Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Við höfum öll fundið með einum eða öðrum hætti fyrir veirunni sem markað hefur líf okkar síðustu tvö ár. Hún gefur hátíðum og fjölskylduaðstæðum engan gaum og gerir bara sitt líkt og veirur gera. Strax í upphafi faraldursins var sleginn sá tónn að pestir væru illviðráðanlegar og best væri að nýta kraftana í að heilbrigðiskerfið réði við verkefnið. Ástæðan er einföld; ef heilbrigðiskerfið brestur er ekki hægt að beita lífsbjargandi úrræðum sem nútímaheilbrigðiskerfi færa okkur.
Þetta er og var gott og skýrt markmið. Síðan hefur það verið fært nokkrum sinnum; veirufrítt land varð takmarkið, svo að hemja útbreiðsluna þar til búið væri að bólusetja, og að verjast innrásum ýmissa afbrigða.
Í því er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki fjárhagslegur vandi sem veldur því hve spítalinn þykir brothættur heldur aðrir þættir sem öll eru sammála um að leysa verði sem fyrst. En það er ekki bara veira sem getur valdið álagi heldur allt mögulegt. Skorður á líf fólks mega ekki verða sjálfkrafa svarið. Ef bráðamóttakan ræður ekki við rútuslys getur niðurstaðan ekki verið að loka vegum, heldur að undirbúa spítalann betur.
Hér þarf nauðsynlega formlegt samtal um það hvað er undir svo við getum sett stefnuna sameiginlega, ekki síst með það fyrir augum að veirur og áföll verða alltaf hluti af tilveru okkar. Þingið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar ættu að hafa meira um þetta allt að segja. Undir er ekki bara veira heldur heilt samfélag þar sem skaðinn getur verið langvinnur og ósýnilegur. Menntun barna er til að mynda mannréttindi þeirra og það er mikið á sig leggjandi til að hér sé hægt að halda úti sem eðlilegustu samfélagi sem ekki fer fram bak við luktar dyr. Þetta segi ég af fullum skilningi og samkennd gagnvart því álagi sem heilbrigðisstarfsfólk er undir.
Nú á næstu dögum þegar tölfræðin að baki þessarar nýju bylgju liggur fyrir verðum við að horfa yfirvegað yfir sviðið og meta áhrif og afleiðingar – bæði faraldursins og aðgerðanna – og taka ákvarðanir með það að leiðarljósi.
Ómíkron-afbrigðið virðist svo smitandi að fyrirtæki eru farin að loka, ekki vegna veikinda heldur sóttkvíar. Fjöldi fjölskyldna eyddi jólunum í sundur, í einangrun og sóttkví, og hér væri engin leið að halda úti skólahaldi í þekkjanlegri mynd ef skólar væru ekki í fríi. Ef staða heilbrigðiskerfisins kallar raunverulega á sömu aðferðafræði og í upphafi faraldursins þegar við vissum ekkert, þekktum enga tölfræði, veikindin voru alvarlegri og bóluefnin engin, þá stefnir hér í mjög mikið óefni. Næsta skref hlýtur að vera að taka ákvarðanir sameiginlega út frá staðreyndum eins hratt og heildstætt og hægt er og gæta þess að aðgerðirnar valdi ekki meiri sársauka en það sem þær eru að vernda gegn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2021.