Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Fyrir um hálfum mánuði áttum við umhverfisráðherra áhugavert samtal við danska viðskiptasendinefnd sem hingað kom ásamt Friðriki krónprins til að kynna sér áherslur Íslands í orku- og loftslagsmálum. Danir standa sem kunnugt er framarlega í stefnumótun og aðgerðum í þágu orkuskipta og grænnar framtíðar. Full ástæða er til að auka samstarf þjóðanna um þessi málefni og víst er að við getum lært ýmislegt af nálgun Dana.
Forskot okkar Íslendinga á flestar aðrar þjóðir þegar kemur að hlutfalli vistvænna orkugjafa, í krafti grænna auðlinda okkar og skynsamlegrar hagnýtingar á þeim, er slíkt að það væri meiriháttar slys að glata því niður. Við þurfum þess í stað að viðhalda því, sækja fram og nýta það sem stökkpall til að ná enn betri árangri í loftslagsmálum og skapa í leiðinni aukin verðmæti. En forskotið fer óðum minnkandi eftir því sem viðleitni annarra þjóða til að ná árangri verður kröftugri.
Sem dæmi um þá viðleitni má nefna „orkueyjarnar“ tvær sem Danir hafa ákveðið að byggja úti á hafi og munu safna um fimm gígavöttum af raforku frá vindorkugörðum á sjó og beina henni áfram til Danmerkur og mögulega einnig til annarra landa. Til að setja þetta í samhengi er hér um að ræða tvöfalda raforkuframleiðslu Íslands. Bretar framleiða nú þegar um 10 gígavött með vindorku á sjó og ætla að fjórfalda það magn á næstu tíu árum. Yfirlýst markmið Breta er að öll raforka þar í landi verði framleidd án losunar gróðurhúsalofttegunda 2035 – og þar með stæðu Bretar jafnfætis okkur Íslendingum hvað þetta varðar.
Áform sem þessi varpa ljósi á hve naumt forskot Íslands er. Og umfang þessara risaverkefna minnir okkur á hve við erum smá í samanburði. En smæðin getur unnið með okkur og hún kemur ekki í veg fyrir að við getum sótt fram og orðið fyrsta land heims til að verða óháð jarðefnaeldsneyti.
Við þurfum orku í stað olíu
Áætlað hefur verið að við þurfum um 600 megavött af raforku til að klára orkuskipti í samgöngum á landi og um 600 til viðbótar til að setja fiskiskipaflotann og innanlandsflug á vistvænt eldsneyti. Þetta er ekki óheyrilegt magn af raforku en þó umtalsvert, því það jafngildir um einum þriðja af raforkunotkun okkar í dag. Til viðbótar þurfum við orku fyrir ný græn atvinnutækifæri. Auðvitað gerist þetta ekki allt á einu bretti en við þurfum að byrja strax. Nýir orkukostir þurfa að vera fyrir hendi, en sjálfheldan sem rammaáætlun er komin í ógnar því markmiði. Við eigum álitlega orkukosti í bæði vatnsafli og jarðvarma en þriðji orkukosturinn, vindorkan, er orðinn mjög hagkvæmur og gæti séð okkur fyrir umtalsverðu magni af raforku með litlum óafturkræfum umhverfisáhrifum.
Það er tómt mál að tala um metnaðarfull loftslagsmarkmið fyrir Ísland án þess að horfa til þess hvað eigi að koma í staðinn fyrir jarðefnaeldsneytið – bensínið og olíuna – sem við nýtum í dag. Aðrar þjóðir eru á fleygiferð við að þróa og innleiða nýjar lausnir; vetni, metan og ýmsar útgáfur af rafeldsneyti. Við þurfum að setja aukinn kraft í slík verkefni og bjóða þau velkomin. Við höfum bæði auðlindir og þekkingu til að vera vagga nýrra lausna þegar orkuskipti eru annars vegar. Fjárfestar eiga að sjá í Íslandi kjörinn vettvang fyrir þróun slíkra lausna og við eigum að greiða götu þeirra.
Tímamótasamstarf um förgun
Á sama tíma og við þurfum að framleiða nýjar tegundir eldsneytis í stað olíu og bensíns, og nýta til þess græna innlenda orku, fögnum við líka áformum um að ná árangri með öðrum leiðum. Til dæmis með bættri orkunýtingu í anda hringrásarhagkerfisins, eins og nýting glatvarma frá járnblendiverksmiðju Elkem er gott dæmi um. Þá bárust góðar fréttir frá CarbFix í vikunni þegar tilkynnt var samstarf fyrirtækisins við álver Rio Tinto í Straumsvík um föngun kolefnis frá álverinu. Samstarfið felur í sér að á lóð álversins verði komið upp fyrstu móttöku- og förgunarstöð heims fyrir koltvísýring, en þar verður honum dælt niður og hann bundinn varanlega sem steindir í berglögum. Yfirlýsing Rio Tinto um að tæknin verði nýtt víðar í starfsemi þessa stóra alþjóðlega fyrirtækis lofar góðu fyrir þessa byltingarkenndu íslensku tækni, sem hefur þannig alla burði til að festa sig enn betur í sessi. Og samstarf fyrirtækjanna minnir okkur á að alþjóðleg tengsl og samstarf fela oft í sér mikil tækifæri.
Greinin birtist i sunnudagsblaði Morgunblaðsins 31. október 2021.