Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Öll ríki eru statt og stöðugt að endurmeta hvernig best sé að takast á við þann faraldur sem hefur sett líf okkar allra á annan endann í tæp tvö ár. Við upphaf faraldursins var óljóst hvernig hægt yrði að eiga við þennan vágest, hvaða afleiðingar veikindi hefðu og þannig mætti áfram telja. Við þekkjum vel þá þróun sem síðan hefur átt sér stað en þar ber hæst að langstærstur hluti þjóðarinnar er nú bólusettur, sem minnkar verulega líkur á alvarlegum veikindum. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við vel samkvæmt ýmsum mælikvörðum, hvort sem litið er til fjölda andláta, bólusetningarhlutfalls eða stuðnings vegna takmarkana og þannig mætti áfram telja.
Þá er óumdeilt að breytingar hafa orðið. Á sama tíma og við sjáum töluverðan fjölda smitast af Covid-19 er hlutfallsega minna um spítalainnlagnir og þeir sem lenda á sjúkrahúsi þurfa styttri dvöl. Fjöldi fólks á spítala hefur verið einn helsti mælikvarðinn sem lagður er til grundvallar íþyngjandi sóttvarnaráðstöfunum. Lækna- og lyfjavísindi þróast áfram með jákvæðum hætti og breytir það því hvernig við tökumst á við faraldurinn. Það er breyting til batnaðar og gefur tilefni til að meta upp á nýtt hvort og hvernig við bregðumst við tölum um fjölda smita.
Það eru þó ýmis úrlausnarefni sem standa eftir og það eru, því miður, ýmis atriði sem valdið hafa ákveðinni gjá milli einstakra hópa í samfélaginu. Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða sem skerða frelsi fólks með margvíslegum hætti og hafa valdið ákveðnum starfsgreinum skaða og við eigum eftir að sjá hvaða efnahagslegu, félagslegu og sálrænu áhrif aðgerðir okkar eiga eftir að hafa til lengri tíma. Allt skiptir þetta máli og til þess að samfélag okkar megi virka sem best þurfa allir þessir þættir að vera í lagi.
Faraldurinn hefur skapað álag á heilbrigðiskerfið og það er úrlausnarefni okkar til lengri tíma að tryggja að rekstur heilbrigðiskerfisins, þar með talið Landspítalans, verði þannig úr garði gerður að það ráði við verkefni sem þessi. Öllum má vera ljóst að við getum ekki sett allt samfélagið í heljargreipar aftur og aftur af því að spítalinn ræður ekki við það að fá til sín fólk sem þarf á þjónustu hans að halda. Um það erum við flest sammála.
Það skiptir einnig máli að áfram fari fram skoðanaskipti vegna þeirra aðgerða sem ráðist er í, hvort þær séu yfirhöfuð réttlætanlegar, með hvaða hætti þær eru útfærðar og svo framvegis. Eftir því sem á líður verður ljósara hversu mikilvægt það er að horfa til fleiri þátta en sóttvarna og fjölda þeirra sem smitast, s.s. efnahagslegra og félagslegra þátta. Það er því eðlilegt að spyrja spurninga og velta upp nýjum hugmyndum. Faraldurinn hefur kostað okkur mikið, en hann má ekki kosta okkur heilbrigða og málefnalega umræðu. Það mun þegar horft er til lengri tíma hafa verri afleiðingarnar en faraldurinn sjálfur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2021.