Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Allt frá árinu 2018 hefur verið unnið eftir sérstakri aðgerðaáætlun í réttarvörslukerfinu í málum er varða kynbundið ofbeldi. Miklum fjármunum hefur verið ráðstafað til að bæta málsmeðferð, efla rafrænt gagnaflæði og uppfæra rannsóknarbúnað og verklag hjá lögreglu. Lögreglumönnum hefur verið fjölgað í kynferðisbrotadeildum, upplýsingagjöf til brotaþola hefur verið bætt, persónulegra viðmót hefur verið innleitt og kærendum boðið upp á sálfræðimeðferð fyrir og eftir skýrslutöku. Þá hefur þjálfun lögreglumanna verið aukin, bæði þegar kemur að kynferðis- og heimilisofbeldi.
Samhliða hefur verið unnið að endurskoðun lagaákvæða er varða slík afbrot. Í febrúar voru t.d samþykkt lög um kynferðislega friðhelgi annars vegar og um umsáturseinelti hins vegar. Þá hafa verið lögð fram frumvörp sem veita brotaþolum aukinn aðgang að upplýsingum og gögnum og til að taka harðar á brotum gegn börnum. Þau ná vonandi fram að ganga á nýju þingi. Í dómsmálaráðuneytinu er einnig verið að vinna að útfærslu hugmynda um styttingu málsmeðferðartíma í sakamálum.
Allt er þetta mikilvægt og til þess fallið að bæta stöðu þolenda án þess að það komi niður á réttarstöðu þeirra sem grunaðir eru um ofbeldi.
Þð eru því mikil vonbrigði þegar fram koma ásakanir í fjölmiðlum þess efnis að þjóðfélagsstaða þolenda og gerenda hafi áhrif á meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu og dómstólum. Að það skipti máli hvort viðkomandi sé útlendingur eða Íslendingur; hreimur hafi þýðingu við yfirheyrslur; þolendum með fíkniefna- eða geðheilbrigðissögu sé síður trúað og langur rannsóknartími kynferðisbrota leiði stundum til þess að gerendur fái mikinn afslátt af refsingu vegna þess hve langur tími er liðinn frá broti.
Slíkar ásakanir frá lögmönnum og starfsfólki miðstöðva fyrir þolendur kynferðisbrota ber að taka alvarlega. Ekki dugir að hunsa eða hafna þessari gagnrýni án frekari umræðu. Ekki nægir heldur að benda á ný lagaákvæði og þá fjármuni, sem varið hefur verið í málaflokkinn til að bæta fræðslu, aðstöðu og verkferla, sem rök fyrir því að nóg sé að gert. Rétt hugarfar verður einnig að vera til staðar.
Ég hef óskað eftir því við ríkislögreglustjóra að þetta verði tekið til alvarlegrar skoðunar innan lögreglunnar. Mikilvægt er að bregðast málefnalega við allri gagnrýni og veita traustvekjandi svör við áleitnum spurningum. Eru brögð að því að lögreglumenn fari í manngreinarálit við rannsóknir kynferðisbrota? Hvernig verður best tryggt að þolendum sé ávallt sýnd tilhlýðileg nærgætni og virðing? Þolendur verða að geta treyst lögreglunni. Orð og efndir verða að fylgjast að í þessum efnum rétt eins og öðrum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2021.