Sóttvarnaraðgerðir – hvað er planið?
'}}

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fjölluðu um stöðu sóttvarnarðaðgerða og horfurnar framundan í umræðum á Alþingi fyrr í dag. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, var til svara og gerði sömuleiðis grein fyrir sinni afstöðu.

Þingið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar þess ættu að hafa meira um þetta að segja – því það er meira hér undir en bara nokkurra mánaða átak í senn við veiru. Það er heilt samfélag undir þar sem mesti skaðinn getur verið seigfljótandi, langvinnur og ósýnilegur og krefst athygli ekki síður en smittölur.“ Þetta sagði Hildur Sverrisdóttir þegar hún reið á vaðið í umræðunum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en hún lýsti jafnframt áhyggjum af því að ekki væri lengur greint á milli þess að spyrja eðlilegra spurninga og hafa jaðarskoðanir þegar kemur að umræðunni um stöðu heimsfaraldursins hér á landi.

Ítrekaði hún að frelsi fólks verði ekki takmarkað nema með skýrum vilja þess í margliða samtali – nema í ítrustu neyð – og til algjörra bráðabirgða. Nú þurfi því að spyrja hver markmiðin séu, hvort stefnt sé að smitleysi eða stjórnuðu hjarðónæmi – hugsa verði málið til framtíðar. Ráðherra verði að svara því, „hvað er planið?“.

Dilja Mist Einarsdóttir tók einnig til máls og gerði stöðu barna í heimsfaraldri að umtalsefni sínu. „Við þurfum að meta hvort við ætlum að vera samfélag þar sem við förum fram á það við börn að þau taki áfram á sig byrðar til þess að vernda hina eldri, eða hvort við erum samfélag þar sem fullorðið fólk tekur á sig byrðar til þess að vernda börnin. Og hvaða vettvangur er betri til þess að ræða þetta en virðulegt Alþingi.“ Þá bætti hún við að fara þyrfti fram siðferðislegt mat á því hversu langt væri rétt að ganga á mikilvæg réttindi barna til þess að vernda aðra en þau sjálf þegar ljóst er að þau bera sáralítinn skaða af því að smitast af veirunni.

Börn hafa í tæp tvö ár sætt ítrekuðum takmörkunum, röskunum á skólagöngu og íþrótta- og tómstundastarfi og einangrun frá vinum og vandamönnum. Þótt okkur kunni að finnast eins og tíminn hafi flogið, eru tvö ár eru langur og mikilvægur þroska- og uppvaxtartími fyrir börn,“ sagði Diljá Mist en þetta væri mikið inngrip í daglegt líf þeirra – raunveruleg frelsisskerðing.

Bryndís Haraldsdóttir tók undir með Diljá Mist og Hildi. „Við erum að skerða mannréttindi og frelsi fólks án þess að lýðræðislega kjörið þing fái tækifæri til að fjalla um þær skerðingar,“ sagði Bryndís jafnframt en það hlyti að vera skýlaus krafa þeirra sem kjörin væru af þjóðinni að fá að fjalla um þær takmarkanir sem grípa þurfi til í heimsfaraldri. Kallaði hún eftir því að Alþingi tæki sóttvarnarlög til skoðunar á ný með það að markmiði að tiltaka sérstaklega í lögum að þó ráðherra hafi heimildir til að grípa til ráðstafana við aðstæður eins og í heimsfaraldri þyrfti þjóðkjörið þing einnig að fjalla um það á vettvangi Alþingis.

Þá tók Ásmundur Friðriksson einnig til máls í umræðunni og sagði að ekki mætti skerða frelsi meira en nauðsyn krefði en gæta þyrfti að þolmörkum heilbrigðiskerfisins. Koma þyrfti í veg fyrir misvísandi skilaboð og sundrung en fátt væri líklegra til að veikja aðgerðir.

Allir ræðumenn hvöttu svo nýjan heilbrigðisráðherra til dáða í störfum sínum. Umræðuna í heild, ræður allra flokka, má nálgast á vef Alþingis.