Við áramót
'}}

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Marg­ir töldu ef­laust að með snjóflóðum, heims­far­aldri og aur­skriðum árs­ins 2020 væri nóg komið. Nátt­úr­an var hins veg­ar fljót að minna á sig að nýju. Eft­ir nokk­urra mánaða skjálfta­hrinu hófst eld­gos á Reykja­nesi í mars. Bless­un­ar­lega hlaust tak­markaður skaði af, en sjón­arspilið varð þeim mun meira. Og nú nokkr­um mánuðum eft­ir að ró var kom­in yfir gosstöðvarn­ar skelf­ur jörðin á ný af mikl­um krafti.

Hrær­ing­ar árs­ins voru þó víðar en í iðrum jarðar. Árið 2021 var upp­gjörsár í stjórn­mál­un­um, þegar fyrsta þriggja flokka rík­is­stjórn­in lauk heilu kjör­tíma­bili. Þessi breiða stjórn var mynduð um stöðug­leika í sam­fé­lag­inu, sam­starf sem sum­um þótti ólík­legt til ár­ang­urs en skilaði góðu verki. Síðustu ár voru ár sókn­ar í ný­sköp­un og fjár­fest­ingu. Ár lægri skatta og lágra vaxta. Kaup­mátt­ur heim­il­anna jókst veru­lega og at­vinnu­starf­sem­inni óx þrótt­ur. Hag­ur rík­is­sjóðs fór batn­andi og allt þetta skipti miklu máli þegar heims­far­ald­ur­inn skall á.

Þá stóðum við á traust­um grunni og gát­um markað þá stefnu að vaxa út úr vand­an­um. Að standa með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um í stað þess að ráðast í skatta­hækk­an­ir og niður­skurð. Frá upp­hafi var deilt um margt varðandi út­færsl­una. Var nóg að gert eða var jafn­vel teflt á tæp­asta vað? Í öllu falli var ljóst að efna­hags­stefn­an krafðist þess að veita háar fjár­hæðir úr rík­is­sjóði í fjöl­breytt­ar stuðningsaðgerðir í þeirri trú að ávinn­ing­ur allra yrði meiri að lok­um.

Áætl­un­in gekk upp

Óhætt er að full­yrða að stefn­an hafi gengið upp. Frá síðustu ára­mót­um hef­ur at­vinnu­leysi minnkað hratt og er á svipuðum slóðum og fyr­ir far­ald­ur­inn. Störf eru 20 þúsund fleiri nú en í upp­hafi árs. Þrátt fyr­ir áfallið hef­ur kaup­mátt­ur haldið áfram að vaxa og aldrei verið meiri. Vext­ir eru lág­ir í sögu­legu sam­hengi og tek­ist hef­ur að halda verðbólgu inn­an þol­an­legra marka. Meiri um­svif, sterk einka­neysla og fleiri störf skila sér í því að af­koma rík­is­sjóðs batn­ar um ríf­lega 100 millj­arða milli ára. Skulda­horf­ur eru um 300 millj­örðum betri til næstu fimm ára en áður var áætlað.

Við stig­um stórt skref með sölu hluta eign­ar rík­is­ins í Íslands­banka í sum­ar. Með söl­unni tókst að tryggja gott verð, dreifða eign­araðild og aðkomu al­menn­ings. Verðmæti eft­ir­stand­andi hlut­ar rík­is­ins jókst síðan um­tals­vert fram eft­ir ár­inu. Með áfram­hald­andi sölu fær­um við al­manna­fé úr áhætt­u­r­ekstri yfir í upp­bygg­ingu innviða og niður­greiðslu skulda um leið og ban­kaum­hverfið fær­ist nær því sem þekk­ist í ná­granna­ríkj­um okk­ar.

Vel heppnað sölu­ferli er áminn­ing um að rík­is­rekst­ur á ekki heima þar sem sam­keppni get­ur þrif­ist. Á fjár­mála­markaði á ríkið að setja regl­ur og skapa um­gjörð fyr­ir heil­brigt um­hverfi, en eft­ir­láta öðrum að taka áhætt­una og keppa um viðskipta­vin­ina. Reglu­verk hef­ur tekið stakka­skipt­um síðastliðinn ára­tug og með aukn­um kröf­um til fyr­ir­tækja og eig­enda þeirra hef­ur verið dregið veru­lega úr áhættu fyr­ir stöðug­leika í land­inu. Enn eru dæmi um rík­is­rekst­ur þar sem frjáls sam­keppni gæti hæg­lega tekið keflið og ríkið um leið beint kröft­um sín­um í ann­an far­veg.

Lýðræðis­veisla um land allt

Í aðdrag­anda kosn­inga blés­um við til lýðræðis­veislu þar sem á þriðja tug þúsunda sjálf­stæðis­fólks stillti upp sig­urliðum í próf­kjör­um sum­ars­ins. Sjálf­boðaliðar um land allt lyftu grett­i­staki og sýndu í verki að flokk­ur­inn er hin eina sanna breiðfylk­ing stjórn­mál­anna. Með sama krafti eig­um við mikið inni fyr­ir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar í vor. Mátt­ur breiðfylk­ing­ar­inn­ar skilaði sér í kjör­kass­ana þar sem flokk­ur­inn er lang­stærsta stjórn­mála­aflið á Alþingi. Það sem meira er; rík­is­stjórn­in í heild bætti við sig fylgi og stend­ur enn sterk­ar að vígi en áður.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sótti fram und­ir slag­orðinu Land tæki­fær­anna og í þeim anda mynduðum við stjórn nýrra tæki­færa í nóv­em­ber. Stjórn nýrra tæki­færa í tækni og ný­sköp­un, grænu orku­bylt­ing­unni og fram­lagi okk­ar í bar­áttu við lofts­lags­breyt­ing­ar. En ekki síður stjórn jafnra tæki­færa, þar sem all­ir geta sótt fram og skapað sína framtíð á eig­in for­send­um.

