Forsenda siðmenningar eru friðsamleg viðskipti
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:

Áður en frum­stæðir ætt­bálk­ar forfeðra okk­ar upp­götvuðu lífs­kjara­bót­ina sem felst í friðsam­legri sam­vinnu og viðskipt­um var lítið annað fyr­ir þá að gera en að leita leiða til þess að kom­ast með yf­ir­gangi og of­beldi yfir sem mest af eig­um hinna. Við slík­ar aðstæður er orku mann­anna sóað í að byggja upp árás­ar­mátt og varn­ar­getu í stað þess að henni sé varið í hug­vit og at­hafna­semi sem nýt­ist til að skapa eitt­hvað sem öðrum gæti þótt eft­ir­sókn­ar­vert og verðmætt. Þetta er um­hugs­un­ar­vert á þeim tím­um sem við lif­um nú.

Danski rit­höf­und­ur­inn og frum­kvöðull­inn Lars Tvede velt­ir ein­mitt fyr­ir sér í bók sinni um sköp­un­ar­sam­fé­lagið (The Creati­ve Society) hver sé mik­il­væg­asta upp­finn­ing mann­kyns­sög­unn­ar. Niðurstaða hans er að það sé sú hug­mynd að óskyld­ir aðilar sem þekkja ekki hvor ann­an fá­ist til þess að býtta sjálf­vilj­ug­ir á milli sín eig­um og hug­mynd­um á grund­velli reglna, hefða og venja sem báðir aðilar telja sig geta stólað á. Tvede legg­ur enn frek­ar út frá þess­ari hug­mynd og seg­ir að friðsam­leg viðskipti séu í raun lyk­ill­inn að og for­senda siðmenn­ing­ar­inn­ar sjálfr­ar. Hvorki meira né minna.

Þetta finnst mér und­ir­strika vel hversu djúpt tengsl viðskipta og ut­an­rík­is­mála liggja. Því viss­an um að þjóðir og ríki muni virða ákveðnar leik­regl­ur er ein­mitt til­gang­ur­inn með því kerfi alþjóðasam­skipta sem við stól­um á. Á fyrstu dög­um mín­um í embætti ut­an­rík­is- og þró­un­ar­sam­vinnuráðherra sótti ég mik­il­væga alþjóðlega fundi. Ástand heims­ins um þess­ar mund­ir fel­ur nefni­lega í sér marg­vís­leg­ar áminn­ing­ar um að gjöf­ult kerfi alþjóðlegra viðskipta og sam­vinnu – horn­steinn siðmenn­ing­ar – er ekki sjálf­gefið. Við þurf­um að hlúa að því og rækta það.

Ég er ný­kom­in úr ráðuneyti þar sem áhersl­an var á verðmæta­sköp­un. Ég lít svo á að sá mála­flokk­ur sem mér er nú treyst fyr­ir snú­ist einnig um sköp­un og vernd­un verðmæta. Á sviði alþjóðamála beit­ir Ísland sér fyr­ir mann­rétt­ind­um, kynja­jafn­rétti og sjálf­bærni. En ráðuneytið er ekki síður ná­tengt viðskipt­um, enda er það hluti af starfs­lýs­ing­unni sjálfri – að vera ráðherra ut­an­rík­is­viðskipta. Eitt af aðal­verk­efn­um ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar er að greiða fyr­ir viðskipt­um og skapa tæki­færi á viðskipta­leg­um for­send­um.

