Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins:
Þetta hefur verið kjörtímabil stórstígra framfara. Skattar á einstaklinga hafa verið lækkaðir um 21 milljarð á ári með lækkun tekjuskatts, og álögur á fyrirtæki lækkuð um 8 milljarða á ári með lækkun tryggingagjalds. Stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þróun hefur verið aukinn verulega.
Stórauknu fé hefur verið varið til heilbrigðismála, heilsugæslan efld, geðheilbrigðisþjónusta aukin og dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Stórauknir fjármunir hafa verið settir í vegaframkvæmdir. Dreifbýlið hefur verið ljósleiðaravætt, dreifikostnaður raforku jafnaður að fullu á milli dreifbýlis og þéttbýlis og jarðstrengjavæðingu flýtt.
Grunnur hefur verið lagður að auknum grænum fjárfestingum. Aukinn metnaður hefur verið settur í loftslagsmarkmið Íslands, ný orkustefna samþykkt sem kveður á um að hætt verði að nota olíu og bensín, og stuðningur við orkuskipti stóraukinn. Iðn-, verk- og starfsnám hefur verið styrkt.
Aðgangur borgaranna að stjórnsýslunni hefur verið einfaldaður með Stafrænu Íslandi. Innanlandsflug hefur verið gert að hagkvæmari kosti en áður. Fæðingarorlof hefur verið lengt og hámarksgreiðslur hækkaðar. Fyrstu íbúðarkaup hafa verið auðvelduð. Þá tókst ríkisstjórninni með djörfum aðgerðum að standa vörð um rekstrargrundvöll fyrirtækja og þúsundir starfa í gegnum Covid, og við öll vernduðum líf og heilsu með samstilltu átaki þjóðarinnar.
Kjörtímabilið sýnir hvaða árangri er hægt að ná með traustu stjórnarsamstarfi. Nú eru hins vegar töluverðar líkur á fimm flokka vinstristjórn ef svo fer að Sjálfstæðisflokkurinn verði utan stjórnar.
Eitt er víst: Dýr loforðaflaumur annarra flokka verður fjármagnaður með hærri sköttum á fólk og fyrirtæki. Þau segja það sjálf.Okkar sýnStefna Sjálfstæðisflokksins er skýr: Í stað þess að hækka skatta viljum við skapa skilyrði fyrir aukinni verðmætasköpun, sem er undirstaða lífskjara og velferðar.Við viljum fara leið einstaklingsframtaks, ábyrgrar hagstjórnar, meira frelsis, lægri skatta, einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu, skynsamlegrar nýtingar auðlinda, fjárfestingar í fólki, stóraukinnar nýsköpunar í öllum opinberum kerfum til að reka þau betur, létta fólki verkin og auka val fólks til að velja þjónustu sem hið opinbera greiðir fyrir óháð því hver veitir hana.
Við ætlum að koma á nýrri þjónustutryggingu sem setur fólk í fyrsta sæti og tryggir okkur þá heilbrigðisþjónustu sem við eigum rétt á. Við ætlum að ráðast í heildarendurskoðun á bæði ellilífeyri og örorkulífeyri svo að fólk njóti betur vinnuframlags síns, og með persónubundinni lífeyrisuppbót verði öllum tryggður lágmarkslífeyrir.
Við viljum taka umhverfismálin föstum tökum, fara af alvöru í orkuskipti, skipta olíu út fyrir hreina innlenda orku og skapa umhverfi þar sem fólk og fyrirtæki fjárfesta í grænum lausnum og byggja um leið upp nýjan atvinnuveg.Við þorum að taka afstöðu gegn stefnu sem lamar verðmætasköpun með íþyngjandi regluverki og hærri sköttum. Við tölum skýrt og höldum fast í grunngildin sem hafa gert okkur kleift að byggja upp eitt farsælasta samfélag í veröldinni. Við vitum hvert við stefnum og fyrir hvað við stöndum.
Við setjum valfrelsi og jöfn tækifæri einstaklinga í öndvegi, hvort sem er til náms, velferðarþjónustu, búsetu eða annars – til þess að Ísland verði, sem aldrei fyrr, land tækifæranna.Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins njótum þeirra forréttinda að hafa fengið að ræða við kjósendur um hvaða leið eigi að fara til að gera samfélag okkar enn sterkara. Gerum þá framtíðarsýn að veruleika og mætum öll á kjörstað á morgun.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. september 2021.