Arnar Þór Jónsson frambjóðandi í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi:
Áherslur sjálfstæðismanna í aðdraganda alþingiskosninga 25. september nk. miða að verðugum markmiðum til að efla og vernda hag landsmanna:
lækka skatta, hækka skattleysismörk – bæta lífskjör almennings
tryggja atvinnuöryggi, hagvöxt og lágt vaxtastig – treysta grunn farsællar framþróunar
koma í veg fyrir vinstri stjórn með tilheyrandi glundroða – tryggja samheldni og stöðugleika í stjórn landsins
tryggja valddreifingu og heilbrigða lýðræðislega stjórnarhætti
stuðla að verðmætasköpun sem eykur mátt til að styðja þá sem standa höllum fæti – fjármunir til samfélagslegra verkefna vaxa ekki á trjánum
bæta samgöngur bæði innan höfuðborgarsvæðisins og á landsbyggðinni – afstýra umferðarteppum sem auka mengun og sóa tíma fólks
útrýma biðlistum í heilbrigðiskerfinu
að Íslendingar verði leiðandi í orkuskiptum úr olíu yfir í græna orku – hitaveitur og stuðningur við aðrar þjóðir á sviði jarðhitanýtingar er stór og mikilvægur skerfur Íslendinga í baráttunni gegn loftslagsvanda
efla menntun, sérstaklega grundvallarfærni í lestri, skrift, reikningi, ásamt þekkingu á umhverfi okkar og náttúru – hlynna að uppvaxandi kynslóð
treysta gagnkvæma virðingu og tillitssemi í samskiptum
vinna gegn brottfalli ungmenna úr skólakerfinu og tryggja aðgengi að hollum og góðum mat á sanngjörnu verði í skólum landsins
að leggja rækt við menningararf þjóðarinnar og örva hæfileikaríkt listafólk okkar til dáða í blómlegu menningarlífi heima og úti um heim
bæta óskilvirk stjórnkerfi, efla þjónustuvilja, stytta boðleiðir og mæla fyrir um skýra ábyrgð þeirra sem fara með ákvörðunarvald hjá ríki, sveitarfélögum og stofnunum
taka öflugan þátt í alþjóðasamstarfi og verja þar í hvívetna hagsmuni Íslands
bregðast skynsamlega við vandmálum flóttamanna, styðja þá eftir getu á heimaslóðum og auðvelda aðlögun þeirra sem hingað til lands koma.
tryggja reynslu og þekkingu eldri borgara, „gráa gullsins“, greiðan farveg út í þjóðfélagið, með réttan hlut, bættan hag og aukna vellíðan þeirra í huga, að farið sé vel og viturlega með skattfé borgaranna
að tryggja á allan hátt framtíðarstöðu Íslendinga sem framúrskarandi velmegunarþjóðar
Löng reynsla hefur sýnt og sannað, kynslóð eftir kynslóð, að Sjálfstæðisflokknum er best treystandi til að tryggja stöðugleika og víðtæka velmegun þjóðarinnar. Nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki góðri kosningu nú aukast tvímælalaust líkur á langvarandi stjórnarkreppu og sundurlausu stjórnarfari.
Afstýrum glundroða – tryggjum þjóðinni pólitískan og efnahagslegan stöðugleika: Setjum X við D.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. september 2021.