Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Ríkisstjórnin fjallaði í vikunni um stöðu heimsfaraldursins á Íslandi. Þegar fram líða stundir er líklegt að viðbrögðin hér á landi muni teljast hafa verið býsna góð í alþjóðlegum samanburði. Hér tókst að halda smitum í skefjum meðan bólusetningarátakið stóð í upphafi árs og heildarfjöldi andláta vegna sjúkdómsins er minni hér en annars staðar í Evrópu. Þó hefur legið fyrir um langa hríð að beinar afleiðingar faraldursins yrðu ekki eina mælistikan á gæði viðbragðanna. Það hefur blasað við að vandasamt gæti orðið að vinda ofan af viðbrögðunum og koma samfélaginu aftur í eðlilegt horf. Linnulaus fréttaflutningur af sóttinni og harkalegar takmarkanir á frelsi og mannréttindum fólks í þágu sóttvarna hafa hvort tveggja tekið sinn toll. Nú er kominn tími til þess að stíga skrefið til fulls í þá átt að koma samfélaginu í eðlilegt horf, jafnvel þótt ekki sé hægt að tryggja að því felist engin áhætta.
Nágrannaþjóðirnar
Það hefur verið gleðilegt að fylgjast með því hvernig frændþjóðum okkar á Norðurlöndum hefur tekist að komast út úr krísuástandi faraldursins og koma lífinu aftur í eðlilegt horf. Öll hin Norðurlöndin hafa afnumið innlendar sóttvarnaraðgerðir að nánast öllu leyti. Danir, sem voru fyrstir til þess að afnema allar takmarkanir, kippa sér ekki upp við sveiflur í daglegum smittölum, enda eru nú færri inniliggjandi þar en þegar aðgerðunum var aflétt í byrjun september.
Heildarhagsmunir
Verkefni stjórnvalda á Íslandi er töluvert flóknara en það sem sóttvarnayfirvöldum er falið. Stjórnvöldum ber að meta heildarhagsmuni samfélagsins og geta ekki takmarkað útsýni sitt við smittölur vegna einstakra sjúkdóma. Leggja þarf á vogarskálar hversu mikið er áunnið með þeim takmörkunum sem lagðar eru á samfélagið og hversu miklu er fórnað. Þær fórnir eru ekki aðeins efnahagslegar, heldur snúa þær líka að margvíslegum lífsgæðum og réttindum sem ekki er auðvelt að leggja tölfræðilega mælistiku á. Hvers virði er að lifa án þess að vera undir stöðugri áminningu um tilteknar hættur og sjúkdóma? Hvers virði er að hafa möguleika til þess að ferðast? Hvers virði er frelsi frá afskiptum stjórnvalda í daglegu lífi?
Þær takmarkanir sem nú eru í gildi innanlands eru vissulega minni en áður. Þar að auki er áberandi að fylgispekt fólks við reglur, svo sem eins og að bera rétt grímur á viðburðum, hefur minnkað verulega. Engu að síður er það skerðing á lífsgæðum til dæmis ungs fólks að þurfa að gangast undir hraðpróf til að geta sótt skólaböll. Það felst kostnaður og fyrirhöfn í hólfaskiptingu á viðburði, og takmarkanir á opnunartíma veitingastaða hafa umtalsverð áhrif á líf og lífsgæði fjölda fólks, einkum ungs fólks. Kostnaður við aðgerðir á landamærum er sömuleiðis mikill. Allt eru þetta fórnir og frávik frá þeim mannréttindum, frelsi og lífsgleði sem við viljum að einkenni okkar góða samfélag.
Skyldur stjórnvalda
Í þessari viku hafa fjórir legið á sjúkrahúsi vegna covid-19. Það er viðbúið að fleiri muni þurfa að leggjast inn og að álag geti orðið ef smitum fjölgar. Til viðbótar gera flesta lönd ráð fyrir að inflúensa og aðrar umgangspestir geti reynst skæðari en venjulega í ár. Ástæðan er fyrst og fremst sú að sóttvarnaraðgerðir vegna covid-19 drógu vitaskuld úr dreifingu annarra sjúkdóma líka. Það mun því ekki saka að fólk viðhaldi ýmsum góðum venjum í vetur, eins og að ástunda handþvott og fara gætilega í umgengni við aðra þegar einkenni kvefpesta og flensu gera vart við sig. Þá verður seint lögð nóg áhersla á að fólk ástundi heilbrigðan lífsstíl og dragi þar með úr líkum á alvarlegum veikindum, en það er vitaskuld undir hverjum og einum komið.
Það kemur hins vegar ekki til greina í mínum huga að Íslendingar þurfi að sætta sig við að álag á heilbrigðiskerfið, af ýmsum ástæðum, sé notað sem réttlæting fyrir viðvarandi skerðingu á réttindum og athafnafrelsi. Þótt sóttvarnarsjónarmið séu mikilvæg og bráðnauðsynlegt sé að efla viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins, þá er það skylda stjórnvalda á Íslandi að standa vörð um almenn lífsgæði, efnahagslíf og menningu. Til þess þurfum við að hafa hugrekki til þess að lifa með þeim áhættum sem óhjákvæmilegar eru í mannlegu samfélagi. Stjórnvöld þurftu í einhverjum skilningi að fá frelsi fólks að láni. Það kom hins vegar aldrei annað til greina en að skila því aftur til réttmætra handhafa, fólksins sjálfs.
Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. október 2021.