Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Það er óum­deilt að Ísland er háskatta­ríki hvernig sem á það er litið og frek­ar til­efni til þess að lækka álög­ur en að hækka þær. Skatt­kerfið á Íslandi er þegar tekju­jafn­andi og ójöfnuður mæl­ist einna minnst­ur hér á landi. Það heyr­ist þó kunn­ug­legt stef úr her­búðum vinstri manna í aðdrag­anda kosn­inga, að lausn­in við flest­um vanda­mál­um sé auk­in skatt­heimta. Sag­an kenn­ir okk­ur þó að háir skatt­ar bein­ast ekki bara að stór­fyr­ir­tækj­um og efna­meiri ein­stak­ling­um, jafn­vel þó þeir hafi verið kynnt­ir til leiks þannig, held­ur bitna þeir í flest­um til­vik­um á millistéttar­fólki. Við þurf­um ekki að fara lengra aft­ur en til þeirr­ar rík­is­stjórn­ar sem sat á ár­un­um 2009-2013 til að sjá dæmi um það þegar tekju­skatt­ur hækkaði á milli­tekju­hópa.

Í dæg­urþrasi stjórn­mál­anna er mjög auðvelt að tala um hærri skatta á hina ríku og stór­fyr­ir­tæki og eðli máls­ins sam­kvæmt tengja fæst­ir við það og sjá þar af leiðandi ekki fyr­ir sér að greiða hærri skatta. Við ætt­um öll að láta okk­ur umræðu um skatta varða, því það kem­ur flest­um á óvart hversu háir þeir eru í raun og veru hér á landi. Það má í raun segja að skatt­ur­inn fylgi okk­ur frá vöggu til graf­ar. Fyr­ir utan tekju­skatt og út­svar af laun­um greiðum við virðis­auka­skatt af allri neyslu, fjár­magn­s­tekju­skatt af öll­um þeim vöxt­um sem við kunn­um að fá í gegn­um tíðina og aðra skatta sem stjórn­mála­mönn­um hef­ur í gegn­um tíðina þótt sjálfsagt að leggja á.

Það felst eng­in dyggð í því að tala fyr­ir hærri skött­um. Þeir stjórn­mála­menn sem það gera hafa það eina mark­mið að slá um sig og gera góðverk á kostnað annarra. Vissu­lega kunna ein­staka lof­orð að hljóma vel í eyr­um þeirra sem sjá fram á að njóta góðs af þeim en staðreynd­in er samt sú að öll skatt­heimta hef­ur áhrif og sjaldn­ast eru þau áhrif til þess fall­in að bæta líf okk­ar í stóra sam­hengi hlut­anna. Reynsla annarra landa af hárri skatt­heimtu á ein­staka hópa, fyr­ir­tæki eða at­vinnu­grein­ar, er sú að tekju­öfl­un hins op­in­bera er nær aldrei í takt við þær vænt­ing­ar sem boðaðar voru og þeir hóp­ar sem mögu­lega áttu að njóta góðs af svo hárri skatt­heimtu verða fyr­ir von­brigðum.

Það er einnig mik­il­vægt í þess­ari umræðu að bera virðingu fyr­ir þeim verðmæt­um sem fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar skapa. Þau verðmæti eru ekki eign rík­is­ins og ríkið á enga heimt­ingu á þeim, þó umræðan sé oft­ast með þeim hætti. Sá ein­stak­ling­ur sem legg­ur hart að sér í vinnu á að njóta afrakst­urs af erfiði sínu. Ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnu­markaði ætti að skoða launa­seðla sína vel og meta svo hvort það sem eft­ir stend­ur sé góður mæli­kv­arði á þá vinnu sem það hef­ur innt af hendi – og velta fyr­ir sér í fram­hald­inu hvort það vilji í raun og veru borga meira til rík­is­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2021.