Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:
Áður en frumstæðir ættbálkar forfeðra okkar uppgötvuðu lífskjarabótina sem felst í friðsamlegri samvinnu og viðskiptum var lítið annað fyrir þá að gera en að leita leiða til þess að komast með yfirgangi og ofbeldi yfir sem mest af eigum hinna. Við slíkar aðstæður er orku mannanna sóað í að byggja upp árásarmátt og varnargetu í stað þess að henni sé varið í hugvit og athafnasemi sem nýtist til að skapa eitthvað sem öðrum gæti þótt eftirsóknarvert og verðmætt. Þetta er umhugsunarvert á þeim tímum sem við lifum nú.
Danski rithöfundurinn og frumkvöðullinn Lars Tvede veltir einmitt fyrir sér í bók sinni um sköpunarsamfélagið (The Creative Society) hver sé mikilvægasta uppfinning mannkynssögunnar. Niðurstaða hans er að það sé sú hugmynd að óskyldir aðilar sem þekkja ekki hvor annan fáist til þess að býtta sjálfviljugir á milli sín eigum og hugmyndum á grundvelli reglna, hefða og venja sem báðir aðilar telja sig geta stólað á. Tvede leggur enn frekar út frá þessari hugmynd og segir að friðsamleg viðskipti séu í raun lykillinn að og forsenda siðmenningarinnar sjálfrar. Hvorki meira né minna.
Þetta finnst mér undirstrika vel hversu djúpt tengsl viðskipta og utanríkismála liggja. Því vissan um að þjóðir og ríki muni virða ákveðnar leikreglur er einmitt tilgangurinn með því kerfi alþjóðasamskipta sem við stólum á. Á fyrstu dögum mínum í embætti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sótti ég mikilvæga alþjóðlega fundi. Ástand heimsins um þessar mundir felur nefnilega í sér margvíslegar áminningar um að gjöfult kerfi alþjóðlegra viðskipta og samvinnu – hornsteinn siðmenningar – er ekki sjálfgefið. Við þurfum að hlúa að því og rækta það.
Ég er nýkomin úr ráðuneyti þar sem áherslan var á verðmætasköpun. Ég lít svo á að sá málaflokkur sem mér er nú treyst fyrir snúist einnig um sköpun og verndun verðmæta. Á sviði alþjóðamála beitir Ísland sér fyrir mannréttindum, kynjajafnrétti og sjálfbærni. En ráðuneytið er ekki síður nátengt viðskiptum, enda er það hluti af starfslýsingunni sjálfri – að vera ráðherra utanríkisviðskipta. Eitt af aðalverkefnum utanríkisþjónustunnar er að greiða fyrir viðskiptum og skapa tækifæri á viðskiptalegum forsendum.
Innan utanríkisþjónustunnar er eðli málsins samkvæmt mikil áhersla á að viðhalda og efla net viðskiptasamninga. Þetta á ekki síst við um fríverslunarsamninga við önnur ríki til að stuðla að hagkvæmari viðskiptum. EFTA-samstarfið opnar okkur markaði 74 ríkja eða svæða og EES-samningurinn, okkar mikilvægasti viðskipta- og samstarfssamningur, lýkur í raun upp heimamarkaði með 450 milljónum íbúa. Nýr fríverslunarsamningur við Bretland tryggir kjarnahagsmuni okkar á þeim mikilvæga markaði, efnahagssamráð við Bandaríkin fer nú fram reglulega og þá voru nýverið birtar á vegum ráðuneytisins tvær umfangsmiklar skýrslur um möguleika á auknu efnahagssamstarfi við Grænland og á norðurslóðum almennt. Þá eru ótaldir þeir loftferðasamningar, tvísköttunarsamningar og fjárfestingasamningar sem allir vinna að sömu markmiðum: að greiða götu íslensks athafnalífs. Viðskiptaþjónustan, Íslandsstofa og sendiskrifstofur okkar víða um heim vinna sömuleiðis að því að tengja saman fólk, greina tækifæri, greiða götu fyrirtækja á erlendum mörkuðum og efla orðspor Íslands. Þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum Evrópu hefur aldrei verið umfangsmeiri svo ekki sé minnst á tækifærin sem felast í uppbyggingarsjóði EES. Við höfum einnig lagt mikla áherslu á samstarf við atvinnulífið í þróunarsamvinnu, ekki síst hvað viðkemur þeim geirum þar sem íslensk fyrirtæki búa yfir mikilli sérþekkingu.
Sköpun nýrra verðmæta, hvort sem er í atvinnulífi, vísindum eða menningu, nýtur sannarlega góðs af þeim opna heimi sem við höfum lifað í undanfarna áratugi. En heimurinn gerir miklar kröfur. Við þurfum að standast alþjóðlega samkeppni, og það gildir um íslenskt atvinnulíf, bæði á heimavelli og í alþjóðlegum viðskiptum. Þess vegna þurfum við Íslendingar, líklega frekar en flestar aðrar og stærri þjóðir, að leggja áherslu á að breiða út faðminn gagnvart veröldinni og vera tilbúin til þess að bæði læra af öðrum og leggja okkar af mörkum.
Ísland er í prýðilegri stöðu til þess að geta lagt margt gott og gagnlegt fram til lausnar helstu viðfangsefnum heimsbyggðarinnar um þessar mundir, t.d. í tengslum við loftslagsmál og áframhaldandi stafræna umbyltingu. Í því felast mikil tækifæri fyrir íslenskt viðskipta-, menningar- og athafnalíf. Tækifærin eru víða og það er mikið fjármagn í umferð til verkefna á þessum sviðum og mikill áhugi til samstarfs að utan. Þar ræður ekki síst græn ímynd og orka.
Til þess að nýta þessi tækifæri, og tryggja að Ísland verði áfram land mikilla tækifæra og lífsgæða, þurfum við ætíð að líta út, bera okkur saman við það besta og keppa í alþjóðlegum meistaradeildum. Líkt og Tvede segir í riti sínu ala einangruð samfélög og ríki þar sem ritskoðun ríkir og ferðalög eru takmörkuð ekki af sér marga einstaklinga sem hafa burði og hugmyndir til þess að skora hið ríkjandi ástand á hólm. Þar sem augun lokast er hætt við að hugurinn lokist einnig.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Sjálfstæðisflokksins 12. desember 2021.