Inn­an ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar er eðli máls­ins sam­kvæmt mik­il áhersla á að viðhalda og efla net viðskipta­samn­inga. Þetta á ekki síst við um fríversl­un­ar­samn­inga við önn­ur ríki til að stuðla að hag­kvæm­ari viðskipt­um. EFTA-sam­starfið opn­ar okk­ur markaði 74 ríkja eða svæða og EES-samn­ing­ur­inn, okk­ar mik­il­væg­asti viðskipta- og sam­starfs­samn­ing­ur, lýk­ur í raun upp heima­markaði með 450 millj­ón­um íbúa. Nýr fríversl­un­ar­samn­ing­ur við Bret­land trygg­ir kjarna­hags­muni okk­ar á þeim mik­il­væga markaði, efna­hags­sam­ráð við Banda­rík­in fer nú fram reglu­lega og þá voru ný­verið birt­ar á veg­um ráðuneyt­is­ins tvær um­fangs­mikl­ar skýrsl­ur um mögu­leika á auknu efna­hags­sam­starfi við Græn­land og á norður­slóðum al­mennt. Þá eru ótald­ir þeir loft­ferðasamn­ing­ar, tví­skött­un­ar­samn­ing­ar og fjár­fest­inga­samn­ing­ar sem all­ir vinna að sömu mark­miðum: að greiða götu ís­lensks at­hafna­lífs. Viðskiptaþjón­ust­an, Íslands­stofa og sendiskrif­stof­ur okk­ar víða um heim vinna sömu­leiðis að því að tengja sam­an fólk, greina tæki­færi, greiða götu fyr­ir­tækja á er­lend­um mörkuðum og efla orðspor Íslands. Þátt­taka Íslands í sam­starfs­áætl­un­um Evr­ópu hef­ur aldrei verið um­fangs­meiri svo ekki sé minnst á tæki­fær­in sem fel­ast í upp­bygg­ing­ar­sjóði EES. Við höf­um einnig lagt mikla áherslu á sam­starf við at­vinnu­lífið í þró­un­ar­sam­vinnu, ekki síst hvað viðkem­ur þeim geir­um þar sem ís­lensk fyr­ir­tæki búa yfir mik­illi sérþekk­ingu.

Sköp­un nýrra verðmæta, hvort sem er í at­vinnu­lífi, vís­ind­um eða menn­ingu, nýt­ur sann­ar­lega góðs af þeim opna heimi sem við höf­um lifað í und­an­farna ára­tugi. En heim­ur­inn ger­ir mikl­ar kröf­ur. Við þurf­um að stand­ast alþjóðlega sam­keppni, og það gild­ir um ís­lenskt at­vinnu­líf, bæði á heima­velli og í alþjóðleg­um viðskipt­um. Þess vegna þurf­um við Íslend­ing­ar, lík­lega frek­ar en flest­ar aðrar og stærri þjóðir, að leggja áherslu á að breiða út faðminn gagn­vart ver­öld­inni og vera til­bú­in til þess að bæði læra af öðrum og leggja okk­ar af mörk­um.

Ísland er í prýðilegri stöðu til þess að geta lagt margt gott og gagn­legt fram til lausn­ar helstu viðfangs­efn­um heims­byggðar­inn­ar um þess­ar mund­ir, t.d. í tengsl­um við lofts­lags­mál og áfram­hald­andi sta­f­ræna um­bylt­ingu. Í því fel­ast mik­il tæki­færi fyr­ir ís­lenskt viðskipta-, menn­ing­ar- og at­hafna­líf. Tæki­fær­in eru víða og það er mikið fjár­magn í um­ferð til verk­efna á þess­um sviðum og mik­ill áhugi til sam­starfs að utan. Þar ræður ekki síst græn ímynd og orka.

Til þess að nýta þessi tæki­færi, og tryggja að Ísland verði áfram land mik­illa tæki­færa og lífs­gæða, þurf­um við ætíð að líta út, bera okk­ur sam­an við það besta og keppa í alþjóðleg­um meist­ara­deild­um. Líkt og Tvede seg­ir í riti sínu ala ein­angruð sam­fé­lög og ríki þar sem rit­skoðun rík­ir og ferðalög eru tak­mörkuð ekki af sér marga ein­stak­linga sem hafa burði og hug­mynd­ir til þess að skora hið ríkj­andi ástand á hólm. Þar sem aug­un lokast er hætt við að hug­ur­inn lok­ist einnig.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Sjálfstæðisflokksins 12. desember 2021.