Kjartan Magnússon frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:
Einbeittur vilji frambjóðenda vinstriflokkanna til að stórauka ríkisútgjöld er öllum ljós. Í huga þeirra virðast öll opinber kerfi vanfjármögnuð og hleypa þarf fjölmörgum nýjum verkefnum af stokkunum, allt á kostnað skattgreiðenda að sjálfsögðu. Litlar tilraunir eru oft gerðar til kostnaðarmats en nefna má hugmyndir um borgaralaun upp á hundruð milljarða króna, 100 milljarða króna ríkisstrætó (borgarlínu), stóraukningu fjárframlaga til bóta- og millifærslukerfa af öllu tagi o.s.frv.
Tilgangur vinstriflokkanna virðist vera sá að láta sem flesta kjósendur fá á tilfinninguna að þeir muni hagnast persónulega á því að viðkomandi flokkur komist til valda og þar með í aðstöðu til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Þá verði ríkiskassinn opnaður upp á gátt, skattfé ausið í allar áttir og ekki síst í vasa kjósandans.
Slíkt viðhorf byggist á hugsun, sem hagfræðingurinn Frédéric Bastiat orðaði eitt sinn þannig: „Ríkið er tálsýnin mikla, þar sem allir leitast við að lifa á kostnað allra annarra.“
Loforðaflaumur vinstriflokkanna tekur ekki mið af stöðu ríkisfjármála. Hugmyndir um ný ríkisútgjöld tröllríða kosningaumræðunni en lítið er fjallað um hvernig eigi að eyða geigvænlegum halla á ríkissjóði, hvað þá að fjármagna alla eyðsludraumana.
Skattar skulu hækka
Ekki er hægt að byggja kosningaloforð um varanlega aukningu ríkisútgjalda á síauknum hagvexti. Slík loforð fela í sér stórfelldar skattahækkanir á almenning. Komist vinstristjórn til valda að loknum kosningum mun hún hækka skatta eins og allar vinstristjórnir á undan henni hafa gert. Og skattar myndu hækka verulega þótt einungis ætti að fjármagna hluta kosningaloforða vinstriflokkanna.
Aukin skattheimta á tekjur og eignir dregur úr fjárfestingum og atvinnustarfsemi. Þá er alkunna að þegar skattar fara yfir tiltekið mark, t.d. í prósentum af tekjum, minnka skatttekjur ríkisins. Sérhver skattahækkun hefði því minni skatttekjur í för með sér.
Reynsla Reykvíkinga
Draumur vinstrimanna stendur til þess að ný ríkisstjórn verði mynduð með þátttöku sömu flokka og mynda nú meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Stjórn borgarinnar gefur því skýra vísbendingu um hvernig slík ríkisstjórn myndi starfa. Stefna vinstri meirihlutans í Reykjavík er í stuttu máli sú að halda sköttum eins háum og hægt er og að safna skuldum eins og enginn væri morgundagurinn. Skuldir Reykjavíkurborgar eru komnar yfir hættumörk enda hlóðust þær upp í góðærinu, á meðan ríkið og mörg önnur sveitarfélög greiddu niður skuldir sínar.
Sjálfstæðisflokkurinn, XD, tekur ekki þátt í því ábyrgðarlausa uppboði á skattfé, sem vinstriflokkarnir stunda fyrir kosningarnar. Slík uppboð eru ávísun á frekari skuldasöfnun, skattahækkanir og verðbólgu, sem myndi bitna verst á almenningi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. september 2021.