Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður:
Velferðarmál eru umfangsmesti útgjaldaflokkurinn fyrir sveitarfélög og ríkissjóð, en jafnframt einn sá mikilvægasti og afdrifaríkasti fyrir lífsgæði almennings í landinu. Ef ekkert er að gert þarf sífellt aukið fjármagn og skattfé í þennan málaflokk. Gríðarleg tækifæri eru til að auka gæðin, bæta þjónustuna og auka skilvirkni. Það þarf nýja hugsun, aukna áherslu á nýsköpun og tækni.
Fjölga þarf starfsfólki á vissum sviðum heilbrigðisþjónustu, svo sem við umönnun aldraðra, en einnig sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki, m.a. í gjörgæslu og bráðaþjónustu. Ekki síst þarf að virkja betur sjálfstætt starfandi fyrirtæki á þessu sviði og draga úr umfangi ríkisrekstrar. Veruleg tækifæri eru í úrbótum í samstarfi og samþættingu mismunandi þjónustusviða félags- og heilbrigðisþjónustu, svo og milli einstakra þjónustueininga ríkisrekstrar og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks og -fyrirtækja.
Einstaklingurinn í fyrirrúmi ekki kerfið
Nauðsynlegt er að skipuleggja alla heilbrigðisþjónustu með tilliti til þarfa og hagsmuna þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.
Samningar þurfa að liggja fyrir um kaup á þjónustu við sjúkrastofnanir og sérfræðinga á sviði velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn.
Við verðum að finna leiðir til að koma til móts við fólk út frá þörfum þess hverju sinni. Þegar horft er á þá þjónustu sem eldra fólki stendur til boða stingur í stúf að hluti af þjónustunni er á herðum sveitarfélaga en hluti hjá ríkinu. Þetta veldur því að flækjustigið er meira og þjónustuþeginn fellur stundum á milli. Átökin snúast þannig oft um fjármagn á milli ríkis og sveitarfélaga, – því rugli þarf að linna. Hér er í öllum tilfellum um skattfé okkar að ræða og algjörlega óásættanlegt að tvö stjórnsýslustig landsins eyði tíma, orku og fjármunum í að takast á í stað þess að einblína á að bæta þjónustuna. Það er því eðlilegt að spyrja eftirfarandi spurningar: Eiga sveitarfélögin að taka yfir málefni aldraðra, eða á málaflokkurinn að vera á herðum ríkisins? Þjónustuna geta svo ýmsir veitt, bæði opinberir og einkaaðilar. Þótt fjármagnið komi úr sjóðum okkar allra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. september 2021.