Kjartan Magnússon frambjóðandi í 4. sæti á framboðlista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:
Samkeppnin um sjónvarpsmínúturnar er hörð þegar aðeins níu dagar eru til alþingiskosninga. Málflutningur flestra frambjóðenda einkennist af miklu hugmyndaflugi þegar kemur að nýjum ríkisútgjöldum. Skattasinnar telja að leysa megi hvers manns vanda með auknum ríkisútgjöldum og hærri sköttum. Það virðist hins vegar oft vera feimnismál hver eigi að greiða reikninginn.
Slíkur málflutningur er ábyrgðarlaus og ekki í neinu samræmi við stöðu ríkisfjármála. Árið 2021 var 144 milljarða króna halli á ríkissjóði. Þá voru fjárlög yfirstandandi árs afgreidd með 326 milljarða króna halla en horfur eru á að hann verði eitthvað lægri.
Skuldir í dag eru skattur á morgun
Samstaða var um það meðal alþingismanna að reka ríkissjóð tímabundið með miklum halla vegna kórónukreppunnar. Forsenda slíkrar skuldaaukningar var sterk staða ríkissjóðs eftir mikla lækkun ríkisskulda í góðærinu 2014-2018. Hættan er þó sú að tímabundinn hallarekstur ríkissjóðs verði varanlegur, einkum ef vinstristjórn tekur við valdataumum eftir kosningar. Við þekkjum að ýmsir „tímabundnir“ skattar hafa orðið varanlegir.
Í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins er áhersla lögð á ábyrga efnahagsstjórn og skynsamleg ríkisfjármál. Flokkurinn tekur ekki þátt í því yfirboði á skattfé, sem vinstriflokkarnir stunda nú í aðdraganda kosninga. Öll slík yfirboð eru ávísun á aukna skuldasöfnun og hækkun skatta eins og landsmenn þekkja.
Vísum vandanum ekki til komandi kynslóða
Eitt mikilvægasta verk næstu ríkisstjórnar verður að lækka skuldir ríkissjóðs. Auka þarf ráðdeild í ríkisrekstri og örva hagvöxt og auðvelda ríkinu þannig að greiða niður skuldir sínar. Við þurfum að vaxa upp úr vandanum með því að auka verðmætasköpun og gera atvinnulífinu kleift að blómstra. Það væri feigðarflan að reka ríkissjóð með halla til langframa og vísa vandanum þannig til komandi kynslóða.
Oft vantar upp á að ríkisfjármál séu rædd með ábyrgum hætti í kosningabaráttunni. Margir frambjóðendur tala fjálglega og dreymnir á svip um mikla hækkun ríkisútgjalda og ný verkefni upp á hundruð milljarða króna. Reikninginn á að senda á ríkissjóð, sem þýðir að þjarma á enn frekar að skattpíndum almenningi. Oft vantar upp á að stjórnendur umræðuþátta krefji frambjóðendur um skýr svör við því hvernig eigi að fjármagna herlegheitin. Verður það gert með hækkun skatta, nýjum lántökum, óðaverðbólgu eða jafnvel þessu öllu? Og hvernig á að eyða halla ríkissjóðs, sem er auðvitað ærið verkefni án þess að nokkur ný útgjöld bætist við?
Íslendingar axla nú næsthæstu skattbyrðina innan OECD. Loforðaflaumur vinstrisinnaðra frambjóðenda þýðir að þeir vilja koma Íslandi í efsta sæti yfir þyngstu skattbyrðina.
Sjálfstæðisflokkurinn, XD, er hins vegar eini flokkurinn, sem leggur áherslu á traustan rekstur ríkissjóðs og lækkun skatta.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. september 2021.