Kjartan Magnússon, frambjóðandi í 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:
Verði úrslit kosninganna 25. september í samræmi við skoðanakannanir, verða níu flokkar á Alþingi næstu fjögur árin. Stjórnarmyndun gæti reynst erfið og hætta er á að niðurstaðan yrði vinstri stjórn 5-6 smáflokka. Slík stjórn yrði hvorki traust né vel starfhæf.
Flestir vita að stöðugleiki í stjórnmálum er mikilvægur. Bitur reynsla margra þjóða sýnir að eftir því sem þingflokkum fjölgar dregur úr stöðugleika í stjórnmálum en líkurnar aukast á sundrungu og upplausn. Fáir vilja vonandi að Íslendingar taki sér ítölsk stjórnmál til fyrirmyndar þar sem 66 ríkisstjórnir hafa setið sl. 76 ár. Hver ríkisstjórn hefur því aðeins setið í 14 mánuði að meðaltali. Ástandið hefur vissulega verið mun betra á Íslandi en upphlaup í stjórnmálum hafa samt verið tíðari hér en í þeim löndum, sem við berum okkur helst saman við. Hér hafa ríkisstjórnir stundum hrökklast frá þegar þjóðin þurfti mest á því að halda að þær héldu saman.
Eitt helsta hlutverk alþingismanna er að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum. Æskilegt er að sú stjórn sé svo vel starfhæf að hún geti án vandræða tekið afstöðu til viðfangsefna og álitamála jafnharðan og þau ber að höndum. Stjórnin þarf einnig að vera svo traust að hún haldi út heilt kjörtímabil án teljandi vandræða eða upphlaupa.
Stjórnmálakerfi samsteypustjórna eins og hið íslenska gerir mun ríkari kröfur til samstarfsþroska stjórnmálamanna en tveggja til þriggja flokka kerfi. Til að gegna því meginhlutverk sínu að skipa landinu trausta og starfhæfa ríkisstjórn þurfa flokkarnir að slá af ýtrustu stefnumálum sínum og semja um þau við samstarfsflokka sína. Skiljanlegt er að þingmenn vilji helst vinna með þeim flokkum í ríkisstjórn, sem standa þeim næst í málefnum. Við stjórnarmyndun er þó ekki síður mikilvægt að hafa það markmið að leiðarljósi að stjórnin verði stöðug og farsæl.
Traust ríkisstjórn
Það kom mörgum á óvart þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð og ýmsir spáðu henni ekki langlífi. Raunin varð önnur. Ríkisstjórnin hefur unnið vel saman allt kjörtímabilið og greinilegt er að mikið traust er á milli forystumanna hennar. Á kjörtímabilinu virðist aldrei hafa komið upp sú staða að samstarfið væri í hættu og allra síst þegar stjórnin stóð frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, t.d. vegna sóttvarna og í efnahagsmálum.
Eftir því sem þingflokkum fjölgar reynir meira á samstarfshæfni alþingismanna þegar kemur að myndun ríkisstjórnar sem og varðandi þingstörfin almennt. Ljóst er að almenningur gerir skýra kröfu til stjórnmálamanna að þeir standi undir því hlutverki sínu að mynda trausta og starfhæfa ríkisstjórn.
Við þessar aðstæður bregður svo við að fram koma yfirlýsingar frá forystumönnum Pírata og Samfylkingarinnar um að þeir útiloki fyrir fram samstarf við suma aðra flokka í ríkisstjórn, þar á meðal Sjálfstæðisflokkinn, þann flokk sem nýtur mests stuðnings.
Ljóst er að slík útilokunarstefna mun gera stjórnarmyndun að loknum kosningum enn torveldari en ella. En hún lýsir einnig neikvæðu viðhorfi, ákveðnu ofstæki og skilningsleysi á mikilvægi þess að allir þingmenn þurfi að geta unnið saman, óháð því úr hvaða flokki þeir koma.
Ekki er sjálfsagt að við Íslendingar njótum endalausrar velgengni. Við þekkjum að djúp kreppa getur komið í kjölfar mikils góðæris. Þjóðin þarf þroskaða og velviljaða stjórnmálamenn, sem geta snúið bökum saman í þágu þjóðarinnar og sent sundurlyndisfjandann á sextugt dýpi þegar á þarf að halda.
Kjósum samstöðu í stað sundrungar
Leiðin til farsældar í stjórnmálum er ekki sú að stjórnmálaflokkarnir keppist við að útiloka fyrirfram samstarf hver við annan. Kjósendur ættu ekki að styðja flokka sem boða slíka útilokunarstefnu.
Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum eykur líkur á að hægt verði að mynda trausta meirihlutastjórn tveggja eða þriggja flokka að loknum kosningum. Í slíku stjórnarsamstarfi mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og sókn í atvinnumálum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. september 2021.