Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður:
Nú hefur stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar loks litið dagsins ljós. Eitt af einkennum hans eru tækifærin sem blasa við. Tími er nú kominn til að láta hendur standa fram úr ermum svo tækifærin renni ekki úr greipum okkar. Til þess þarf ekki síst hugrekki og kraft.
Atvinnulífið er að taka hressilega við sér og þeir atvinnuvegir sem skipta hvað mestu máli á landsbyggðinni eru í fullum blóma. Það er mikil lukka að loksins hyllir undir almennilega loðnuvertíð sem skila mun veglega til þjóðarbúsins og dreifðari byggða um landið allt. Útflutningsverðmæti eru sífellt að aukast og bendir margt til að hugverkaiðnaðurinn verði ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs og skipti þar af leiðandi sköpum í framtíð efnahagslífs Íslands. Landsbyggðin á þar einnig mikið undir, því Covid hefur einmitt kennt okkur mýmargt um tækifærin í tækninni og að staðsetning þurfi ekki að skipta máli hvort sem er í námi eða starfi.
Skynsamlegt væri að efla þá háskóla sem framarlega hafa staðið í því að efla sveigjanlegt námsform. Þar að auki er vert að nefna að með bættu flutningskerfi raforku verður brátt nóg um orkuna í Eyjafirðinum og því ekkert sem vantar nema ákvarðanir um ný verkefni til nýtingar á henni. Undanfarin misseri hefur margt verið í bígerð sem sýnir kraftinn sem leynist í Norðausturkjördæmi.
Tækifæri landshlutanna verða svo að endurspeglast í sóknaráætlunum þeirra, en sóknaráætlanir fela í sér framtíðarsýn og stefnu heimamanna á stöðu landshlutans. Landshlutasamtök sveitarfélagana gegna mikilvægu hlutverki í eflingu byggða og því er mikilvægt að stjórnvöld nýti sér þekkingu heimamanna á áskorunum landshlutanna. Því er ákaflega gott að samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verði sóknaráætlun nýtt til að styrkja landshlutana og svo að lagaleg staða landshlutasamtakanna verði skýrð gagnvart verkefnum þeirra.
Það er svo ávallt mikilvægt að hið opinbera sé ekki að þvælast fyrir að óþörfu og reynir hér á að stjórnvöld taka ákvörðun um að einfalda regluverk og standast þá freistingu að reglusetja atvinnulífið um of. Reglur atvinnulífsins verða að vera skýrar og réttlátar, hafa tilgang og markmið. Má því nefna annan jákvæðan punkt í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að stefnt verði að því að sameina Samkeppniseftirlitið og Neytendastofu. Verkefni sem mun efla íslenska samkeppni, neytendavernd og samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu tilliti.
Hlutverk stjórnvalda er þannig ekki einungis fólgið í því að setja lög og reglur, heldur vera glögg að þekkja tækifærin og hugrökk í því að standa ekki í vegi fyrir þeim.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2021.