Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Reykjavík stendur á tímamótum – spennandi umrótstímum sem kalla munu á breytingar. Borgir heims hafa dregið mikilvægan lærdóm af tímum heimsfaraldurs og samkomutakmarkana. Fleiri hafa þurft að reiða sig á nærumhverfið til að þjóna daglegum þörfum. Borgarhverfin hafa orðið áður óþekkt þungamiðja í hversdagslegu lífi fólks.
Aukinn fjöldi fólks hefur sinnt störfum og námi frá heimili sínu. Vafalaust verður aukin fjarvinna og fjarnám varanleg afleiðing heimsfaraldurs. Starfsmenn munu verja fleiri vinnudögum innan hverfa. Námsmenn munu verja fleiri námsstundum innan hverfa. Frekari forsendur skapast fyrir fjölbreytta hverfisþjónustu – fólk mun síður vilja sækja langt yfir skammt.
Hugmyndir um hin svokölluðu 15 mínútna hverfi hafa rutt sér til rúms víða í erlendum borgum. Innan 15 mínútna hverfa má nálgast helstu verslun og þjónustu í innan við korters göngufjarlægð. Forsendur slíkra hverfa eru gjarnan þétt og blönduð byggð hvar íbúðarhúsnæði, vinnustaðir og þjónusta eru í nálægð hvert við annað. Skólar mynda gjarnan þungamiðju hverfanna en þar geta fjölskyldur treyst á aðgengi að skólaþjónustu nærri heimili.
Með 15 mínútna hverfum má stytta ferðatíma og bæta lýðheilsu – gera fleirum kleift að sinna erindum gangandi eða hjólandi. Með góðu borgarskipulagi má nefnilega hafa heilmikil áhrif á lífsgæði, lýðheilsu og fjölbreytta félagslega þætti. Með lifandi nærþjónustu má ýta undir samskipti ólíkra þjóðfélagshópa – draga úr einsemd og félagslegri einangrun – skapa lifandi umhverfi þar sem fólk mætist og þekkist.
Ég vil að borgin verði endurskipulögð á forsendum hverfanna – á grundvelli sérstöðu þeirra og styrkleika. Öll borgarhverfi verði þróuð með það fyrir augum að unnt verði að nálgast helstu verslun og þjónustu í 15 mínútna göngufæri. Að öll borgarhverfi bjóði skóla og leikskóla í námunda við heimili. Að með samstilltu átaki og réttum skipulagsáherslum verði hverfiskjarnar gæddir fyrra lífi. Borgarhverfin einkennist af lifandi mannlífi og öflugri nærþjónustu hvar daglegar nauðsynjar finnast í korters kallfæri – og hversdagslegt líf verður einfaldara og betra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember 2021.