Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Nú eru nákvæmlega tvö ár síðan fyrsta smitið af kórónuveirunni greindist á Íslandi. Í tvö ár höfum við búið við skerðingar á okkar daglega lífi. Við höfum orðið að aðlaga líf okkar veruleika sem ekkert okkar átti von á að þurfa að upplifa. Veruleika sem rífur í, stanslausir fundir þar sem verið er að leggja okkur lífsreglurnar, hvað má ekki gera og endalaust verið að fjalla um fjölda þeirra sem eru smitaðir og ástandið á Landspítalanum. Tvö ár er langur tími, en sem betur fer er umræða um áhrif kórónuveirunnar á andlega heilsu okkar allra að verða meira áberandi. Allt bendir til að andlegri heilsu okkar sé að hraka, það sýna rannsóknir.
Á þessum tveggja ára tímamótum verður að bregðast við og fara að huga að endinum. Því þessi faraldur tekur enda og allt bendir til þess að núna sé endirinn í sjónmáli. Þar þarf bæði ríkið og sveitarfélög að koma með tillögur sem miða að því að hlúa að andlegri heilsu landsmanna. Það er þekkt að þegar við upplifum erfiða tíma bregðumst við misjafnlega við. Hins vegar er það merkilegt að eftir að ástandið er gengið yfir koma oft upp andlegir erfiðleikar. Hvernig mun unga fólkið okkar koma út úr þessu ástandi? Við verðum að fara að huga að því, án þess þó að sjúkdómsvæða þeirra líðan. Unglingarnir okkar stóðu ekki vel fyrir komu kórónuveirunnar og því miður hefur orðið gríðarleg röskun á þeirra lífi. Það er eflaust ekki auðvelt að vera ung manneskja og alast upp á tímum kórónuveirunnar þar sem öll félagsleg samskipti eru allt önnur en við eigum að venjast. Unglingar hafa sjálfir verið duglegir að kalla eftir breytingum og aukinni fræðslu um geðheilbrigði. Því miður hefur ekki verið orðið við þeim óskum. Við verðum að hlúa betur að unga fólkinu okkar, það getum við gert t.d. með því að kenna geðrækt í skólunum líkt og við Sjálfstæðismenn höfum lagt til að gert verði í Reykjavík. Eins höfum við lagt til að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá Reykjavíkurborg vegna kórónuveirunnar sú tillaga var samþykkt í borgarstjórn árið 2020. Sjaldan eða aldrei hefur verið mikilvægar en nú að huga að geðheilbrigðismálum og því að endirinn á þessum faraldri er vonandi í sjónmáli. Reykjavíkurborg á að setja geðheilbrigðismál í forgang, það er eitt af mikilvægustu verkefnum sem þarf að vinna núna, hlúum mun betur að andlegri heilsu okkar allra.
Morgunblaðið 27. janúar 2022.