Í nýjum stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar koma fram fjölmörg af þeim málum sem Sjálfstæðisflokkurinn setti á oddinn í nýliðnum alþingiskosningum. Ný ríkisstjórn er stjórn stöðugleika, nýsköpunar, tækniframfara og grænnar orkubyltingar.
Sjálfstæðisflokkurinn fer með grundvallarráðuneyti í stjórnarráðsinu og mun vinna af krafti að samfélagslegum og efnahagslegum framförum á tímabilinu á grunni sjálfstæðisstefnunnar.
Þannig fer flokkurinn með:
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Utanríkisráðuneytið
- Innanríkisráðuneytið
- Ráðuneyti loftslags- og orkumála
- Ráðuneyti nýsköpunar, vísinda og iðnaðar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Jón Gunnarsson er innanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Á verkefnalistanum er meðal annars að;
- Stuðla að efnahagslegum stöðugleika – umhverfi lágra vaxta og hóflegrar verðbólgu og halda áfram að lækka skatta eftir því sem þróun ríkisfjármála leyfir.
- Ráðast í orkuskiptin af fullum krafti, styðja við grænar fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu og horfa til orkutengdra verkefna og grænnar orkuframleiðslu. Lög verða sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku.
- Tryggja að heilbrigðisþjónusta sé veitt innan tiltekins ásættanlegs biðtíma og innleiða í auknum mæli þjónustutengda fjármögnun. Styrkja stöðu og hlutverk Landspítalans og skipa stjórn yfir spítalann. Enn fremur að stuðla að nýsköpun á sviði heilbrigðismála, ýta undir samstarf opinberra aðila og einkaaðila og efla fjarheilbrigðisþjónustu.
- Halda áfram að bæta stöðu eldra fólks, tryggja að einstaklingurinn sé hjartað í kerfinu þegar kemur að allri þjónustu. Tvöfalda frítekjumark atvinnutekna um næstu áramót í aðdraganda stærra endurmats á kerfinu.
- Einfalda örorkulífeyriskerfið, draga úr tekjutengingum og gera það skilvirkara, gagnsærra og réttlátara.
- Að sameina eftirlitsstofnanir í þágu aukinnar skilvirkni og samlegðar.
- Draga áfram úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni í uppbyggingu innviða.
- Styrkja hlutverk ríkissattasemjara á sviði kjarasamninga og koma standandi gerðardómi í kjaradeilum á fót.
- Styðja við nýsköpun og atvinnurekstur, m.a. með einföldun regluverks og stafrænni stjórnsýslu, áframhaldandi endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, ívilnunum vegna grænna fjárfestinga, skattalegum hvötum og auknu svigrúmi í ráðningu erlendra sérfræðinga.
- Stuðla að fjölbreyttari fjárfestingarkostum lífeyrissjóða og auka þátttöku þeirra í innviðafjárfestingum. Auka samhliða valfrelsi fólks í viðbótarlífeyrissparnaði með fjölgun fjárfestingakosta fyrir almenning.
- Halda áfram undirbúningi Sundabrautar, vinna að eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, og vinna markvisst að lagningu bundins slitlags á tengivegi. Tryggja að loftbrú verði áfram mikilvægur þáttur almenningssamgangna. Ráðist í flýtiframkvæmdir í samgöngum á grundvelli fjölbreyttrar fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila.