Vörumst afvegaleiðslu og öfugmæli
'}}

Arnar Þór Jónson, frambjóðandi í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi:

Það hefur verið dýrmæt reynsla að stíga inn á hinn pólitíska vettvang. Þessi reynsla hefur verið holl og góð að því leyti að ég hef kynnst fleira fólki og sjónarmiðum. Frammi fyrir þeim krafti, áræði, hjálpsemi og óeigingirni sem hefur mætt mér á þessari vegferð fyllist ég bjartsýni um framtíð Íslands og fólksins sem hér býr.

Um leið verður þó að viðurkennast að ekki er allt til fyrirmyndar. Mér hefur t.d. þótt sérlega leitt hversu ómálefnalegur málflutningur forkólfa Viðreisnar hefur verið. Í Morgunblaðsgrein 28. ágúst sl. varaði ég lesendur við stjórnmálaflokkum sem tala tungum tveim. Upptalningin í þeirri grein hefði mátt vera lengri, sbr. endurtekin greinaskrif fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðið, sem kristalla öfugmælin í stefnu og hugmyndafræði Viðreisnar. Málflutning hans er ástæða til að gera að sérstöku umfjöllunarefni því öfugt við minni spámenn, sem augljóslega vita ekki hvað þeir gera, þá á þessi talsmaður, sem áður var í betri vist, að vita betur og því gæta betur að staðhæfingum sínum.

Með vísun til áðurnefndrar greinar minnar bæti ég af þessu tilefni við, að full ástæða er til að varast stjórnmálaflokka sem:

tala fjálglega um virkt lýðræði en hafna prófkjöri við val á frambjóðendum sínum

kenna pólitískan rétttrúnað og kreddur við „frjálslyndi“

gera heilbrigðan efa og varfærni tortryggileg út frá einhvers konar EES-hreintrúarstefnu

vilja gleyma því að EES-samningnum var ætlað að vera sáttmáli jafnræðis og gagnkvæmni, eins og hvert gott hjónaband á að vera

stilla klassísku frjálslyndi upp sem öfgahyggju og hallmæla tali um mikilvægi þess að þjóð okkar gæti fullveldis síns og réttarins til að ákveða hlutskipti sitt sem mest sjálf

láta í það skína að ófrávíkjanleg og gagnrýnislaus hollusta við EES-samninginn jafngildi nýrri tegund frjálslyndis

telja „hagstjórn“ Íslendinga best borgið með því að fela Seðlabanka ESB öll völd í þeim efnum

kalla eftir því að íslensk þjóð afsali allri sjálfsábyrgð í hendur ólýðræðislegu, fjölþjóðlegu, miðstýrðu valdi á erlendri grund

halda af þrjósku áfram að ræða um ESB út frá ímynduðum glansmyndum (pótemkíntjöldum) fremur en staðreyndum sem öllum mega vera sýnilegar

gera engar athugasemdir við þróun ESB í átt til yfirþjóðlegs sambandsríkis þótt sú þróun byggist ekki á neinum lýðræðislegum grunni

neita að horfast í augu við hvernig Brussel-valdið seilist til stöðugt meiri áhrifa á sviði innanríkismála aðildarþjóða með þeim afleiðingum að sífellt fleiri mikilvæg réttarsvið verða undanskilin vilja og lýðræðislegu aðhaldi kjósenda og kjörinna fulltrúa þeirra

sjá ekki að íslensk fyrirtæki glíma við hamlandi regluverk og ærinn kostnað af þeim völdum, sem réttast er að kalla sligandi kerfisvanda

vilja beina sífellt fleiri íslenskum fyrirtækjum, sem öll teljast lítil eða meðalstór á evrópskan mælikvarða, inn í rekstrarumhverfi þar sem regluverk er enn flóknara en hér á Íslandi og kröfur um eftirfylgni, eftirlit og innleiðingar íþyngja rekstri og minnka arðsemi

kjósa að ræða ekki veldisvöxt Evrópuréttarreglna, sem teljast bindandi gagnvart aðildarríkjunum (regluverkið sem Danir og Bretar þurftu að innleiða við inngöngu í EBE/ESB árið 1973 nam 2.800 blaðsíðum, en 2020, árið sem Bretar gengu út úr sambandinu, var umfangið komið yfir 90.000 blaðsíður!)

