15 mínútna hverfi
'}}

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Reykja­vík stend­ur á tíma­mót­um – spenn­andi umróts­tím­um sem kalla munu á breyt­ing­ar. Borg­ir heims hafa dregið mik­il­væg­an lær­dóm af tím­um heims­far­ald­urs og sam­komutak­mark­ana. Fleiri hafa þurft að reiða sig á nærum­hverfið til að þjóna dag­leg­um þörf­um. Borg­ar­hverf­in hafa orðið áður óþekkt þunga­miðja í hvers­dags­legu lífi fólks.

Auk­inn fjöldi fólks hef­ur sinnt störf­um og námi frá heim­ili sínu. Vafa­laust verður auk­in fjar­vinna og fjar­nám var­an­leg af­leiðing heims­far­ald­urs. Starfs­menn munu verja fleiri vinnu­dög­um inn­an hverfa. Náms­menn munu verja fleiri náms­stund­um inn­an hverfa. Frek­ari for­send­ur skap­ast fyr­ir fjöl­breytta hverf­isþjón­ustu – fólk mun síður vilja sækja langt yfir skammt.

Hug­mynd­ir um hin svo­kölluðu 15 mín­útna hverfi hafa rutt sér til rúms víða í er­lend­um borg­um. Inn­an 15 mín­útna hverfa má nálg­ast helstu versl­un og þjón­ustu í inn­an við kort­ers göngu­fjar­lægð. For­send­ur slíkra hverfa eru gjarn­an þétt og blönduð byggð hvar íbúðar­hús­næði, vinnustaðir og þjón­usta eru í ná­lægð hvert við annað. Skól­ar mynda gjarn­an þunga­miðju hverf­anna en þar geta fjöl­skyld­ur treyst á aðgengi að skólaþjón­ustu nærri heim­ili.

Með 15 mín­útna hverf­um má stytta ferðatíma og bæta lýðheilsu – gera fleir­um kleift að sinna er­ind­um gang­andi eða hjólandi. Með góðu borg­ar­skipu­lagi má nefni­lega hafa heil­mik­il áhrif á lífs­gæði, lýðheilsu og fjöl­breytta fé­lags­lega þætti. Með lif­andi nærþjón­ustu má ýta und­ir sam­skipti ólíkra þjóðfé­lags­hópa – draga úr ein­semd og fé­lags­legri ein­angr­un – skapa lif­andi um­hverfi þar sem fólk mæt­ist og þekk­ist.

Ég vil að borg­in verði end­ur­skipu­lögð á for­send­um hverf­anna – á grund­velli sér­stöðu þeirra og styrk­leika. Öll borg­ar­hverfi verði þróuð með það fyr­ir aug­um að unnt verði að nálg­ast helstu versl­un og þjón­ustu í 15 mín­útna göngu­færi. Að öll borg­ar­hverfi bjóði skóla og leik­skóla í námunda við heim­ili. Að með sam­stilltu átaki og rétt­um skipu­lags­áhersl­um verði hver­fiskjarn­ar gædd­ir fyrra lífi. Borg­ar­hverf­in ein­kenn­ist af lif­andi mann­lífi og öfl­ugri nærþjón­ustu hvar dag­leg­ar nauðsynj­ar finn­ast í kort­ers kall­færi – og hvers­dags­legt líf verður ein­fald­ara og betra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember 2021.