Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Margir töldu eflaust að með snjóflóðum, heimsfaraldri og aurskriðum ársins 2020 væri nóg komið. Náttúran var hins vegar fljót að minna á sig að nýju. Eftir nokkurra mánaða skjálftahrinu hófst eldgos á Reykjanesi í mars. Blessunarlega hlaust takmarkaður skaði af, en sjónarspilið varð þeim mun meira. Og nú nokkrum mánuðum eftir að ró var komin yfir gosstöðvarnar skelfur jörðin á ný af miklum krafti.
Hræringar ársins voru þó víðar en í iðrum jarðar. Árið 2021 var uppgjörsár í stjórnmálunum, þegar fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin lauk heilu kjörtímabili. Þessi breiða stjórn var mynduð um stöðugleika í samfélaginu, samstarf sem sumum þótti ólíklegt til árangurs en skilaði góðu verki. Síðustu ár voru ár sóknar í nýsköpun og fjárfestingu. Ár lægri skatta og lágra vaxta. Kaupmáttur heimilanna jókst verulega og atvinnustarfseminni óx þróttur. Hagur ríkissjóðs fór batnandi og allt þetta skipti miklu máli þegar heimsfaraldurinn skall á.
Þá stóðum við á traustum grunni og gátum markað þá stefnu að vaxa út úr vandanum. Að standa með heimilum og fyrirtækjum í stað þess að ráðast í skattahækkanir og niðurskurð. Frá upphafi var deilt um margt varðandi útfærsluna. Var nóg að gert eða var jafnvel teflt á tæpasta vað? Í öllu falli var ljóst að efnahagsstefnan krafðist þess að veita háar fjárhæðir úr ríkissjóði í fjölbreyttar stuðningsaðgerðir í þeirri trú að ávinningur allra yrði meiri að lokum.
Áætlunin gekk upp
Óhætt er að fullyrða að stefnan hafi gengið upp. Frá síðustu áramótum hefur atvinnuleysi minnkað hratt og er á svipuðum slóðum og fyrir faraldurinn. Störf eru 20 þúsund fleiri nú en í upphafi árs. Þrátt fyrir áfallið hefur kaupmáttur haldið áfram að vaxa og aldrei verið meiri. Vextir eru lágir í sögulegu samhengi og tekist hefur að halda verðbólgu innan þolanlegra marka. Meiri umsvif, sterk einkaneysla og fleiri störf skila sér í því að afkoma ríkissjóðs batnar um ríflega 100 milljarða milli ára. Skuldahorfur eru um 300 milljörðum betri til næstu fimm ára en áður var áætlað.
Við stigum stórt skref með sölu hluta eignar ríkisins í Íslandsbanka í sumar. Með sölunni tókst að tryggja gott verð, dreifða eignaraðild og aðkomu almennings. Verðmæti eftirstandandi hlutar ríkisins jókst síðan umtalsvert fram eftir árinu. Með áframhaldandi sölu færum við almannafé úr áhætturekstri yfir í uppbyggingu innviða og niðurgreiðslu skulda um leið og bankaumhverfið færist nær því sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.
Vel heppnað söluferli er áminning um að ríkisrekstur á ekki heima þar sem samkeppni getur þrifist. Á fjármálamarkaði á ríkið að setja reglur og skapa umgjörð fyrir heilbrigt umhverfi, en eftirláta öðrum að taka áhættuna og keppa um viðskiptavinina. Regluverk hefur tekið stakkaskiptum síðastliðinn áratug og með auknum kröfum til fyrirtækja og eigenda þeirra hefur verið dregið verulega úr áhættu fyrir stöðugleika í landinu. Enn eru dæmi um ríkisrekstur þar sem frjáls samkeppni gæti hæglega tekið keflið og ríkið um leið beint kröftum sínum í annan farveg.
Lýðræðisveisla um land allt
Í aðdraganda kosninga blésum við til lýðræðisveislu þar sem á þriðja tug þúsunda sjálfstæðisfólks stillti upp sigurliðum í prófkjörum sumarsins. Sjálfboðaliðar um land allt lyftu grettistaki og sýndu í verki að flokkurinn er hin eina sanna breiðfylking stjórnmálanna. Með sama krafti eigum við mikið inni fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Máttur breiðfylkingarinnar skilaði sér í kjörkassana þar sem flokkurinn er langstærsta stjórnmálaaflið á Alþingi. Það sem meira er; ríkisstjórnin í heild bætti við sig fylgi og stendur enn sterkar að vígi en áður.
Sjálfstæðisflokkurinn sótti fram undir slagorðinu Land tækifæranna og í þeim anda mynduðum við stjórn nýrra tækifæra í nóvember. Stjórn nýrra tækifæra í tækni og nýsköpun, grænu orkubyltingunni og framlagi okkar í baráttu við loftslagsbreytingar. En ekki síður stjórn jafnra tækifæra, þar sem allir geta sótt fram og skapað sína framtíð á eigin forsendum.
Þessar áherslur endurspeglast í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar stjórnar. Haldið verður áfram að stórefla heilbrigðiskerfið; Landspítalann, heilbrigðisstofnanir um land allt, heilsugæsluna og sérhæfða þjónustu. Frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum hefur verið tvöfaldað, bætur örorkulífeyrisþega hækka umfram almennar prósentuhækkanir og barnabætur halda áfram að hækka. Við erum að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús, munum fjölga hjúkrunarheimilum, bæta samgöngur og halda áfram að fjárfesta í Stafrænu Íslandi. Markmiðið er að byggja enn öflugra, heilbrigðara, grænna og stafrænna samfélag.
Ræktum garðinn
Við finnum það öll að lágir vextir, hófleg verðbólga og hátt atvinnustig eru stærstu hagsmunamál heimilanna í landinu. Þetta þarf að hafa í huga á nýju ári, bæði í komandi kjaraviðræðum og ákvörðunum um útgjöld hins opinbera næstu misseri. Áherslan má ekki vera á skammtímaávinning á kostnað velferðar til lengri tíma. Með samstilltu átaki getum við stuðlað að bættu umhverfi og raunverulegum framförum, öllum til hagsbóta.
Verkefnið nú er að rækta garðinn áfram. Stuðla að vexti, tryggja velferð, stöðugleika og verðmætasköpun, bæði til að byggja og bæta en ekki síður til að vera búin undir ófyrirséðar áskoranir framtíðar. Það er auðvelt að leggja til ný og aukin útgjöld, en meira verk að standa undir þeim. Hugmyndirnar þurfa að hverfast um ný tækifæri til að skapa verðmæti og betri lífskjör.
Í þeim anda höfum við lagt ríka áherslu á að fjölga stoðunum í íslenskri atvinnustarfsemi. Sú ánægjulega þróun hefur orðið að hugverkadrifinn iðnaður myndar óðum nýja og öfluga stoð undir efnahag landsins. Útflutningstekjur í greininni hafa tvöfaldast, úr tæpum 80 milljörðum árið 2013 í um 160 milljarða 2020. Ef haldið er rétt á spilunum getur vöxturinn orðið enn meiri, samhliða áframhaldandi sókn í sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu og landbúnaði. Með öflugt atvinnulíf eru allar forsendur til að auka velferð enn meira á komandi árum.
Ný afrek
Það verður ekki hjá því komist að nefna að nú lifum við önnur jól í skugga hafta á eðlilegt líf. Höft eiga ekki að verða viðtekið eða viðvarandi ástand og á nýju ári er brýnt að endurheimta allt sem við höfum gefið eftir. Með útbreiddum bólusetningum og afbrigðum sem valda minni veikindum sjáum við vonandi fyrir endann á ástandinu. Mannlegt samfélag snýst allt í senn um líkamlega og andlega heilsu, velferð, atvinnu og tækifæri fólks til að freista gæfunnar. Við megum aldrei missa sjónar á heildarmyndinni og aldrei gefast upp þótt baráttan reyni á þolmörk okkar.
Það er ærið tilefni til að þakka heilbrigðisstarfsfólki og öðrum sem staðið hafa vaktina fyrir ómetanlegt framlag. Sömuleiðis má hrósa öllum sem unnu stór afrek við erfiðar aðstæður. Við sóttum heims- og Evrópumeistaratitla allt frá badmintonvellinum yfir í lyftinga- og fimleikasali. Blikastelpur léku í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og handboltafólkið okkar gerði garðinn frægan um víðan völl. Menningarlífið blómstraði þrátt fyrir miklar áskoranir og hæfileikaríkir Íslendingar heilluðu fólk á sviðum íslenskra leikhúsa, í listasöfnum Moskvu og á sjónvarpsskjám um allan heim. Áfram mætti lengi telja.
Það er enginn skortur á hæfileikum í íslensku samfélagi og með bjartsýni og elju að vopni verður 2022 ár nýrra afreka.
Gleðilegt nýtt ár.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2021.