum er ekki að finna í Evrópusambandinu heldur með samvinnu við Atlantshafsbandalagið og jafnvel með fullri þátttöku. Stuðningur við að Finnland gangi í Atlantshafsbandalagið hefur aldrei mælst meiri eða 62% samkvæmt skoðanakönnun finnska ríkisútvarpsins. Aðeins 16% eru andvíg. Í Svíþjóð hefur stuðningur við aðild aldrei verið meiri og í fyrsta skipti eru fleiri fylgjandi aðild en eru gegn henni.
Ástæðan er einföld. Aðild að Evrópusambandinu og eigin her er ekki nægjanleg trygging í öryggis- og varnarmálum í huga almennings og stjórnmálamanna. Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar í hótunum við frændþjóðir okkar.
Þegar frjálsar þjóðir verða efnahagslega og pólitískt háðar landi sem stjórnað er af hrotta, sem hefur leikreglur lýðræðis að engu og virðir fullveldi nágrannaríkja að vettugi, eiga þær á hættu að verða berskjaldaðar gagnvart yfirgangi. Leiða má rök að því að Pútín hafi nýtt sér sinnuleysi og fullkomið ábyrgðarleysi þjóða Evrópusambandsins og þá sérstaklega Þýskalands í orkumálum. Kæruleysi og barnaskapur forysturíkja Evrópusambandsins í varnarmálum á síðustu áratugum hefur opinberast með afgerandi hætti eftir innrásina í Úkraínu. Sambandið hefur hvorki hernaðarlega burði né pólitískt þrek til að tryggja varnir aðildarlanda. Öryggi Evrópu og þar með Evrópusambandsins byggist á öflugu varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins.
Ákall til félagshyggjufólks
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um liðna helgi var formaðurinn með ákall til svokallaðra félagshyggjuflokka. Félagshyggjufólk verði að sameinast og hætta að stofna nýja og nýja flokka. Aðeins verði hægt að þjappa félagshyggjufólki í færri flokka með umburðarlyndi sem mögulega hafi skort á. „Vegna þess að við munum ekki ná árangri með því að stofna nýja og nýja flokka, oft utan um áhugamál einstakra stjórnmálamanna,“ sagði Logi Einarsson. Og kannski í anda samstöðu og umburðarlyndis vill formaðurinn „endurnýja samfélagslega umræðu“ um aðild að Evrópusambandinu. „Um er að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og það er tími til kominn að setja aðildarumsókn að Evrópusambandi aftur rækilega á dagskrá.“
Seint verður hægt að halda því fram að vinstrimenn – félagshyggjufólk – geti sameinast um aðild að Evrópusambandinu, enda um „áhugamál einstakra stjórnmálamanna“ og tveggja systurflokka að ræða. En ESB-sinnar telja að í skugga stríðs í Evrópu sé lag – þeir hafi fengið svipað tækifæri og gafst en gekk þeim úr greipum þegar bankarnir hrundu og þjóðin gekk í gegnum miklar efnahagslegar þrengingar.
Þegar vinstristjórn tók við völdum í febrúar 2009 fékk Samfylkingin algjört forræði yfir utanríkismálum. Stefnan var tekin á Brussel. Mikilvæg hagsmunamál, þar á meðal öryggis- og varnarmál, voru sett til hliðar. Allt snerist um aðild að ESB. Komið var í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina líkt og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í þingsályktunartillögu.
Eftir kosningasigur í apríl herti vinstristjórnin róðurinn. Byggðar voru upp óraunhæfar væntingar. Fullyrt var að Ísland fengi sérstaka flýtimeðferð og gæti jafnvel orðið eitt ríkja Evrópusambandsins þegar árið 2012. Í stefnuræðu í maí 2009 fullyrti forsætisráðherra að aðildarumsóknin myndi stuðla strax að jákvæðum áhrifum á gengi krónunnar og á vexti. Eftir því sem aðildarferlinu miðaði áfram því meiri yrðu jákvæðu áhrifin. Almenningur komst að öðru.
Utanríkisráðherra lýsti yfir „diplómatískum“ sigri eftir að ráðherraráð ESB samþykkti aðildarumsókn Íslands í júlí 2009. „Diplómatíski sigurinn“ skilaði engu, allra síst í efnahagsmálum.
Endursýning
Ef marka má fréttir af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina og orðum formanns er ljóst að reynt verður að setja aftur á fjalirnar pólitíska leiksýningu sem stóð yfir í fjögur ár frá 2009. Þá var reynt að telja almenningi trú um að í gangi væru sérstakar samningaviðræður milli Íslands og Evrópusambandsins. Byggt var undir þá trú að Íslendingar gætu samið um breytt regluverk Evrópusambandsins. Forystumenn vinstristjórnarinnar vissu betur og þá ekki síst utanríkisráðherra en á upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins sagði meðal annars:
„Hvor aðili um sig, umsóknarríkið og ESB, hafa sín samningsmarkmið og af hálfu umsóknarríkis snúa þau vanalega fyrst og fremst að því að fá að njóta ákveðins sveigjanleika við að taka upp lög og stefnumið ESB.“
Í skýrslu Evrópuþingsins í apríl 2011 kom fram að steinar væru í götu aðildarumsóknar Íslands; Icesave, hvalveiðar og löngun Íslendinga til að verja sjávarútveg og landbúnað. Evrópuþingið hvatti íslensk stjórnvöld til að aðlaga lög um fiskveiðar reglum innri markaðar Evrópusambandsins.
Hér verður feigðarför vinstristjórnarinnar ekki rakin en um miðjan janúar 2013 var gefist upp og aðildarviðræðurnar settar á ís. Þá var aðeins búið að ljúka viðræðum um ellefu kafla í löggjöf Evrópusambandsins, viðræður stóðu yfir um sextán kafla, búið var að móta samningsafstöðu Íslands í tveimur köflum en viðræður ekki hafnar. Svokölluð samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda voru ekki tilbúin í fjórum köflum, þar á meðal um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Langmikilvægustu hagsmunamál Íslendinga sátu alla tíð á hakanum í viðræðunum enda þjónaði það illa pólitísku markmiði Samfylkingarinnar.
Hráskinnaleikur vinstristjórnarinnar undir forystu Samfylkingarinnar var tilraun til að stilla landsmönnum upp við vegg. Íslendingar ættu ekki aðra kosti en að ganga í Evrópusambandið til að byggja aftur upp efnahagslífið eftir fall viðskiptabankanna árið 2008. Endurreisn íslensks efnahagslífs tókst utan Evrópusambandsins og það með betri og öflugri hætti en í flestum löndum Evrópu. Nú ætlar forysta Samfylkingarinnar að reyna sama leik og nýta innrás Rússa í Úkraínu. Eða eins og þeir segja: „The show must go on.“
Morgunblaðið, 16. mars. 2022.