neita að horfast í augu við að síaukin krafa um réttareiningu innan ESB (og EES) rýmir smám saman út reglum sem settar hafa verið innanlands m.t.t. sérstakra aðstæðna, þjóðarhagsmuna o.s.frv.

telja að lagaframkvæmd á Íslandi eigi að vera háð eftirliti embættismanna í Brussel

treysta erlendu skrifstofuveldi betur en lýðveldisstjórnarforminu

vilja beina okkur inn í umhverfi þar sem yfirvöld seilast stöðugt lengra inn í einkalíf fólks

horfa fram hjá því að aðild Íslands að EES 1993 snerist fyrst og síðast um aðgang að hinum svonefnda innri markaði. Krafa um forgang ESB-réttar var fyrst skjalfest með Lissabon-sáttmálanum 2007 sem Ísland á enga aðild að

lofsama ESB fyrir að vera háborg lýðræðis í stað þess að horfa á hvernig stofnanir ESB, sérstaklega dómstóll sambandsins, ganga gegn þeirri hugsjón í réttarframkvæmd með því að brjóta aðildarríkin undir eina samræmda stefnu á grundvelli almennra stefnuyfirlýsinga um „æ nánari samruna“, fjórfrelsið, óhefta markaðshyggju o.fl.

neita að horfast í augu við að í árslok 2019 var heildaratvinnuleysi á evrusvæðinu 7,4% en 3,8% á Íslandi og hagþróun hefur um margt verið hagstæðari hér á landi en í ESB. Verg landsframleiðsla á mann á föstu verðlagi hækkaði um 16% á tímabilinu 2001-2019 á evrusvæðinu, um 22% í ESB öllu en um 32% á Íslandi. Á árunum 2010-2019 jókst kaupmáttur um 51,2% á Íslandi samanborið við ESB (28 lönd) um 28,9% og á evrusvæðinu (19 lönd) um 26%. Sé litið til erlendrar skuldastöðu hins opinbera á Íslandi kemur í ljós að í árslok 2019 var hún 37% af vergri landsframleiðslu meðan samsvarandi hlutföll á evrusvæðinu var 98% og 90,7% í ESB. Talið er að ofangreind hlutföll séu vísbending um nauðsynlega framtíðarskattheimtu í hverju tilviki fyrir sig. Því hefur staða Íslands verið miklum mun betri hvað þetta varðar. Það er jafnframt gott til þess að vita að hlutfall erlendra skulda í erlendri skuldastöðu Íslands er lágt (6%) sem gerir hana viðráðanlegri

Ofangreindar staðreyndir sýna að efnahagsmál, atvinnustig, afkoma og tekjuskipting hafa þróast með farsælli hætti á Íslandi en í mörgum þeim löndum sem við berum okkur oft saman við. Því er fráleitt að ætla að okkur yrði betur borgið í samfloti með evrulöndum, sem málsvarar Viðreisnar leggja nú kapp á að við tengjumst, þrátt fyrir þá skerðingu sjálfstæðis okkar sem það fæli í sér. Íslendingar hafa á umræddu tímabili náð mun betri efnahagsárangri en evruþjóðirnar. Það bendir síst til þess að upptaka evru yrði heillaspor fyrir Íslendinga.

Það er miður að rangfærslur um þessi atriði skyldu verða til þess að sumir sjálfstæðismenn hurfu frá stuðningi við flokkinn. Von mín er sú að málefnalegar ábendingar um óheillavænlega og ólýðræðislega þróun mála leiði sem flesta þeirra til baka til hinna gömlu, góðu gilda Sjálfstæðisflokksins.

Morgunblaðið 7. sept. 2021