Þess­ar áhersl­ur end­ur­spegl­ast í fyrsta fjár­laga­frum­varpi nýrr­ar stjórn­ar. Haldið verður áfram að stór­efla heil­brigðis­kerfið; Land­spít­al­ann, heil­brigðis­stofn­an­ir um land allt, heilsu­gæsl­una og sér­hæfða þjón­ustu. Frí­tekju­mark at­vinnu­tekna hjá elli­líf­eyr­isþegum hef­ur verið tvö­faldað, bæt­ur ör­orku­líf­eyr­isþega hækka um­fram al­menn­ar pró­sentu­hækk­an­ir og barna­bæt­ur halda áfram að hækka. Við erum að reisa nýtt þjóðar­sjúkra­hús, mun­um fjölga hjúkr­un­ar­heim­il­um, bæta sam­göng­ur og halda áfram að fjár­festa í Sta­f­rænu Íslandi. Mark­miðið er að byggja enn öfl­ugra, heil­brigðara, grænna og sta­f­rænna sam­fé­lag.

Rækt­um garðinn

Við finn­um það öll að lág­ir vext­ir, hóf­leg verðbólga og hátt at­vinnu­stig eru stærstu hags­muna­mál heim­il­anna í land­inu. Þetta þarf að hafa í huga á nýju ári, bæði í kom­andi kjaraviðræðum og ákvörðunum um út­gjöld hins op­in­bera næstu miss­eri. Áhersl­an má ekki vera á skamm­tíma­ávinn­ing á kostnað vel­ferðar til lengri tíma. Með sam­stilltu átaki get­um við stuðlað að bættu um­hverfi og raun­veru­leg­um fram­förum, öll­um til hags­bóta.

Verk­efnið nú er að rækta garðinn áfram. Stuðla að vexti, tryggja vel­ferð, stöðug­leika og verðmæta­sköp­un, bæði til að byggja og bæta en ekki síður til að vera búin und­ir ófyr­ir­séðar áskor­an­ir framtíðar. Það er auðvelt að leggja til ný og auk­in út­gjöld, en meira verk að standa und­ir þeim. Hug­mynd­irn­ar þurfa að hverf­ast um ný tæki­færi til að skapa verðmæti og betri lífs­kjör.

Í þeim anda höf­um við lagt ríka áherslu á að fjölga stoðunum í ís­lenskri at­vinnu­starf­semi. Sú ánægju­lega þróun hef­ur orðið að hug­verka­drif­inn iðnaður mynd­ar óðum nýja og öfl­uga stoð und­ir efna­hag lands­ins. Útflutn­ings­tekj­ur í grein­inni hafa tvö­fald­ast, úr tæp­um 80 millj­örðum árið 2013 í um 160 millj­arða 2020. Ef haldið er rétt á spil­un­um get­ur vöxt­ur­inn orðið enn meiri, sam­hliða áfram­hald­andi sókn í sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, ferðaþjón­ustu og land­búnaði. Með öfl­ugt at­vinnu­líf eru all­ar for­send­ur til að auka vel­ferð enn meira á kom­andi árum.

Ný af­rek

Það verður ekki hjá því kom­ist að nefna að nú lif­um við önn­ur jól í skugga hafta á eðli­legt líf. Höft eiga ekki að verða viðtekið eða viðvar­andi ástand og á nýju ári er brýnt að end­ur­heimta allt sem við höf­um gefið eft­ir. Með út­breidd­um bólu­setn­ing­um og af­brigðum sem valda minni veik­ind­um sjá­um við von­andi fyr­ir end­ann á ástand­inu. Mann­legt sam­fé­lag snýst allt í senn um lík­am­lega og and­lega heilsu, vel­ferð, at­vinnu og tæki­færi fólks til að freista gæf­unn­ar. Við meg­um aldrei missa sjón­ar á heild­ar­mynd­inni og aldrei gef­ast upp þótt bar­átt­an reyni á þol­mörk okk­ar.

Það er ærið til­efni til að þakka heil­brigðis­starfs­fólki og öðrum sem staðið hafa vakt­ina fyr­ir ómet­an­legt fram­lag. Sömu­leiðis má hrósa öll­um sem unnu stór af­rek við erfiðar aðstæður. Við sótt­um heims- og Evr­ópu­meist­ara­titla allt frá badm­int­on­vell­in­um yfir í lyft­inga- og fim­leika­sali. Blika­stelp­ur léku í Meist­ara­deild Evr­ópu í knatt­spyrnu og hand­bolta­fólkið okk­ar gerði garðinn fræg­an um víðan völl. Menn­ing­ar­lífið blómstraði þrátt fyr­ir mikl­ar áskor­an­ir og hæfi­leika­rík­ir Íslend­ing­ar heilluðu fólk á sviðum ís­lenskra leik­húsa, í lista­söfn­um Moskvu og á sjón­varps­skjám um all­an heim. Áfram mætti lengi telja.

Það er eng­inn skort­ur á hæfi­leik­um í ís­lensku sam­fé­lagi og með bjart­sýni og elju að vopni verður 2022 ár nýrra af­reka.

Gleðilegt nýtt ár.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2021.