Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Þýskalands kallar á skýra afstöðu þeirra sem styðja innlimun Íslands af hálfu ESB.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Þýskalands, sem tók við völdum núna í byrjun desember, kemur fram að unnið skuli að því markmiði að Evrópusambandið verði að eiginlegu sambandsríki. Þannig eigi að þrýsta á um breytingar á sambandinu og sáttmálum þess til þess að ná markmiðinu.
Þetta er að vísu ekki fyrsta ákall Þjóðverja um evrópskt sambandsríki, en fjölmargir forystumenn í þýskum stjórnmálum hafa í gegnum tíðina kallað eftir þessari þróun. Að mér vitandi er þetta þó í fyrsta sinn sem slíkt ratar í stjórnarsáttmála. Þetta eru því mikil tíðindi frá þessu áhrifamikla, fjölmennasta ríki Evrópusambandsins og má færa rök fyrir því að um vatnaskil sé að ræða.
Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu og einn helsti leiðtogi frjálslyndra flokka (að eigin mati) á Evrópuþinginu, tekur þessum fregnum fagnandi. Líkast til sér hann þá lausn á endalausum klofningi Belgíu að leysa evrópsku þjóðríkin upp. En lýsing hans á hinu nýja Evrópusambandi er ekki uppörvandi fyrir smáþjóðirnar sem eiga að missa öll völd til sambandsins.
Þróunin innan Evrópusambandsins hefur um nokkuð langt skeið verið í átt að stórauknum samruna. Fróðlegt væri að vita hver afstaða ESB-flokkanna á Alþingi – Samfylkingar, Viðreisnar og e.t.v. Pírata – er til þessarar stefnu þýskra skoðanasystkina þeirra. Stefnu í áttina að eiginlegu evrópsku sambandsríki.
Ég kallaði eftir afstöðu þessara flokka til þessa á Alþingi nú í vikunni. Svar eins fulltrúa Viðreisnar var athyglisvert. Sigmar Guðmundsson þingmaður svaraði því til að honum hugnaðist ekki hugmyndir um miðstýrt sambandsríki Evrópu. Það má skilja orð þessa þingmanns Viðreisnar, sem stofnuð var vegna afstöðunnar til Evrópusambandsins, svo að honum hugnist ekki fyrirætlun ríkisstjórnar Þýskalands. Ástæða er til að spyrja í framhaldinu hvort Viðreisn muni nú ekki leggja til fyrir sitt leyti að einungis verði sótt um aðild ef gerður verði fullur fyrirvari hvað þetta varðar. Ísland muni aldrei sætta sig við frekara valdframsal en þjóðir sambandsins verða nú að þola.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.